Réttarstaða fólks í vígðri og óvígðri sambúð

Þriðjudaginn 06. febrúar 1996, kl. 15:41:31 (2750)

1996-02-06 15:41:31# 120. lþ. 84.12 fundur 280. mál: #A réttarstaða fólks í vígðri og óvígðri sambúð# þál., Flm. KÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur


[15:41]

Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um miðlun upplýsinga um réttarstöðu fólks í vígðri og óvígðri sambúð en flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir og Kristín Halldórsdóttir.

Tillgreinin felst í því að ályktað er að fela dómsmrh. að láta gera fræðslubækling um réttarstöðu fólks í vígðri og óvígðri sambúð. Þetta er ákaflega einföld tillaga en að baki hennar býr mikil nauðsyn. Þessi tillaga hefur verið flutt tvisvar áður af okkur kvennalistakonum, en hefur því miður ekki náð fram að ganga. Hins vegar er mikil nauðsyn á því að þessari tillögu verði komið í framkvæmd vegna þess að þess eru ótal dæmi og alveg ótrúlega mörg að fólk virðist í fyrsta lagi ekki gera sér grein fyrir því hvaða munur er á hjónabandi og óvígðri sambúð. Það er það fyrsta. Síðan er þess einnig að gæta að hvort sem fólk er í hjónabandi eða óvígðri sambúð virðist fólk ákaflega lítið hafa kynnt sér réttindi og skyldur sem fylgja hvoru sambúðarforminu fyrir sig.

Lögum samkvæmt virðist enginn hafa tekið það að sér að fræða fólk almennilega um réttindi og skyldur í hjónabandi eða óvígðri sambúð. Það er ekki öðruvísi en fólk kynni sér viðkomandi lagagreinar að hægt er að átta sig á þessu. Auðvitað fræða prestar fólk að einhverju leyti þegar um það er að ræða að fólk ætli að gifta sig en staðreyndin er sú eins og margoft hefur komið fram við hjónaskilnaði, við sambúðarslit, við lát maka og annað það sem upp kann að koma í hjónabandi að fólk er ótrúlega óupplýst um rétt sinn.

Eins og ég nefndi felur tillagan fyrst og fremst í sér að fela dómsmrn. að semja slíkan bækling. Hér er um mjög einfaldan bækling að ræða sem ætlunin er að liggi frammi hjá prestum, hjá dómurum, sem hafa réttindi til þess að gifta fólk, eða á Hagstofunni eða þar sem fólk skráir sig í óvígða sambúð eða hjá forstöðumönnum safnaða og öðrum þeim sem koma nærri þessu máli.

Hæstv. forseti. Ég hygg að með bæklingi af þessu tagi, sem öllum sé aðgengilegur, megi koma í veg fyrir ýmiss konar vandræði. Ég get aðeins gripið niðri í greinargerðinni til þess að skýra betur við hvað er að fást en þar segir:

Algengt er að upp komi vandamál í sambandi við eignalegan og fjárhagslegan rétt fólks við sambúðarslit eða andlát annars aðilans í vígðri eða óvígðri sambúð. Við slíkar aðstæður kemur oft í ljós að það sem fólk hélt að væri réttur þess er það alls ekki. Þessar ranghugmyndir, sem á lagamáli eru kallaðar lögvilla, eru sennilega tilkomnar vegna nokkurra lagaákvæða sem til eru um óvígða sambúð og snerta tryggingalög, skattalög og lög um húsaleigusamninga.

[15:45]

Reyndar er þess að geta að víðar í lögum er minnst á óvígða sambúð, m.a. höfðum við til meðferðar í félmn. breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Vegna þess að ég minnist á það vil ég rifja upp að í greinargerð frv. var að finna ábendingu frá félmrn. um nauðsyn þess að setja lög um óvígða sambúð. Það er einungis að finna skilgreiningar á réttindum og skyldum þeirra sem eru í óvígðri sambúð í ýmsum lagabálkum en heildstæð löggjöf um óvígða sambúð er ekki til. Ég kom þessari ábendingu til hæstv. dómsmrh. sem hafði um það góð orð að koma henni áfram til þeirrar nefndar sem er að endurskoða sifjalögin og vonandi verða einhverjar úrbætur hvað þetta varðar. Einnig hefur verið boðað að von er á frv. inn í þingið sem víkur að sambúð samkynhneigðra sem snertir þetta mál líka og þarf þá að taka inn í þennan bækling ef það lagafrv. nær því að verða samþykkt á þessu þingi sem ég vona svo sannarlega að verði vegna þess að þar er þörf úrbóta.

Í framhaldi af þessu ætla ég að víkja að því sem fram kemur í greinargerð um þann mun sem er á vígðri og óvígðri sambúð. Í greinargerðinni segir:

Munurinn á hjónabandi og óvígðri sambúð er í aðalatriðum þessi:

Í óvígðri sambúð eru engar reglur um helmingaskipti eigna og skulda.

Enginn erfðaréttur er milli sambúðarfólks.

Enginn réttur er til setu í óskiptu búi.

Engin gagnkvæm framfærsluskylda er fyrir hendi.

Við þetta er auðvitað að bæta því sem ekki er nefnt í þessari upptalningu sem er yfirráðaréttur yfir börnum sem er ákaflega vandmeðfarið mál þegar um sambúðarslit er að ræða og þar er ákveðinn munur á þeim sem eru í hjónabandi eða óvígðri sambúð.

Hæstv. forseti. Ekki er ástæða til að vera með málalengingar um þetta. Þörfin er ótvíræð. Ég leitaði til dómsmrn. nýlega og spurðist fyrir um hvort einhverjar upplýsingar væru þar handhægar um hjónaband og óvígða sambúð og fékk það svar að engar upplýsingar lægju þar frammi aðrar en það sem er að finna í lögum. Ég ætlaði líka að leita upplýsinga hjá Fjölskylduþjónustu kirkjunnar en þar svaraði bara símsvari þannig að ég veit ekki hversu aðgengileg sú þjónusta er. Það kann að vera að þar hafi verið teknar saman einhverjar upplýsingar en þær voru mér ekki aðgengilegar þegar eftir var leitað. Ég hygg að það sé alveg ótvírætt að þörfin á þessum bæklingi sem við viljum svo gjarnan sjá er mikil og ekki síst gagnvart því unga fólki sem í hverjum mánuði gengur í hjónaband eða skráir sig í óvígða sambúð.