Bætt þjónusta hins opinbera

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 17:44:35 (2700)

1996-02-01 17:44:35# 120. lþ. 82.11 fundur 227. mál: #A bætt þjónusta hins opinbera# þál., Flm. ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[17:44]

Flm. (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls, undirtektir þeirra og þær góðu ábendingar sem hafa komið fram. Það kann að fara svo að íslenskt athafnalíf og íslensk fyrirtæki og íslenskt þjóðfélag verði ekki spurt um það hvort það hafi tíma til þess að bíða eftir seinlátu opinberu kerfið við afgreiðslu. Við þingmenn sjáum EES-frumvörpin koma og öll þau áhrif sem þau hafa á þjóðlífið. En þetta er ekki það eina sem er að gerast. Íslensk fyrirtæki eru í æ ríkari mæli í beinni daglegri og harðri samkeppni við erlend fyrirtæki og þau þola ekki dagsbið vegna tímaskorts því að tækifærin ganga mönnum úr greipum. Þau þola það ekki vegna þess að fjármunirnir og fjárfestingin og sá skammi tími, sem menn hafa til ráðstöfunar í meðferð fjármagns, þolir ekki þessa bið. Það er því svo mikilvægt að ríkisvaldið beiti sér fyrir því að hið opinbera dragi ekki lappirnar í þessu efni heldur komi með og vinni með atvinnulífinu. Almenningur er líka á allt annarri skoðun núna en fyrir tíu árum, jafnvel fyrir fimm árum, hvað góð þjónusta er. Samkeppnin vex á öllum stigum í verslun, í viðskiptum, í framleiðslu og framboði til hvaða stigs þjóðfélagsins sem við viljum líta. Fólk sættir sig ekki lengur við slæma afgreiðslu í verslunum, fólk fer bara eitthvað annað. Fólk sættir sig ekki við lélega afgreiðslu hjá þjónustustofnun, fólk fer bara eitthvað annað en þegar ríkið er annars vegar þá er ekkert annað að fara. (Gripið fram í: Til Danmerkur.) Til Danmerkur, er skotið hér fram og það kann að vera og hér á ég kannski við einmitt slík mál. Fólk ætlast til þess að viðmót og framkoma hjá hinu opinbera sé eins góð og hjá einkafyrirtækjunum. En um leið og ég segi þetta er nauðsynlegt að það komi fram að þjónusta hjá mjög mörgum opinberum stofnunum, ráðuneytum og öðrum sem hér hafa verið nefnd hefur batnað og mjög víða eru þessi fyrirtæki svo sannarlega að vinna starf sem lofsvert er og hefur skilað veigamiklum árangri. En það þarf að gera betur. Ég tel að einmitt það sem nefnt var hér af hv. þm., hugarfarið og það að hjálpa mönnum að fara á milli starfa, muni svo sannarlega hjálpa.

[17:45]

Ég skal viðurkenna að það er rétt sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir gat um að tillagan er almennt orðuð og líður ef til vill nokkuð fyrir það. Úr því má svo sannarlega bæta í nefnd eins og hún stakk upp á. Mér finnst alveg einsýnt að ef tillagan nær fram að ganga og henni verður sinnt af einhverri alvöru þurfi einmitt að gera könnun eins og hv. þm. gat um. Það þarf að fara fram mat á þjónustu og gæðum þjónustunnar á öllum þessum sviðum hjá ríkisvaldinu og opinberum stofnunum. Slíkar starfsaðferðir eru þekktar. Það er ekki eitthvað sem þarf að finna upp. Þeim er beitt bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera þannig að hvert opinbert fyrirtæki og opinbert svið þarf að líta til þessarar starfsaðferðar. Þarna þarf að hafa samband við viðskiptavini og spyrja hverjar þeirra þarfir eru. Að því loknu þarf að hefja umbótastarfið.

Ég ítreka þakkir mínar til hv. þm. sem hafa tekið undir þetta og vona að þetta mál nái framgangi. Ég veit af langri reynslu minni og af samtölum og samskiptum við marga að fólk mun fagna því ef hið opinbera kemur mjög sterkt fram í þessu efni.

Ég ætla aðeins að nefna nokkur dæmi. Á síðasta vetri, þ.e. veturinn 1994--1995, vildi einkafyrirtæki fara af stað með ferðaþjónustu og þurfti ákveðinna leyfa að afla. Það þurfti að vinna að markaðsöflun allan veturinn til að þetta mætti takast. Hvenær fékkst leyfið? Í byrjun júní. Markaðsmöguleikar voru úr sögunni. Búið var að eyða miklu fjármagni og undirbúningi í veikri von um að leyfið yrði veitt. Leyfið var veitt en það kom of seint. Tækifærið og þessar frábæru hugmyndir sem þarna voru á ferðinni nýttust ekki og menn sögðu: Sjáið þið, svona fer þetta þegar menn eru að reyna að brölta eitthvað á þessu sviði. Má ég nefna annað? Ég sit í nefnd vegna starfa minna sem alþingismaður. Í júlí bað nefndin um ákveðnar upplýsingar úr kerfinu frá annarri nefnd sem er ekki kjörin til skammra starfa heldur er fastanefnd í stjórnkerfinu. Hún skilaði okkur niðurstöðu að ég hygg í nóvember frekar en október. Við þurftum að fá upplýsingarnar til þess að koma þingmáli af stað í byrjun þingsins. Þetta er innan kerfisins. Má ég nefna það að við sumar stofnanir þar sem almenningur þarf að leita þjónustu er varla hægt að finna bílastæði. Það er lokað kl. fimmtán, kl. þrjú þegar venjulegt fólk á því að venjast að bankar séu opnir til kl. fjögur og fólk vinnur til kl. sex og sjö á kvöldin. (Gripið fram í: Tryggingastofnun.) (Gripið fram í: Opnar kl. tíu.) Og hvað eigum við þingmenn að segja við allan þann fjölda fólks sem leitar til okkar vegna þess að það fær ekki lausn sinna mála hjá kerfinu? Af hverju er þetta fólk að koma og kvarta við okkur? Af hverju er það að eyða tíma okkar með því að spyrja hvort við getum ekki hjálpað því að fá gleraugu? Ég var vakinn á sunnudagsmorgni og beðinn um að hjálpa manni að fá gleraugu. Seinlætið hafði verið slíkt að það hafði tekið einhverjar vikur að afgreiða beiðni hjá þessum manni. Við getum öll talið upp dæmi af þessu tagi. Þetta er einfaldlega það sem hvorki almenningur getur sætt sig við né fyrirtæki í landinu geta búið við vegna þess að veröldin bíður ekki eftir seinlæti okkar á þessu sviði.