Tímareikningur á Íslandi

Mánudaginn 05. febrúar 1996, kl. 16:34:15 (2717)

1996-02-05 16:34:15# 120. lþ. 83.13 fundur 197. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., Flm. VE
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur


[16:34]

Flm. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég reiknaði ekki með því að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson þyrfti nokkuð að huga að sálfræðiþjónustu jafnvel þótt sumartíminn yrði samþykktur. Hins vegar vil ég upplýsa hann um að þrátt fyrir að ég vilji færast ýmislegt í fang varðandi þetta mál hef ég ekki í hyggju að afnema skammdegið og ég tel mig ekki færan um það þrátt fyrir að það virðist vera dálítið heilsuspillandi eftir því sem hann segir.

Að sjálfsögðu fylgja því ákveðnir erfiðleikar að ferðast milli tímabelta og hv. þm. hefur reynslu af því. En sem gamall sjómaður á kaupskipum hefur hann væntanlega líka góða reynslu af því að sjá vítt yfir. Hann hefur ekki verið svo truflaður af því að búa í þröngum dölum eða þröngum fjörðum og kynnast mannlífinu þar. Þar er mörgum býsna mikið vandamál að fólk kemur heim til sín kl. 6--7 á kvöldin og vill kannski eiga notalega kvöldstund úti við, úti á svölum og úti í garði en þá fer sólin ótrúlega fljótt af sjóndeildarhringnum vegna þess að fjöllin eru það há. Fjallasýnin sem slík breytist ekki en hins vegar held ég að mannlíf á slíkum stöðum mundi batna mjög mikið ef sólar nyti lengur fram eftir kvöldi ef tíminn væri stilltur þannig af. Ég hygg að það mundi skapa betri sumarstemningu á þessum stöðum jafnt og hér syðra þar sem þessu er ekki til að dreifa þar sem Esjan skyggir ekki á sólina þegar fer að líða á daginn. Hún kemur af hafi sem betur fer.

Hins vegar hef ég tekið eftir því á undanförnum árum að mannlíf í Reykjavík hefur verið að breytast. Fólk er farið að vilja njóta betur útivistar. Það er að koma upp smávottur af kaffihúsamenningu. Á góðviðrisdögum drífa þeir sem reka veitingastaði borð og stóla út á gangstéttir og götu og fólk er úti við. Ég tel að með því að taka upp sumartímann með þeim hætti sem ég hef lýst væri verið að bæta við þessa skemmtilegu breytingu á mannlífinu. Ég er þess vegna enn ákafari en áður að fylgja málinu eftir.