Bætt þjónusta hins opinbera

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 17:34:48 (2698)

1996-02-01 17:34:48# 120. lþ. 82.11 fundur 227. mál: #A bætt þjónusta hins opinbera# þál., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[17:34]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka flutningsmanni þessa tillögu. Það er vissulega mjög margt athyglisvert í henni. Ég held að full ástæða væri til að taka upp nokkurs konar gæðastjórnun í ríkiskerfinu og gera alla starfsemi ríkisins skilvirkari og þjónustu við almenning betri. Hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson kemur einmitt inn á þau mál.

Sem landsbyggðarþingmaður lendi ég mjög oft í því að reka á eftir ákveðnum málum í kerfinu eins og það er kallað og það eru í rauninni ólíklegustu mál. Það er ekki alltaf endilega starfsfólki ríkisstofnana að kenna, stundum er það auðvitað þegnunum að kenna eins og gengur og gerist en það vantar meiri upplýsingar og það vantar að menn vinni hraðar og betur vegna þess að það er oft á tíðum ákaflega tímafrekt að leita í þá þjónustu sem hið opinbera býður upp á. Mér hefur jafnvel dottið í hug hvort ekki sé full ástæða til að færa menn á milli þessara ríkisfyrirtækja. Við vitum að forstöðumenn þessara fyrirtækja sitja oft býsna lengi. Margir standa sig vel en við erum öll þannig gerð að á einhverjum tímapunktum dofnar yfir áhuga okkar á þeim viðfangsefnum sem við eigum við að glíma hverju sinni. Hvers vegna ekki að flytja t.d. ráðuneytisstjóra milli ráðuneyta á ákveðnum fresti? Segjum á sex til tíu ára fresti. Ég held að það væri mjög ákjósanlegt á sex ára fresti. Við höfum ákveðinn líftíma í öllum störfum og eins og ég kom inn á áðan vill áhugi okkar oft og tíðum dvína. Ég held að stjórnendur ríkisfyrirtækja hefðu gott af slíkum tilflutningi. Þetta á auðvitað líka við um deildarstjóra innan ríkiskerfisins og þess vegna varpa ég þessum hugmyndum fram.