Sérstakur ákærandi í efnahagsbrotum

Mánudaginn 05. febrúar 1996, kl. 15:45:07 (2710)

1996-02-05 15:45:07# 120. lþ. 83.12 fundur 180. mál: #A sérstakur ákærandi í efnahagsbrotum# þál., BH
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur


[15:45]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því áður en ég hef efnislega umfjöllun um tillöguna sem hér liggur fyrir að leiðrétta það sem kom fram í máli hæstv. dómsmrh. varðandi það að við værum að leggja til að sett yrði á stofn sérstök stofnun sem ætti að annast meðferð þessara mála. Það er alls ekki verið að leggja það til og ef hæstv. ráðherra gluggar í greinargerðina með tillögunni kemur það mjög skýrt fram að þar er ekki verið að loka í raun og veru þeim möguleika að þessu embætti sé komið fyrir hvar sem er í kerfinu. Er hæstv. dómsmrh. farinn úr húsinu?

(Forseti (ÓE): Nei. Hann er mjög tímabundinn en hann er ekki farinn úr húsinu. Hann ætlaði að bíða á meðan hv. þm. héldi ræðu sína.)

Ég mun ekki tala mjög lengi þar sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, meðflm. minn, hefur gert ítarlega grein fyrir málinu. Ég hef þó nokkrar athugasemdir og spurningar fram að færa við hæstv. dómsmrh.

Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra og hv. frsm. er mjög erfitt að fara orðum um þessi mál og þörfina á sérstakri meðferð efnahagsbrota án þess að gera a.m.k. tilraun til þess að skýra hugtakið ,,efnahagsbrot``. Ég lít svo á að það yrði að skýra í vinnureglum þess embættis sem með þetta færi. Í greinargerð með tillögunni er farin sú leið að gera a.m.k. tilraun til að skýra þetta hugtak og þar sem hugtakið er ýmist notað þröngt eða vítt, ef svo má að orði komast, getur mismunandi skilningur valdið alls konar misskilningi á því um hvað þetta eiginlega fjallar. Án skilnings á eðli þessara brota er mjög erfitt að sjá fyrir sér þörfina á sérstakri málsmeðferð eða sérstöku embætti sem fjallaði um þessi brot. Fólk spyr sig af hverju þessi brot megi ekki falla almennt undir þá málsmeðferð sem við höfum í refsivörslukerfinu.

Eins og fram kemur í greinargerðinni hefur hugtakið verið skilgreint sem refsiverð háttsemi í hagnaðarskyni sem fer fram kerfisbundið og reglulega í annars löglegri atvinnustarfsemi lögaðila eða einstaklinga. Það er þó ekki ófrávíkjanlegt skilyrði að brot séu framin kerfisbundið og reglulega til að þau flokkist undir efnahagsbrot, en fræðimenn hefur greint á um þetta og hafa ýmsar kenningar verið uppi. Ráðherranefnd Evrópuráðsins gengur t.d. út frá því að hugtakið geti náð til einstakra brota, enda hafi þau valdið verulegu tjóni eða hættu á tjóni. Þá er almennt talið einkenni brotanna að þau byggjast á sérstakri viðskiptaþekkingu hinna brotlegu eða eru framin af kaupsýslumönnum við framkvæmd starfa þeirra eða sérstakra verkefna.

Brotin eru fyrst og fremst sérlagabrot á ýmsum sviðum efnahags- og atvinnulífs. Brot gegn vinnuvernd, mengunarbrot og önnur alvarleg umhverfisbrot eru að jafnaði talin til efnahagsbrota. Í bandarískum rétti er talað um hugtakið ,,business crimes`` yfir þessi brot og á Norðurlöndum hugtakið ,,ökonomisk kriminalitet``. Hugtakið ,,hvítflibbabrot`` (white collar crimes), sem var mótað af bandaríska afbrotafræðingnum Sutherland á fimmta tugi aldarinnar, skarast að nokkru við þau brot sem hér um ræðir, og er því gjarnan haldið á lofti að þar sé um að ræða undanfara efnahagsbrotanna. Það ber hins vegar að hafa í huga að þegar Sutherland setti fram sínar kenningar var þjóðfélagsgerðin mun einfaldari en hún er nú. Aukin tækni og margmiðlun gerir brotin sífellt flóknari og sífellt meiri þekkingar er þörf til að geta áttað sig á umfangi þeirra. Æ fleiri fara nú með fé annarra og vinna flókin og sérhæfð störf víða í þjóðfélaginu og á alþjóðlegum vettvangi, að ekki sé minnst á þá sem auðveldlega geta valdið stórtjóni með skaðlegri umgengni sinni við móður náttúru, en umhverfisbrot eru að jafnaði talin falla undir hugtakið efnahagsbrot.

Rannsókn og meðferð þessara brota hefur vakið ýmis siðræn vandamál. Þau snúast kannski fyrst og fremst um viðhorf almennings gagnvart þeim. Þau eru nefnilega allt önnur en gagnvart öðrum brotategundum. Má nefna sem dæmi skatta-, bókhalds- og tollalagabrot. Fólk lítur ekki endilega á þau sem mjög alvarleg afbrot, en þjófnaðir eða eignaspjöll eru litin mjög alvarlegum augum. Brot sem framin eru í atvinnurekstri eru gjarnan réttlætt með því að lögin séu gölluð eða fullnægi ekki þeim þörfum sem viðskiptalífið krefst en einnig með því að þau hafi verið tilraun til að bjarga atvinnurekstrinum. Allir viðurkenna mikilvægi þess að halda atvinnufyrirtæki gangandi. Þá er oft mjög erfitt að rekja eða mæla tjónið af efnahagsbrotum og þrátt fyrir umtalsverða skaðsemi slíkra brota er oft erfitt að benda á einn einstakan brotaþola. Einnig eru þau viðskipti sem brotin varða óvenjuflókin og aðeins á valdi örfárra sérfræðinga að þekkja þau.

Hér á landi er reyndin hin sama og annars staðar. Refsivörslukerfinu hefur reynst mjög erfitt að taka á þessum brotum og úrræði þess duga einfaldlega ekki. Því er þess freistað með þessari tillögu að reyna að ná samstöðu á Alþingi um að lög verði sett um sérstakan ákæranda í efnahagsbrotum. Nú vil ég segja við hæstv. dómsmrh. að hér er ekki verið að tala um sérstaka stofnun, heldur er fyrst og fremst verið að leita leiða til að tryggja að rannsókn og ákæra efnahagsbrota sé á einni hendi. Slíkt fyrirkomulag er í andstöðu við það fyrirkomulag sem við höfum í dag þar sem frekar hefur verið leitast við að aðskilja þetta tvennt. Þess vegna þarf sérstakar reglur um þessi brot. Það er sem sagt ekki verið að tala um sérstaka stofnun, heldur fyrst og fremst að það sé skapaður grundvöllur fyrir því að rannsókn og ákæra séu sett á eina hönd í þessu máli. Því vil ég meina að hæstv. ráðherra hafi að einhverju leyti misskilið tillöguna. Ef hún er skoðuð kemur í ljós að það er alls ekki loku fyrir það skotið að þessu embætti sé komið fyrir innan þeirra stofnana sem þegar eru fyrir hendi og þyrfti þess vegna ekki endilega að hafa í för með sér mikinn kostnaðarauka.

Það þyrfti að sjálfsögðu að skilgreina rækilega í lögum um sérstakan ákæranda í efnahagsbrotum hvert valdsvið hans er svo ekki verði skörun við verkefni ríkissaksóknara eða aðra ákærendur. Það þyrfti að vera mjög skýrt hvaða málefni það eru sem hann ætti að hafa til meðferðar og þess vegna mundi ég telja að ekki nægði að gera þar grein fyrir því að hann ætti að rannsaka og ákæra í efnahagsbrotum, heldur þyrfti að skilgreina það hugtak sérstaklega í tengslum við það.

Að lokum vildi ég spyrja hæstv. dómsmrh. hvort hann geti upplýst okkur eitthvað frekar um það á hvern hátt eigi að taka á þessum vandamálum sem efnahagsbrotin eru. Hæstv. ráðherra sagði, ef ég heyrði rétt, að væntanlega yrði lagt fram frv. um skipan lögreglumála nú mjög fljótlega. Ef ég skil rétt, þá er það einhvers konar framhald á þeirri vinnu sem birtist í frv. til lögreglulaga sem hefur verið lagt fram áður. Það má vel verið að það sé búið að breyta eitthvað því kerfi sem menn ætluðu að hafa þar. Ég vildi gjarnan fá að heyra hvort svo væri. Samkvæmt frv. eins og það var lagt fram á 117. þingi er m.a. talað um að ríkislögreglustjóra verði falið að starfrækja lögreglurannsóknardeildir sem aðstoða lögreglustjóra við rannsókn afbrota og skatta- og efnahagsbrota. Samkvæmt mínum skilningi er þarna um að ræða deild sem muni aðstoða hina einstöku ákæruvaldshafa úti í lögregluumdæmunum en ekki endilega verið að leggja til að bæði rannsókn og ákæruvaldið séu sett á sömu hönd. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti upplýst okkur um það hér og nú hvort gert sé ráð fyrir því að þetta verði á einni og sömu hendi. Í tillögu okkar leggjum við fyrst og fremst áherslu á að ákæra og rannsóknir í þessum málum séu á einni og sömu hendi.