Útvarpslög

Þriðjudaginn 06. febrúar 1996, kl. 13:41:28 (2730)

1996-02-06 13:41:28# 120. lþ. 84.6 fundur 246. mál: #A útvarpslög# (auglýsingar) frv., Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur


[13:41]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á útvarpslögum, nr. 68/1985, með síðari breytingum. Flm. ásamt mér að þessu frv. er hv. þm. Margrét Frímannsdóttir.

Þetta frv. er einfalt að efni. Í 1. gr. þess er gert ráð fyrir að við 4. gr. útvarpslaganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

,,Óheimilt er að birta auglýsingar sem ganga gegn lagaákvæðum um umhverfisvernd eða hvetja til hegðunar sem stangast á við lög eða gildandi reglur um umgengni við náttúru landsins.

2. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi.``

(Forseti (StB): Forseti vill biðja hv. þm. að gefa hljóð í salnum.)

Í stuttri greinargerð með frv. er vikið að ástæðum þess að það er flutt. Tilgangurinn er sá að koma í veg fyrir að með auglýsingum í ljósvakamiðlum sé hvatt til hegðunar sem gengur gegn settum reglum um umhverfisvernd og markmiðum um góða umgengni við lifandi og dauða náttúru. Öðru hvoru sjást í máli og myndum, m.a. í ljósvakamiðlum, auglýsingar sem virðast stangast á við lög og reglur á þessu sviði. Sem dæmi má nefna auglýsingar sem sýna akstur vélknúinna ökutækja utan vega í því skyni að hvetja til að þau séu keypt og um leið að tækin séu notuð við slíkar aðstæður.

Ýmis fleiri dæmi má nefna en hér er að sjálfsögðu oft um að ræða álitaefni og álitamál hvað hægt sé að setja beint bann við. Þess vegna er 1. gr. frv. orðuð með þessum hætti sem ég hef þegar vitnað til. Nú er ekki að finna í lögum eða reglugerðum ákvæði sem banna í auglýsingum birtingu á atferli sem valdið getur umhverfisspjöllum. Helstu ákvæði er nú gilda um auglýsingar í ljósvakamiðlum er að finna í útvarpslögum, nr. 68/1985, og í reglugerð nr. 611/1989 um auglýsingar í útvarpi. Sú reglugerð var gefin út 1989 og tekur til ýmissa atriða sem snerta auglýsingar en þar er tæpast hægt að finna stað ákvæðum sem varða efni þessa frv. Þess vegna teljum við flutningsmenn að það sé nauðsynlegt að styrkja lagagrunninn með því að bæta inn í útvarpslögin þeim ákvæðum sem frv. gerir ráð fyrir.

[13:45]

Í reglugerðinni sem gefin var út 1989 er fjallað um ýmis mikilvæg efni sem snerta auglýsingar og er vel að á slíku er tekið. Í siðareglum Alþjóðaverslunarráðsins sem eru allítarlegar er einnig að finna ýmsar leiðbeiningar varðandi auglýsingar. Þar er hins vegar ekki tekið á þeim efnum sem frv. þetta fjallar sérstaklega um og því teljum við nauðsynlegt að sett verði lög um þetta efni og síðan reglugerð sem útfæri það nánar svo komið verði í veg fyrir umhverfisspjöll og að gengið sé á svig við gildandi lög eða opinber fyrirmæli að því er varðar umgengni við náttúru landsins.

Ég sé, virðulegur forseti, ekki ástæðu til að orðlengja frekar hér í framsögu um þetta mál en geri tillögu um það að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. menntmn. í ljósi þess að útvarpslögin falla undir menntmrn. Vissulega hefði komið til álita að allshn. fjallaði um málið en þetta er tillaga okkar flutningsmanna.