Tímareikningur á Íslandi

Mánudaginn 05. febrúar 1996, kl. 16:39:59 (2719)

1996-02-05 16:39:59# 120. lþ. 83.13 fundur 197. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur


[16:39]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta hefur verið hin merkasta umræða og að mörgu leyti athyglisvert þingmál sem hér er á ferð. Ég get vissulega tekið undir með hv. flm. og ræðumanni, Vilhjálmi Egilssyni, að ýmis rök eru fyrir því að það væri a.m.k. til hægðarauka á vissum sviðum að gera þessa breytingu. Hitt er að mínu mati jafnljóst að andmælandinn, sem hér hefur talað, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, hefur líka mikið til síns máls. Það er óhagræði af því að hringla með klukkuna og breytingin veldur ýmsum óþægindum í hvert sinn. Það er alveg ljóst. A.m.k. fyrsta kastið meðan menn eru að stilla sig inn á breytinguna.

Ég held að aðalatriði málsins sé að ein mistök mega menn ekki gera í umræðum um þessi mál sem ég óttast þó að jaðri við að margir geri eins og hv. flm. hagaði máli sínu og það er að láta sér detta það í hug að hægt sé að bæta þessari klukkustund við sólarhringinn. Það er nefnilega ekki það sem gerist þó tekinn sé upp sumartími eins og stundum mætti ætla af rökstuðningi hv. flm., að í reynd séum við að græða einhverja dýrlega, sólríka síðdegisstund með því að breyta klukkunni. Ég hef heyrt sagt frá því að eldri kona í bænum spurði að því á samkomu: Hver er þessi ungi maður sem er að flytja um það tillögur að bæta klukkutíma við sólarhringinn? Þá mun hafa verið átt við hv. þm. Vilhjálm Egilsson því að blessuð gamla konan hafði skilið það svo að þetta væri meiri gæðapilturinn sem ætlaði að bæta við sólarhringinn þessari síðdegisklukkustund þar sem alltaf væri sól og eilíf blíða og menn gætu setið á kaffihúsum eða götuhúsum og sötrað öl eða rauðvín í eilífri sól og sælu. Auðvitað gerist þetta ekki þannig, því miður. Hér er eingöngu spurning um tilfærslu og líf okkar lengist hvorki né styttist við það.

Ég er að öðru leyti frekar hallur undir hitt að við séum að skekkja klukkuna eða tímareikninginn á Íslandi alllangt frá því sem er náttúrulegt ef svo væri komið með tilkomu þessa sumartíma að sól væri ekki í hádegisstað eða hæst á lofti fyrr en klukkan væri að verða þrjú síðdegis vestast á landinu. Það finnst mér verða orðin allmikil bjögun og held að það orki þá stórlega tvímælis hvort ekki væri vænlegra að vera klukkutíma á eftir eins og hér var áður. Þá þarf líka að taka afstöðu til þess eins og hv. þm. vakti athygli á hver eigi að vera hin absalút staðsetning Íslands í tímakvarðanum. Erum við þá í raun og veru á réttri klukkustund ef tekinn væri upp sumartími eða sumarsumartími eins og í reynd væri að gerast miðað við tillögu hv. flm. að stilla Ísland þannig af að það væri aldrei nema klukkustund á eftir tímanum eins og hann er á meginlandi Evrópu þannig að hér er að mörgu að hyggja, herra forseti.