Aðgengi opinberra bygginga

Miðvikudaginn 07. febrúar 1996, kl. 13:58:51 (2766)

1996-02-07 13:58:51# 120. lþ. 85.3 fundur 266. mál: #A aðgengi opinberra bygginga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur


[13:58]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Í 34. gr. laga um málefni fatlaðra segir m.a., með leyfi forseta:

,,Sveitarstjórnir skulu sinna ferlimálum fatlaðra með skipulögðum hætti, m.a. með gerð áætlana um endurbætur á aðgengi opinberra bygginga og þjónustustofnana í samræmi við ákvæði byggingarlaga og byggingarreglugerðar, sbr. og skipulagslög og skipulagsreglugerð.``

Nú á haustdögum, nánar tiltekið í desember 1995, kom nokkuð ágæt skýrsla frá ferlinefnd Reykjavíkurborgar þar sem fram koma ýmsar upplýsingar sem hljóta að vekja til umhugsunar í þessu sambandi. Sem dæmi má nefna að í 158 sofnunum borgarinnar eru merkt bílastæði fyrir fatlaða aðeins 35. Af þessum 158 stofnunum er salerni fyrir fatlaða aðeins á 80 stöðum. Af 23 skólum borgarinnar eru 21 á fleiri en einni hæð og lyfta er aðeins í sex skólum í borginni. Í aðeins einni stofnun eru sérmerkingar, ljósmerki, hljóðmerki fyrir blinda.

[14:00]

Þessi skýrsla er ágæt í sjálfu sér og þarf að sjálfsögðu að framkvæma núna í samræmi við hana það sem þar kemur fram en hún tekur einvörðungu til bygginga borgarinnar. Þar er engin grein gerð fyrir aðgengismálum í byggingum á vegum ríkisins. Þar er víða pottur brotinn og óþarft að leita langt að dæmum um óviðunandi ástand.

Á Alþingi Íslendinga er þingmönnum hvergi boðið upp á fundaraðstöðu þar sem fatlaðir eiga að staðaldri greiðan aðgang. Það er útilokað að maður í hjólastól komist hjálparlaust inn í Alþingishúsið, hvað þá að hann geti farið um húsið innan dyra. Aðeins ein þingnefnd, fjárln., getur án mikillar fyrirhafnar tekið á móti fundargesti í hjólastól og þingmenn geta ekki boðið til sín fólki til fundar sem er í hjólastól. Það er ekki að finna húsnæði á vegum Alþingis Íslendinga sem býður upp á slíkt að staðaldri vegna þess að það er aðeins í fundarsal fjárln. sem slíkt er kleift. Að sjálfsögðu er viðfangsefni Alþingis að leysa úr þessu og mikilvægt að framfylgt sé ákvæðinu í áðurnefndum lögum. Það þarf hins vegar að gera í öllum opinberum byggingum í öllum sveitarfélögum landsins. Þess vegna er þeirri fyrirspurn beint til félmrh. hvort ráðuneytið hafi gengið eftir því við sveitarstjórnir að farið sé að ákvæðum laga um málefni fatlaðra hvað varðar áætlanagerð um endurbætur og aðgengi. Hyggst ráðuneytið gera slíka könnun vegna bygginga á vegum ríkisins? Hyggst ráðuneytið beita sér fyrir því að áætlun um endurbætur á aðgengi opinberra bygginga og þjónustustofnana verði gerð?