Trúnaðarsamband fjölmiðlamanna og heimildarmanna

Þriðjudaginn 06. febrúar 1996, kl. 14:52:45 (2742)

1996-02-06 14:52:45# 120. lþ. 84.8 fundur 261. mál: #A trúnaðarsamband fjölmiðlamanna og heimildarmanna# þál., KHG
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur


[14:52]

Kristinn H. Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Hér er mjög sérstakt þingmál til umfjöllunar. Það er lagt fram að gefnu tilefni og sem viðbragð við opinberri umfjöllun um tiltekið mál. Því máli er nú lokið með dómi Hæstaréttar og ekki mikið um það að segja umfram það sem menn geta lesið sér til um í dómi Hæstaréttar. Ég vil hins vegar segja að ég er ósammála tillögugreininni í þessu máli. Ég er verulega ósammála því sem þar er lagt til, þ.e. að leggja fyrst og fremst áherslu á að verja og tryggja nafnleynd þannig að menn geti í skjóli nafnleyndar komið upplýsingum til fjölmiðlamanna. Við hljótum að setja löggjöfina þannig að við tryggjum eftir föngum að upplýsingar fari eftir löglegum leiðum, hvort heldur það er til fjölmiðla eða annarra aðila.

Við getum ekki, eins og hér er lagt til, hvatt löggjafann til að setja lög til varnar lögbrotum. Oft og tíðum er það lögbrot að koma upplýsingum til fjölmiðla. Það er lögbrot t.d. í bönkum, Byggðastofnun eða öðrum slíkum stofnunum. Ég get ekki verið sammála því að við eigum að stuðla að því að auðvelda mönnum að brjóta lög. Við hljótum að útbúa löggjöfina þannig að menn hafi heimild til að koma upplýsingum á framfæri þegar ríkar ástæður eru fyrir hendi og geti þá notið nafnleyndar. Löggjöfin á með öðrum orðum að vera þannig að það geti verið löglegt, ef almannahagur krefst, að koma upplýsingum á framfæri. Þannig tel ég að nálgast eigi málið. Ég er sammála því að oft er nauðsynlegt að koma upplýsingum fram í dagsljósið sem haldið er leyndum.

Ég bendi á, eins og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, að það vantar löggjöf um upplýsingaskyldu stjórnvalda. Við ættum að álykta um að slík löggjöf komi strax. Hún ætti líka að tryggja opinberum starfsmönnum eða öðrum, sem af einhverjum ástæðum búa yfir upplýsingum sem þeir telja nauðsynlegt að koma á framfæri, rétt til að gera það og njóta nafnleyndar ef mikið er í húfi. Menn ættu því að umorða tillögugreinina með þetta í huga.

Þá finnst mér líka vanta í þessa tillögu ákvæði sem tryggir rétt borgaranna gegn fjölmiðlum og umfjöllun þeirra. Slíkt á þar fyllilega heima því fjölmiðlar eru oft og tíðum ósanngjarnir í garð einstaklinga sem þeir fjalla um, ef þeim býður svo við að horfa. Það er enginn hægðarleikur fyrir einstakling að verja sig gegn fjölmiðlum eða andæfa fréttaflutningi þeirra. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson þekkir það fár, á þeim tíma gengu fjölmiðlar allt of langt að mínu mati.

Það undrar mig oft að heyra fréttir af rannsóknum mála hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins þar sem öll smáatriði eru rakin, jafnvel vitnisburður manna sem hafa verið yfirheyrðir þótt þeir hafi enn ekki verið ákærðir, hvað þá heldur að yfir þeim hafi verið felldur dómur. Hver er réttur þeirra sem þar eiga í hlut? Hver gætir réttar þeirra og þess að þeirra sjónarmið komi fram? Því miður finnst mér ég æ oftar verða var við slíkar fréttir sem eru bersýnilega komnar frá opinberri stofnun eins og Rannsóknarlögreglu ríkisins. Það má vel vera að menn komist að þeirri niðurstöðu eftir að hafa fjallað um málið að rétt sé að fjölmiðlar birti fréttir af gangi mála í rannsókn og tilgreini þar jafnvel meinta sakborninga. En þá verða menn að gæta þess að þeir geti komið sínum málstað á framfæri með jafngildum hætti. Mér finnst ekki eðlilegt að rekja í smáatriðum í fjölmiðlum mál sem er í rannsókn. Það kemur í ljós að lokinni rannsókn hvert mat ákæruvaldsins er. Komi til ákæru er það auðvitað fréttamál og fær þá umfjöllun sem slíkt.

[15:00]

Mér finnst, virðulegi forseti, allt of mikil áhersla lögð á rétt blaðamannsins í þessari tillögu af því að það er ekki nema einn hluti málsins. Það eru miklu fleiri málsaðilar í þjóðfélaginu sem eiga í hlut í opinberri umfjöllun mála en fréttamennirnir einir. Ég hef tekið undir það að það er rétt og skylt að þeir hafi reglur til að geta gegnt sínu starfi. Það kann að vera rétt að hafa svona trúnaðarsamband sem hér er getið um en það verður líka að huga að rétti annarra sem koma að þessum málum og löggjafinn getur ekki að mínu viti tekið svona einhliða á þessu máli.