Tímareikningur á Íslandi

Mánudaginn 05. febrúar 1996, kl. 16:29:01 (2716)

1996-02-05 16:29:01# 120. lþ. 83.13 fundur 197. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur


[16:29]

Guðmundur Hallvarðsson:

Virðulegi forseti. Það er dálítið villandi í umræðu hv. þm. Vilhjálms Egilssonar þegar hann talar um sumartímann. Við höfum þegar tekið upp sumartíma á Íslandi. Hnattstaða okkar er með þeim hætti að klukkan tifar hér eins og annars staðar, sem betur fer. Málið er að við höfum þegar fært klukkuna fram. Og sem betur fer höfum við hætt öllu hringli með hana og tekið upp hinn eiginlega sumartíma sem gildir allt árið. Þegar flutningsmenn tala um sumartíma á Íslandi, tala þeir tungum tveim. Þeir eru að tala um sumartíma í Evrópu en ekki á Íslandi. Hann hefur þegar verið tekinn upp.

Væntanlega ætti ég að geta lifað sældarlífi þegar farið verður að breyta klukkunni, ástundað útilíf og etið glaður lambakjöt af mínu grilli, eins og áður hefur komið fram í flutningi hv. þm. Vilhjálms Egilssonar. Skal ég alveg ósagt láta hvort nokkur breyting verði á. En eitt get ég sagt honum. Ég er sá gæfumaður að þurfa ekki að leita til sálfræðings vegna klukkunnar eða vegna skammdegis á Íslandi. Hins vegar kom fram í máli mínu áðan að því miður eru allt of margir sem þurfa þess. Í tilvitnun minni kom einnig fram að sálfræðingar telja að klukkan og það skammdegi sem við búum við hafi veruleg áhrif á sálarlífið.

[16:30]

Ég hef unnið á vinnustað þar sem sífellt þurfti að færa klukkuna til. Það var þegar ég starfaði í kaupskipaflotanum. Ég þekki því mjög vel hve mikil óþægindi eru að þessari sífelldu færslu klukkunnar. Ég er sannfærður um að allur annar tími en sá sem við lifum raunverulega við hvað áhrærir birtu hefur örugglega skaðleg áhrif á mannveruna. Þetta segi ég af því að ég tala af þekkingu og reynslu um þetta mál.

Ég tel ekki að það verði miklu þægilegra að lifa á Íslandi þótt tillagan nái fram að ganga. Ég get ekki ímyndað mér að stræti og torg í Reykjavík iði af lífi vegna þess að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson og aðrir hafi komið því í gegn á Alþingi að tímanum hafi verið breytt. Ég vildi að svo gæti orðið. En flutningsmaður ætti að vita að það getur ekki orðið. Til þess að svo megi verða og Íslendingar geti yfir sumartímann nánast gengið í stuttbuxum og stuttermabol frá vordögum til haustdaga þarf að draga Ísland nokkuð sunnar á hnettinum og klukkan ein og óskhyggja mun ekki leiða til þess.

Vilhjálmur kom inn á að allt önnur fjallasýn yrði hjá því fólki sem býr við þröngan fjallahring í fjörðum og dölum. Mér vefst eiginlega tunga um tönn þegar þetta mál er tekið upp. Ég sé ekki hvernig það á að gerast. Hvað mun gerast svo mjög að fólk muni taka enn frekari gleði upp hvað áhrærir miklu lengri sólargang? Í mörgum fyrirtækjum mætir fólk almennt fyrr til vinnu á sumrin. Það er ekkert óeðlilegt og ef það er til hagræðis þá gera menn það auðvitað. Meginþráðurinn í máli flutningsmanns er að auðvelda verslun og viðskipti við Evrópu. En mér finnst óeðlilegt að ein stétt manna skuli ætla að ofríkja svo að allt landið og miðin skuli lúta óskum þeirra hvað áhrærir hringl með íslenskan staðartíma og klukkuna.