Læsivarðir hemlar í bifreiðum

Þriðjudaginn 06. febrúar 1996, kl. 14:09:52 (2736)

1996-02-06 14:09:52# 120. lþ. 84.7 fundur 248. mál: #A læsivarðir hemlar í bifreiðum# þál., ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur


[14:09]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Umferðarslys eru einhver sá mesti vandi sem við eigum við að glíma hér sem víða annars staðar og forvarnir á því sviði munu án efa skila sér ekki síður en aðrar forvarnir sem nú er svo mikil áhersla lögð á. Ég vil fagna sérstaklega málflutningi og tillögum sem komu fram í ræðu hv. 5. þm. Reykn., Rannveigar Guðmundsdóttur, og styð hana að öllu leyti í þessum tillöguflutningi og röksemdafærslu hennar. Ég vil einnig þakka þingmanninum fyrir að fara stuðningsorðum um þá þáltill. sem lögð var fram fyrir skömmu af þeim sem hér stendur. Það er enginn vafi að með öryggisbúnaði af því tagi sem getið er um í þessum tveimur tilfellum, mun ríkið spara útgjöld sín verulega þó að það tapi nokkrum tekjum í bráð.

Ég gat ekki tekið eftir því í máli hv. þm. að fram kæmu hugmyndir, ágiskanir eða mat á því hversu mikið tekjutap ríkisins yrði en það munu aðeins vera örfáar milljónir sem ríkið verður af við það að missa gjöld af loftpúðum í bifreiðar. Það segir sig sjálft að ekki þarf að koma í veg fyrir mörg slys til þess að slíkar upphæðir skili sér að nýju.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna en lýsi aftur stuðningi mínum og fagna því sem hér hefur komið fram í dag varðandi öryggisatriði í bifreiðum og í umferðinni. Ég minni á það sem fram kom í máli mínu um daginn, að ríkið þarf að móta sér stefnu í bifreiðamálum, í málum er varða tekjuöflun, sölu og notkun bifreiða. Og mér þætti vænt um að eiga samstarf við aðra þingmenn um mál sem ég er með í undirbúningi, en það er stefnumótun ríkisins á þessu sviði. Með stefnumótun ríkisins á þessu sviði getur ríkisvaldið haft gríðarlega mikil áhrif. Það getur haft áhrif á þessi öryggisatriði sem hér hafa verið gerð að umtalsefni. Það getur sömuleiðis haft áhrif á val fólks á bílum með tilliti til umhverfismála og val á búnaði til þess að koma í veg fyrir mengun. Það getur haft áhrif á félagslegu sviði eins og kom fram hjá hv. þm., þannig að þeim efnaminni sé ekki haldið frá nauðsynlegum öryggisbúnaði. Fyrir þessu mun ég beita mér og fagna stuðningi og samstarfi við hvern þann sem vill undir þetta taka.