Aðgengi fatlaðra að umhverfisráðuneytinu

Miðvikudaginn 07. febrúar 1996, kl. 13:43:48 (2760)

1996-02-07 13:43:48# 120. lþ. 85.1 fundur 264. mál: #A aðgengi fatlaðra að umhverfisráðuneytinu# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur


[13:43]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Ég get tekið undir það með hv. þm. að auðvitað þurfa opinberar stofnanir eins og ráðuneytin að vera vel aðgengileg fyrir þá sem þangað þurfa að leita, ekki síst sú stofnun eða það ráðuneyti sem fjallar um byggingar- og skipulagsmál. Við höfum sem sagt reynt að gera það sem best verður gert miðað við þetta hús og þær aðstæður sem þar eru fyrir hendi. Ég hygg að það sé ekki skynsamlegt, a.m.k. alls ekki af leigutaka, að fara að leggja í dýrari framkvæmdir en þær sem hér eru fyrirhugaðar. Það er ljóst að það líður á leigutímann og þá þarf auðvitað að huga að því að í nýju húsnæði sé þannig um hnútana búið að aðgengi sé fullkomlega viðundandi. Hvað Náttúrufræðistofnun og Náttúruverndarráð varðar, að ég tali nú ekki um sýningarsafn eins og Náttúrugripasafnið, er auðvitað óviðunandi að slíkt sé í húsnæði sem er ekki aðgengilegt hreyfihömluðum. Á undanförnum árum höfum við oft hugað að nýju húsnæði fyrir stofnunina og safnið. Það eru fyrirhugaðar breytingar á starfsemi Náttúruverndarráðs samkvæmt frv. sem verður vonandi áður en langt um líður lagt fyrir þingið. Þar kann að koma upp sú staða að það verði auðvelt að takast á við húsnæðismál ráðsins. En húsnæðismál Náttúrufræðistofnunar og Náttúrugripasafnsins verða aðeins leyst með því að stofnanirnar flytji í annað húsnæði og þyrfti að vinna að því eins fljótt og mögulegt er.

[13:45]