Tímareikningur á Íslandi

Mánudaginn 05. febrúar 1996, kl. 15:58:26 (2713)

1996-02-05 15:58:26# 120. lþ. 83.13 fundur 197. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., Flm. VE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur


[15:58]

Flm. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um tímareikning á Íslandi sem ég flyt ásamt hv. þm. Árna M. Mathiesen, Arnbjörgu Sveinsdóttur og Guðna Ágústssyni. Meginmarkmið frv. er að taka upp svokallaðan sumartíma, þ.e. á tímabilinu frá síðasta sunnudegi í mars til síðasta sunnudags í október skuli klukkan færð fram um eina klukkustund þannig að það verði alltaf klukkutíma munur milli Íslands og meginlands Evrópu.

Frv. hefur átt sér nokkurn aðdraganda og má m.a. geta þess að flutt var þáltill. um sambærilegt mál fyrir tveimum þingum síðan sem náði ekki fram að ganga. Nú gilda lög nr. 6/1968, um tímareikning á Íslandi, sem gera ráð fyrir því að tímareikningur á Íslandi miðist alltaf við miðtíma Greenwich.

Það eru margar ástæður fyrir því að þetta frv. er flutt og ég vil gera grein fyrir þeim rökum sem fyrir þessu eru. Í fyrsta lagi er mjög óþægilegt fyrir alla þá sem eiga samskipti við meginland Vestur-Evrópu að hafa tveggja tíma mismun á milli Íslands og þess heimshluta. En það má segja að stærsti hlutinn af okkar utanríkisviðskiptum sé einmitt við Vestur-Evrópu. Staðan er sú að þegar vinna hefst hér á landi klukkan níu er klukkan orðin ellefu í Vestur-Evrópu. Það má segja að þá sé ekki nema einn klukkutími til þess að menn nái saman því um tólfleytið fara þeir ytra að tínast í mat. En svo þegar þeir eru að koma úr mat þá erum við að fara í mat og þannig gengur þetta allan daginn. Margir þeir sem hafa átt samskipti við Vestur-Evrópu kvarta mjög undan því að það sé mjög óhentugt að þegar sumartíminn tekur gildi á þessu svæði þá minnki samskiptatíminn mjög verulega. Það skiptir hins vegar ekki jafnmiklu máli hvort það eru fimm eða fjórir tímar á austurströnd Bandaríkjanna. Það hefur ekki eins mikil áhrif á samskiptatímann.

Í annan stað vil ég nefna það að flugsamgöngur milli Íslands og Evrópu verða þægilegri ef að sumartíminn er tekinn upp til samræmis við önnur Evrópulönd. Nú þarf jafnan að breyta flugáætlunum. Þegar fólk er að fara til Evrópu á sumrin þýðir það að það þarf að vakna mjög snemma og koma sér mjög snemma út á Keflavíkurflugvöll á morgnana. Það er algengt umkvörtunarefni hve almennar brottfarir eru snemma í morgunflugi til Evrópu á sumrin.

Þetta eru hin viðskiptalegu rök í málinu. Hins vegar eru líka önnur rök með því sem er mjög mikilvægt fyrir okkur á þessari breiddargráðu, að nýta sem best sumartímann svo að við getum tengt saman tímann sem við notum í vinnu og tímann sem við notum til útivistar þannig að það sé sem skynsamlegust nýting á honum. Ef klukkan er færð fram á sumrin þýðir það að sólin verður hærra á lofti þegar vinnutímanum lýkur. Þá er meiri möguleiki fyrir útivist og að njóta góðviðrisdaga á sumrin með öllu því sem því fylgir ef það fyrirkomulag er upp tekið. Þeir sem hafa ferðast um Evrópu á sumrin hafa tekið eftir því að þá er fólk mjög gjarnan úti, götur fullar og fólk að njóta góðviðrisdaganna. Það skapast ákveðin sumarstemmning þar sem fólk er miklu meira úti við heldur en hér á landi. Þetta þýðir að lifnaðarhættir almennings gætu orðið mun heilbrigðari en þeir eru nú. Þetta hefur áhrif á það viðskiptalíf sem fylgir þessari útivist.

Eins hefði íþróttafólk mikinn hag af því að tekinn yrði upp sumartími. Við vitum það að þegar haustið nálgast lenda menn í erfiðleikum með skipulagningu hvers kyns kappleikja, t.d. knattspyrnuleikja. Menn eiga erfitt með að stunda íþróttir eins og golf þegar fer að líða að hausti eftir vinnutíma vegna þess að birtu nýtur ekki jafn vel. Þetta hefði líka hefði sérstaklega góð áhrif víða úti um land á stöðum sem eru luktir á milli hárra fjalla. Þar hverfur sólin tiltölulega snemma af sjóndeildarhringnum og möguleiki fólks til að njóta sumarsins er þess vegna miklu minni en annars væri.

Þannig má nefna að á stað eins og Siglufirði hverfur sólin þegar hún er hæst á lofti fyrir sjóndeildarhringinn, t.d. kl. sjö á kvöldin. Fólk á þess vegna erfitt með að njóta þess að vera úti við á góðum sumarkvöldum eins og hægt er víða annars staðar. Það má segja að það veiti nú samt ekki af að gera eitthvað þannig að það sé þá betra að vera á þeim stað. Og annað sem fólk er farið að ... (Gripið fram í). Það er nú hægt að haga skipulagningu hlutanna þannig að menn geti notið þess eins og hægt er að hafa sólina á lofti, það hefur dálítið með sólina að gera líka, hv. þm. Varðandi annað atriði sem ég tel að skipti máli þá vil ég geta þess að á þessum stöðum er víða reynt að hefja dagvinnu fyrir kl. átta, t.d. kl. sjö á sumum vinnustöðum til þess að fólk geti verið búið að vinna fyrr um eftirmiðdaginn. Það vekur kannski óskaplega kátínu hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni en það hins vegar gerir það að verkum að fólk á mjög erfitt sem er með börn í leikskóla að koma þeim fyrir þegar það þarf að byrja að vinna kl. sjö en leikskólar eru víðast ekki opnaðir fyrr en kl. átta á morgnana. Annað sem má nefna í þessu sambandi er að það er svo margt í okkar þjóðfélagi sem er samstillt. Þjónusta byrjar á svipuðum tíma og lýkur á svipuðum tíma og þess vegna yrði það mjög jákvætt að stilla hana saman við það hvenær vinna hefst og hvenær henni lýkur.

Nú er sumartími í öllum okkar helstu viðskiptalöndum bæði austan hafs og vestan, í Evrópu og Bandaríkjunum. Við erum því frábrugðin öðrum þjóðum að þessu leyti. Það getur vissulega verið ákveðin fyrirhöfn í því að taka upp sumartíma. Menn þurfa að breyta klukkum og það þarf að halda utan um þá hluti en einhvern veginn hafa nágrannar okkar bæði austan hafs og vestan séð sér hag í því að fara þessa leið. Eitt sem ég vil nefna að lokum er það að í Bretlandi var núna fyrir áramótin töluverð umræða um það að flytja klukkuna alveg yfir á meginlandstímann, þ.e. að flytja hana áfram um einn klukkutíma allt árið og miða við þann tíma. Ég vil sérstaklega vísa í forustugrein Times í London sem var skrifuð 23. október sl. þar sem fjallað var um þetta mál. Þar var mjög góður rökstuðningur fyrir því að tilhögun á klukku og hvenær menn taka vinnudaginn með tilliti til birtu og sólar er spurning um það hvernig menn vilja komast sem best af í nútímasamfélagi þannig að hinn vinnandi maður geti sem best hagað skipulagningu dagsins þannig að vinnutíminn falli á ákveðinn tíma og síðan séu frístundirnar teknar á ákveðnum tíma. Það er m.a. með hliðsjón af slíkri umræðu sem á sér ekki bara stað hér á landi heldur annars staðar að ég hef leyft mér að leggja fram þetta frumvarp.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- viðskn.