Nýting Krýsuvíkursvæðis

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 16:45:43 (2688)

1996-02-01 16:45:43# 120. lþ. 82.8 fundur 211. mál: #A nýting Krýsuvíkursvæðis# þál., Flm. HjÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[16:45]

Flm. (Hjálmar Árnason):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um könnun á nýtingu Krýsuvíkursvæðis. Tillögu þessa flyt ég ásamt hv. varaþm. Drífu Sigfúsdóttur sem sat á þingi þegar þskj. var dreift. Tillagan er svo hljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera úttekt á möguleikum Krýsuvíkursvæðisins í Gullbringusýslu á sviði iðnaðar, orku, ferðaþjónustu o.fl.``

Í rauninni þarf ekki að hafa öllu fleiri orð um þessa þáltill. Efni hennar skýrir sig sjalft. Krýsuvíkursvæðið er þekkt, þetta er mikil náttúruperla og þar eru miklir möguleikar vannýttir. Þarna er mikil náttúrufegurð, verulegur jarðhiti, stórt stöðuvatn og þannig má áfram telja. Ég vek athygli á því að mýmargar athuganir eða upp undir 30 skýrslur hafa verið samdar um einstaka þætti Krýsuvíkursvæðisins, þar sem menn hafa skoðað jarðveg, háhita o.s.frv. Gallinn er sá, að hver skýrsla er skrifuð um afmarkað efni, en engin eða lítil tilraun virðist hafa verið gerð til þess að safna þessum upplýsingum saman á einn stað þannig að heildarmöguleikar svæðisins séu skoðaðir. Ég bendi á reynslu af sambærilegum svæðum eins og Svartsengi og Suðurnesjum og Nesjavöllum í Árnessýslu en þau svæði bæði hafa skilað þjóðarbúinu miklum verðmætum með þeim virkjunum sem þar hafa átt sér stað og nýtingu á náttúruauðlind, bæði sem ferðamannastaðir og ekki síður sem orkugefandi staðir.

Áhugi erlendra sem innlendra fjárfesta á jarðhita og jarðefnum ýmiss konar á Íslandi virðist fara vaxandi og það sem mestu máli skiptir er líklega að hafa svör á reiðum höndum þegar að því kemur að t.d. beiðni komi erlendis frá eða fyrirspurnir um fjárfestingu á þessu svæði.

Þá bendi ég enn fremur á það að árið 1975 lá fyrir skýrsla unnin af Sameinuðu þjóðunum, sem kynnt var íslenskum stjórnvöldum, þar sem Sameinuðu þjóðirnar buðust til þess að fara í miklar framkvæmdir, fyrst og fremst með hliðsjón af ferðamannaþjónustunni við Krýsuvíkursvæðið, og það sem var meira, það stóð til boða að leggja verulegt erlent fjármagn í þetta. Illu heilli var sú skýrsla lögð til hliðar. Það er aukaatriði. Við skulum horfa til framtíðar. Þáltill. felur raunar ekki annað í sér en að gerð verði nákvæm úttekt og samantekt á þeim möguleikum sem Krýsuvíkursvæðið felur í sér. Spurningin snýst um að hafa allar upplýsingar aðgengilegar þannig að hefja megi markaðsleit til að nýta þau verðmæti sem felast í Krýsuvík. Þau verðmæti felast í orku og í jarðvarma en ekki síst í náttúrufegurð. Hafa ber í huga að jafnvægi milli hinna ólíku hagsmuna sem eru á nýtingu jarðvarma og jarðefna annars vegar og hins vegar náttúrufegurðar og ferðaþjónustu. Möguleikarnir eru fyrir hendi en þáltill. felur í sér að stefna sé mörkuð í málinu þannig að í fyllingu tímans verði allt til reiðu.

Að svo mæltu, herra forseti, mælist ég til þess að tillögunni verði vísað til hv. iðnn.