Bókaútgáfa

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 17:09:31 (2692)

1996-02-01 17:09:31# 120. lþ. 82.10 fundur 220. mál: #A bókaútgáfa# þál., Flm. ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[17:09]

Flm. (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 14. þm. Reykv., Kristínu Ástgeirsdóttur, fyrir hennar orð og undirtektir við þá þáltill. sem hér kemur fram. Ég tel að sú fyrirspurn sem hún gat um og lögð var fram á haustþinginu þar sem óskað var eftir skýrslu hafi verið mjög þörf. Ég hlakka til að fá þá niðurstöðu sem þar mun koma fram. Ég bind vonir við að í þeirri skýrslu verði staðfest það sem hér hefur verið sagt af flm. og síðasta ræðumanni og sú niðurstaða og lýsing á ástandi ásamt þeim tillögum til úrbóta sem ég vænti að gæti komið út úr þeim starfshópi sem hér er lagt til að taki til starfa. Þetta tvennt sýnir að ekki má bíða með mjög róttækar aðgerðir á þessu sviði.

Það er öldungis hárrétt að margir framsóknarmenn eru fylgjandi því að 14% virðisaukaskattur verði tekinn af bókum, hvort sem þeir framsóknarmenn eru innan þings eða utan. Ég get einungis talað fyrir sjálfan mig. Ég er harður baráttumaður fyrir því að 14% virðisaukaskatturinn verði lagður niður af bókum og hef barist fyrir því áður en ég kom hingað á þing og mun halda því áfram með þeim aðferðum sem ég tel að vænlegastar séu til árangurs.

Rétt til þess að gefa hugmynd um hvaða fjármagn er verið að ræða um, þá er mér tjáð að virðisaukaskatturinn á bækur hafi skilað á árinu 1994 um 120 millj. Það má reikna þessar tekjur nokkuð mismunandi eftir því hvað er með talið í tekjuöfluninni. Hér er að sjálfsögðu um mikla peninga að ræða og menn hafa tekið stórar glímur í fjárlagagerðinni um minni fjárhæðir. Ég hef sagt sem svo að við verðum hvað þetta mál áhrærir að lyfta okkur upp úr dægurþrasi. Þegar ég segi dægurþras er ég ekki að gera lítið úr neinum af þeim góðu málefnum sem þessi þjóð beitir sér fyrir og alþingismenn í harðri baráttu um það takmarkaða fjármagn sem ríkisvaldið hefur. En við verðum að horfa til þess að ef við töpum tungu okkar eða sláum af í menningarlegum verðmætum er okkur hætta búin. Við munum ekki geta með nokkrum hætti náð þeim verðmætum aftur á skömmum tíma, hversu mikið fjármagn sem við annars leggjum í það. Þetta er einfaldlega ekki verðmæti sem hægt er að kaupa og selja. Þau búa í okkur sjálfum, þau búa í börnunum okkar, þau búa í menningararfi þjóðarinnar. Slíkt verður ekki aftur keypt fyrir 100--200 millj. þegar við höfum glatað því.

Það er alveg óþarfi, en þó ætla ég að drepa á það, að minna á þá sterku samkeppni sem fyrirsjáanlega er fram undan og er hún þó næg fyrir í sjónvarpsefni og öðru efni sem að okkur streymir. Auðvitað fögnum við þessu. Auðvitað ætlum við ekki að múra okkur hér inni á Íslandi. En sá misskilningur hefur verið uppi hjá mörgum að við eigum jafnvel að fyrirverða okkur fyrir menningu okkar og tungu okkar og það sé miklu ákjósanlegra og alþjóðlegra að tala öðrum tungum eða sletta slíku málfari.

Hér hefur verið bent á þær þjóðir sem við þekkjum, Englendinga, Norðmenn og Frakka og raunar eru þær fleiri. Þessar þjóðir sem ekki eru í neinni vörn, þarna eru stór málsamfélög, skammast sín ekki. Þær skammast sín ekki fyrir að gera þessum verðmætum svo hátt undir höfði að duga megi.

Um leið og ég kem að virðisaukaskattinum og tek undir að það væri mjög þörf aðgerð til styrktar bókinni, þá felst einmitt í tillögunni sú vissa að það sé ekki aðeins 14% virðisaukaskattur og niðurfelling hans sem geti komið bókinni að gagni. Við verðum að horfa á þetta í miklu víðara samhengi. Það má koma bókinni til hjálpar á öðrum sviðum. Það er hægt að styðja við bakið á rithöfundum. Það er hægt að styðja bókasöfn, það er hægt að bæta starfsumhverfi prentiðnaðar, bóksölu og alla þá þætti sem eru á leið bókarinnar frá því að hún er sköpuð og prentuð og þar til hún kemur í hendur lesandans. Þess vegna held ég að það sé ráð í þessari stöðu að þrengja ekki umræðuna og lenda ekki inni í þessari þröngu stöðu um fjárlög, fjárveitingar og einstaka aðgerð eins og 14% virðisaukaskatt, þótt ég muni svo sannarlega berjast fyrir því að hann verði afnumin, heldur að líta á þetta í stærra samhengi. Vona ég að með þeim hætti verði hægt að ýta þessu máli áfram.

[17:15]

Ég ætla að taka sérstaklega undir eitt af því ágæta sem hv. 14. þm. Reykv., Kristín Ástgeirsdóttir, gat um, þ.e. lesturinn. Ég hygg að mörgum skiljist ekki mikilvægi þess að lesa bæði fyrir sjálfan sig og lesa fyrir börn. Ekki aðeins er það lesturinn sjálfur, þ.e. að lesa frá orði til orðs, heldur einmitt sú hugmyndaauðgi og hugarþjálfun sem ræðumaðurinn gat einmitt um áðan. Slíkt mun skila hverjum manni vel fram á við ef hann hefur alist upp við það í barnæsku. Við skulum gæta þess að við erum ekki að tala um lestur endilega á íslensku þjóðsögunum eða íslensku fornritunum. Það er alls ekki það. Við stöndum bara einfaldlega frammi fyrir þeim staðreyndum að sá sem ekki getur lesið er ekki fær um að vinna á tölvu eða koma texta frá sér. Við erum því ekki að tala um einhverja sérvisku, þjóðerniskennd eða einangrunarhyggju í menningarmálum. Við erum að tala um mjög brýna nauðsyn þess að þjóðin geti notað þau verkfæri sem fyrirsjáanlega verða hverjum manni nauðsynleg í venjulegu starfi á komandi árum.