Bókaútgáfa

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 17:17:43 (2693)

1996-02-01 17:17:43# 120. lþ. 82.10 fundur 220. mál: #A bókaútgáfa# þál., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[17:17]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fram komna tillögu og rökstuðninginn sem henni fylgir. Hér er vissulega mál á ferðinni sem skiptir þjóð vora miklu. Hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson kom inn á tjáningu og lestur og hvað það væri mikils virði að lesa fyrir börnin. Þess eru dæmi á Íslandi, ekki bara í Bandaríkjunum, Svíþjóð eða einhvers staðar annars staðar, að fyrstu hljóð sem lítil börn mynda, eru ýmiss konar ýlfur, ískur og gauragangur sem þau læra beint úr sjónvarpinu vegna þess að það eru til foreldrar hér á landi sem setja litlu börnin sín beint fyrir framan sjónvarpið, setja hugsanlega myndbandsspólu í myndbandstækið, kveikja á. Þetta er ,,ágætis afþreying`` þar sem börnin eru bundin í þægilegan stól og síðan er allt sett í gang. Ég get ekki hugsað til þess að ef við Íslendingar hættum að geta tjáð okkur á móðurmálinu. Besta leiðin til að koma í veg fyrir slíkt er gefa út bækur, bækur sem höfða til lesenda á öllum aldri með fjölbreytileg áhugasvið.

Það var aðeins drepið á virðisaukaskatt af bókum. Vissulega er það rétt að eitt af því sem við höfum sett fram nokkrir framsóknarmenn er að við erum á móti virðisaukaskatti af bókum. Ég þekki það sem fjárlaganefndarmaður að við eigum í talsvert miklum erfiðleikum með að ná utan um ríkisfjármálin. Þess vegna er þetta markmið sem ég stefni að ásamt væntanlega fleiri þingmönnum. En að svo komnu máli treystum við okkur ekki til þess að reka það hraðar áfram en við höfum gert vegna þess að við höfum í mörg horn að líta. Eins og fram hefur komið í umræðum um ríkisfjármál, stefnum við að því að koma böndum á ríkisfjármálin á næsta ári, þ.e. 1997, og ná hallalausum fjárlögum. Ég er alveg viss um að ef við náum því markmiði okkar, getum við hugsað öðruvísi en við hugsum nú. Það hugsar hver um sína pyngju. Við vitum að þegar við höfum talsvert af peningum, þá getum við varið þeim á annan hátt en við gerum þegar lítið er í buddunni eins og er hjá okkur í ríkissjóði.