Gjald af áfengi

Þriðjudaginn 06. febrúar 1996, kl. 15:13:03 (2746)

1996-02-06 15:13:03# 120. lþ. 84.9 fundur 269. mál: #A gjald af áfengi# (forvarnasjóður) frv. 85/1996, Flm. MF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur


[15:13]

Flm. (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga sem er á þskj. 497, um breytingu á lögum um gjald af áfengi. Flutningsmenn auk mín eru hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir og Kristín Ástgeirsdóttir. Breytingin fjallar um að 8. gr. laganna orðist svo, með leyfi forseta:

,,Af innheimtu gjaldi skv. 3. gr. skal 1% renna í Forvarnasjóð. Tilgangur sjóðsins skal vera að stuðla að forvörnum gegn áfengis- og fíkniefnaneyslu. Styrki skal veita úr sjóðnum til forvarnastarfa á verkefnagrundvelli. Heilbrigðisráðherra skipar fjögurra manna sjóðstjórn. Fjármálaráðherra, menntamálaráðherra og dómsmálaráðherra tilnefna einn stjórnarmann hver en þann fjórða skipar heilbrigðisráðherra án tilnefningar og skal hann vera formaður stjórnar. Heilbrigðisráðherra setur nánari reglur um sjóðinn með reglugerð.``

Í greinargerð segir:

,,Hér er lögð til sú breyting á 8. gr. laga um gjald af áfengi, nr. 96/1995, að þær tekjur, sem renna í Forvarnasjóð og á að nota til forvarnastarfa gegn áfengisneyslu, megi einnig nota til forvarnastarfs gegn annarri fíkniefnaneyslu.

Í júní á þessu ári voru samþykkt á Alþingi lög um gjald af áfengi. Þar er í 8. gr. kveðið á um að 1% af því gjaldi á áfengi, sem er innheimt skv. 3. gr. laganna, skuli renna í Forvarnasjóð. Tilgangur sjóðsins er að með framlögum úr honum skuli stuðla að áfengisvörnum. Heilbrigðisráðherra setti reglugerð um starfsemi Forvarnasjóðsins 3. október sl. Þar segir í 1. tölul. 5. gr. reglugerðarinnar að hlutverk sjóðsins sé ,,að styrkja forvarnastarf félagasamtaka og einstaklinga á sviði áfengisvarna á verkefnagrundvelli, svo sem fræðslustarfsemi og alls kyns áróður.`` Stjórn sjóðsins skal samkvæmt reglugerðinni auglýsa a.m.k. einu sinni á ári eftir umsóknum um styrki úr Forvarnasjóði.

Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1996 er liðurinn 08-621 Áfengisvarnir og bindindismál. Þar er gert ráð fyrir að til áfengisvarnaráðs fari 9,1 millj. kr. Á sama fjárlagalið er lagt til að 40,9 millj. kr. fari til annarrar forvarnastarfsemi. Af þeim lið hefur nú þegar verið ráðstafað til forvarnastarfs um 12 millj. kr. samkvæmt ákvörðun Alþingis. Framlög til Forvarnasjóðs eru ekki sérmerkt í frumvarpi til fjárlaga en ætla má að tekjur sjóðsins séu undir liðnum 08-621.

Eins og áður segir eru framlög úr Forvarnasjóði eingöngu ætluð til forvarnastarfs gegn áfengisneyslu. Þar er vissulega um þarft verk að ræða en í ljósi þess að neysla annarra ávana- og fíkniefna hefur stóraukist á undanförnum árum er nauðsynlegt að auka framlög til allrar forvarnastarfsemi. Í ljósi þess er hér lögð til sú breyting að heimilt sé að veita fé úr Forvarnasjóði til forvarnastarfsemi gegn áfengisneyslu og annarri fíkniefnaneyslu.``

Virðulegi forseti. Er hæstv. heilbrrh. í húsinu?

(Forseti (ÓE): Hæstv. heilbrrh. er ekki í húsinu, nei. Vill hv. þm. að forseti geri ráðstafanir til að hæstv. heilbrrh. komi ef það væri mögulegt?)

Tekur það ekki óskaplega langan tíma?

(Forseti (ÓE): Það er hætt við því að það taki nokkurn tíma.)

Er hæstv. fjmrh., hæstv. menntmrh. eða hæstv. dómsmrh. í húsinu?

(Forseti (ÓE): Nei, það er nú bara enginn þeirra, því miður.)

Það er slæmt.

(Forseti (ÓE): Já.)

Þessir hæstv. ráðherrar eiga að tilnefna fulltrúa í þá sjóðstjórn sem á að úthluta úr Forvarnasjóði sem samkvæmt lögum í dag má eingöngu úthluta fjármagni til forvarnaaðgerða gegn áfengisneyslu. Það hefur komið fram í ræðum undanfarið hjá hæstv. heilbrrh. og reyndar í umræðum um lögin um gjald af áfengi s.l. sumar að áætla mætti að þetta 1% gjald á áfengi gæfi á bilinu 20--30 millj. til forvarnastarfsemi. Það hefur ítrekað komið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar að þarna væri um tvöföldun framlaga til forvarnastarfsemi að ræða. Allt það fé sem kæmi í þennan sjóð væri hrein viðbót, ekki væri áætlað að skerða þau framlög sem áður hefðu verið.

[15:15]

Nú er það svo að undir liðnum 08-621 Áfengisvarnir og bindindismál eru á fjárlögum 1995 29,5 millj. kr. Í ár eru undir þessum sama lið 40,9 millj. Þarna eru um hreina viðbót að ræða en hún er ekki nema rétt um 11 millj. Má því segja að áætlaðar tekjur af gjaldi af áfengi séu í raun mun minni en gert var ráð fyrir við afgreiðslu á lögum um gjald af áfengi. Það kom fram bæði hv. formanni efh.- og viðskn. og eins hjá hæstv. ráðherra að gert væri ráð fyrir tekjum upp á 20--30 millj. kr. sem væri hrein viðbót til forvarnastarfsemi.

Við afgreiðslu fjárlaga í ár er, þrátt fyrir þetta ákvæði laga um gjald af áfengi og þrátt fyrir að búið sé að samþykkja reglugerð um starfsemi þessa sjóðs, hvergi í fjárlögum gengið frá því hvar má finna þetta sérstaka gjald. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef bestar frá heilbrrn. má gera ráð fyrir að þessi framlög eða þessi sjóður finnist undir þeim lið sem ég áður hef nefnt. Þaðan var samkvæmt ákvörðun síðustu fjárlaga úthlutað um 12 millj. kr. Óskipt er hins vegar 28,9 millj. Ég hafði gert mér vonir um að sá málflutningur sem hæstv. heilbrrh. hefur haft uppi um að það þyrfti að samræma forvarnastarfsemi í landinu yrði til þess að þessi sjóður, þar sem auglýsa þarf sérstaklega eftir umsóknum um framlög úr honum, þýddi að þarna væri tæki til að samræma forvarnaaðgerðir. Engu að síður er samkvæmt venju undanfarinna ára úthlutað styrkjum til ýmissa samtaka og félagasamtaka sem sjá um forvarnastarfsemi og hafa gert árum saman án þess að þurfa nokkurn tíma að skila skýrslu um árangur af sinni starfsemi eða hvernig henni er háttað. Með þessu er ég ekki að segja að starfsemi þessara félaga og samtaka sem fengið hafa framlög úr þessum forvarnasjóði sé eitthvað ábótavant eða hún hafi ekki skilað árangri. En það er lenska við afgreiðslu fjárlaga að þegar félagasamtök eða einstakir aðilar sækja um framlög frá ríkinu þurfa þeir ekki að færa rök fyrir því að vel hafi til tekist með fjárveitingu fyrra árs. Ég get því ekki séð að sú sjóðsstofnun sem þarna er um að ræða og skipulag þessarar starfsemi sé færð til betri vegar þrátt fyrir samþykkta reglugerð síðan í október sl., en þá skrifaði hæstv. heilbrrh. undir reglugerð sem fjallar um starfsemi þessa sjóðs.

Nú er ljóst að þótt neysla áfengra drykkja sé verulegt vandamál og vissulega sé þörf á að skipuleggja forvarnastarfsemi þar umfram það sem gert hefur verið, að þá er önnur fíkniefnaneysla vaxandi vandamál í þjóðfélaginu. Ég verð að segja, hæstv. forseti, að eftir alla þá umræðu sem átt hefur sér stað, nýlega yfirlýsingu þess efnis að hér eigi að halda fjölþjóðaráðstefnu um fíkniefnavandann og nýskipaða nefnd sem hæstv. heilbrrh. og að ég held hæstv. dómsmrh. standa að varðandi fíkniefnavandann og hvernig eigi að bregðast við, finnst mér einkennilegt að einu viðbrögðin sem maður sér á hv. Alþingi og á göngum þess eru hv. stjórnarliðar sem tipla um á tánum og passa sig á að koma ekki inn í þingsalinn til að taka þátt í umræðu um þetta mikilvæga mál. Að vísu eru á dagskrá mál frá stjórnarandstöðunni og maður hefur það sannarlega á tilfinningunni suma dagana að það séu haldnir sérstakir þingfundir á hv. Alþingi fyrir hv. stjórnarandstöðu. Ef stjórnarliðar eru yfirleitt í húsinu tipla þeir á tánum svo við verðum sem minnst vör við þá og fást alls ekki til að taka þátt í umræðu um málið. Þetta er slæmt og alls ekki í takt við þann vilja sem hæstv. forseti hefur margsinnis nefnt við okkur og við virðum að störf Alþingis verði markvissari og umfjöllun málaefnaleg. Ég hef ævinlega litið svo á að 1. umr. sé til þess að kynna meginrökin fyrir því máli sem flutt er hverju sinni og í það minnsta sé hægt að fara fram á að þeir hv. þingmenn sem skipa viðkomandi nefnd sem fjallar um málið sitji í sölum Alþingis og hlýði á umræðuna. Hér er í hæsta lagi einn hv. þm. úr hv. efh.- og viðskn. sem mun líklega fá þetta mál til umfjöllunar. En auðvitað er alltaf skammast yfir þeim sem þó mæta. Þetta er eins og þegar prestar tala yfir hausamótunum á þeim sem til kirkju mæta á sunnudögum, en hinir eru lausir við skammirnar. En þar sem ég veit að hv. stjórnarliðar lesa örugglega þingtíðindin til að skoða þau mál sem þeir fá til umfjöllunar í nefndum sínum, vænti ég þess að þeir reki líka augun í þessar skammir og láti þær sér kannski að kenningu verða. Aðalmálið er það að þetta frv. fái skjóta afgreiðslu í gegnum þingið. Ég tel afar mikilsvert að þar sem við höfum til úthlutunar rétt um 30 millj. kr. til forvarnastarfs, en það er allt sem við höfum á fjárlögum þessa árs sem Alþingi hefur samþykkt, að þá fái þetta mál skjóta afgreiðslu í gegnum þingið svo hægt sé að nýta þetta fjármagn til forvarnastarfsemi gegn vímuefnaneyslu almennt. Sérstaklega í ljósi þess að við höfum fengið í hendur skýrslu sem sýnir okkur svo ekki verður um villst að neysla fíkniefna hefur færst neðar í aldurshópa og má jafnvel finna dæmi þess að 11 og 12 ára börn neyti fíkniefna annarra en áfengis. Þess vegna tel ég afar mikilsvert að hægt sé að skipuleggja öfluga forvarnastarfsemi þar sem starfsemi félagasamtaka, frjálsra félagasamtaka og opinberra stofnana sé samræmd. Við náum engum árangri með vinnu okkar nema þar sé um samræmda starfsemi og aðgerðir að ræða.

Ég óska eftir því að þessu máli verði vísað til hv. efh.- og viðskn. þar sem það á heima vegna þess að þarna er fjallað um lög um gjald af áfengi, en jafnframt að hv. efh.- og viðskn. vísi því til heilbr.- og trn. til umsagnar og málið komi síðan til 2. umr.