Bætt þjónusta hins opinbera

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 17:37:14 (2699)

1996-02-01 17:37:14# 120. lþ. 82.11 fundur 227. mál: #A bætt þjónusta hins opinbera# þál., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[17:37]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Hér er á ferð mjög athyglisverð tillaga. En ég verð að segja að mér finnst hún svolítið opin. Það hefði kannski mátt tilgreina betur og skýra við hvað hv. þm. á. Ég hef rennt yfir greinargerðina og hlustað með athygli á umræðuna. Ég get tekið undir að maður verður mjög oft var við hægagang í ríkiskerfinu og að það taki langan tíma að fá svör og ég þekki þetta sjálf sem þingmaður. Það rifjast upp fyrir mér eitt dæmi sem snertir einmitt samskipti ríkisins við erlenda aðila sem ég held að séu oft mjög slök og íslensk stjórnvöld og ríkisstofnanir eru frægar fyrir að svara ekki bréfum. Þetta er altalað. Það dæmi sem ég þekki var könnun á vegum Evrópuráðsins sem heyrði þar undir nefnd sem ég sat í og ég rak augun í það í pappírum að þessi könnun var langt komin og Ísland hafði ekki svarað. Ég gekk í það mál, hafði samband við viðkomandi ráðuneyti og ýtti á þetta því mér fannst það til mikillar skammar ef Ísland yrði ekki með. Þá var spurningalistinn grafinn einhvers staðar upp úr haugunum og þeir brugðust vel við og svöruðu og létu mig vita af því þegar þeir höfðu svarað. Ég hygg að slík vinnubrögð séu allt of algeng. En ég spyr mig hvers vegna. Ég hef mikla trú að hugarfar og venjur hafi miklu meiri og sterkari áhrif en við viljum vera láta. Ég hygg að arfur danska stjórnkerfisins þar sem sú regla var í gildi að láta allt ganga hægt og sígandi, að athuga allt vel, að kansellístíllinn sem kallaður var sé nokkuð viðloðandi hérna. Menn hafa ekki verið mjög duglegir við að tileinka sér þá miklu tækni sem hefur komið til á undanförnum árum sem felst m.a. í því hve auðvelt er að hafa samskipti í gegnum tölvur þar sem menn geta sent skýrslur á milli eða með faxi sama daginn.

Ég get ekki annað en nefnt það sem fram kom í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga ársins 1995. Þá var m.a. bent á gríðarleg ferðalög starfsmanna Stjórnarráðsins sem þýðir að hluti starfsmanna ráðuneytanna er meira og minna í burtu á hverjum einasta degi. Það segir sig sjálft að þetta hefur gríðarleg áhrif á störf ráðuneytisins. Mér finnst að við þingmenn eigum að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og spyrja: Er ekki hægt að draga eitthvað úr þessu í ljósi þeirrar tækni sem nú er komin til sögunnar? Mér er tjáð að það sé mjög stutt í að menn fái skerma fyrir framan símana og geti horft hver á annan því það hefur auðvitað verið rökstutt með því að það sé allt annað að hafa samskipti og geta horft á þá sem maður er á fundi með. Er ekki hægt að draga eitthvað úr þessu? Til að vera ekki ósanngjörn í garð ráðuneytanna er auðvitað ekki hægt annað en að minnast á það að aðild okkar að EES-samningnum hefur haft í för með sér gríðarlega mikil aukin samskipti og aukin ferðalög fyrir þessar ríkisstofnanir.

Ég varpa fram þeirri spurningu og ég hef ástæðu fyrir því: Er mikið af starfsfólki í ráðuneytunum og ríkisstofnunum sem nýtist mjög illa? Þessarar spurningar þarf að spyrja. Er starfsfólkið nógu gott? Þarna er freistandi að sletta og nota orðið ,,kvalitet``. Hvert er ,,kvalitetið`` innan ráðuneytanna? Hver er hæfnin til þess að ráða við verkefnin? Ég vil ekki fara með tölur en einn starfsmaður í ráðuneyti sem ég þekki hélt því fram að um 25--30% af starfsfólkinu nýttist ákaflega illa. Auðvitað er erfitt að fara með órökstuddar fullyrðingar en þær gefa tilefni til að kanna þær. Hæstv. fjmrh., sem hefur haft uppi hugmyndir um gæðastjórnun og um ýmiss konar samninga við starfsfólk sem þýðir það að starfsfólkið njóti einhvers af auknum afköstum og betra starfi, ætti að skoða þessa hlið málsins. Þetta er flókið mál því að margir eru æviráðnir o.s.frv. Það er því mjög margt sem veldur því að skilvirkni er ekki nægileg.

Fyrsta skrefið varðandi þessa tillögu væri að byrja á því að kanna skilvirknina. Hvernig standast opinberar stofnanir þær kröfur sem við gerum um þjónustu? Mér finnst hún hafa batnað. Mér finnst hún hafa batnað en ég held að það sé samt mikill sannleikur fólginn í því að hana þurfi verulega að bæta. Við hljótum líka að spyrja: Eru þessar stofnanir undirmannaðar? Er það líka hluti af vandanum að þær eru undirmannaðar? Ég hugsa að við gætum nú fært rök fyrir því að ýmis ráðuneyti séu undirmönnuð. En af því að ég horfi nú á hv. þm. Pétur H. Blöndal vaknar spurningin: Væri hægt að koma verkefnunum eitthvað annað? Væri hægt að bjóða þau út eða eru einhverjar slíkar aðferðir hugsanlegar? Allt þetta þarf að skoða. Auðvitað vasast ríkið í ýmsum verkefnum sem aðrir geta alveg eins sinnt. Allt þetta þarf að skoða og ég vona að þessi tillaga nái fram að ganga. Ég held að nefndin sem fær þetta mál til meðferðar mætti gjarnan skilgreina betur hvaða þætti ætti að skoða sérstaklega.