Aðgengi opinberra bygginga

Miðvikudaginn 07. febrúar 1996, kl. 14:02:16 (2767)

1996-02-07 14:02:16# 120. lþ. 85.3 fundur 266. mál: #A aðgengi opinberra bygginga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur


[14:02]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil láta það koma fram í upphafi að í félmrn. er aðgengi fyrir fatlaða og það tel ég vera sjálfsagðan hlut og þyrfti að vera svo um aðrar byggingar.

Í Alþingishúsinu hefur þetta verið vandamál þann tíma sem ég hef verið hér innanbúðarmaður. Ég minnist tveggja ágætra hreyfihamlaðra alþingismanna, þeirra Magnúsar Kjartanssonar og Jóhanns Hafsteins, sem áttu erfiða daga vegna þess hve þetta hús er óþægilegt til umferðar fyrir fatlaða.

Í 34. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, kemur eftirfarandi fram: ,,Sveitarstjórnir skulu sinna ferlimálum fatlaðra með skipulegum hætti, m.a. með gerð áætlana um endurbætur og aðgengi opinberra bygginga og þjónustustofnana í samræmi við ákvæði byggingarlaga og byggingarreglugerðar, sbr. og skipulagslög og skipulagsreglugerð. Svæðisskrifstofur skulu koma á framfæri ábendingu til bygginganefndar um úrbætur á sviði ferlimála.

Heimilt er sveitarstjórn að skipa samstarfsnefnd um ferlimál fatlaðra, með þátttöku samtaka fatlaðra, sem m.a. gerir tillögu um forgangsröðun verkefna á sviði ferlimála.``

Nokkrar sveitarstjórnir hafa farið eftir þessu og sveitarfélög með sérstakar ferlinefndir eru Akureyrarkaupstaður, Garðabær og Ísafjarðarkaupstaður. Önnur sveitarfélög hafa falið öðrum nefndum að sjá um ferlimál. Akraneskaupstaður fól það byggingarnefnd, Borgarbyggð félagsmálanefnd, Búðahreppur félagsmálanefnd, Dalvíkurkaupstaður byggingarnefnd, Hveragerðisbær skipulags- og umhverfisnefnd, Reykjanesbær félagsmálaráði og Siglufjarðarkaupstaður tækni- og umhverfisnefnd og Vestmannaeyjabær byggingarnefnd.

Í athugasemdum með frv. til laga um málefni fatlaðra kemur eftirfarandi fram um 34. gr.: Í greininni er sú skylda lögð á sveitarfélög að sinna ferlimálum með skipulegum hætti. Skal það m.a. gert með því að vinna að áætlunum um þær endurbætur sem gera skal á aðgengi opinberra bygginga og þjónustustofnana samkvæmt byggingarlögum og byggingarreglugerð, svo og skipulagslögum. Bent skal á að með opinberum byggingum er m.a. átt við vinnustaði í eigu sveitarfélagsins.

Jafnframt er í greininni lögð áhersla á það að svæðisskrifstofur í málefnum fatlaðra hafi forgöngu um að koma á samskiptum við byggingarnefndir sveitarfélaga á svæðinu. Þannig hvílir sú skylda á svæðisskrifstofum að sjá til þess að upplýsingar um nauðsynlegar úrbætur í ferlimálum berist til bygginganefndar á viðkomandi svæði. Þá er í greininni tekið fram að sveitarstjórnum sé heimilt að skipa samstarfsnefnd um ferlimál fatlaðra. Slík nefndaskipun er að sjálfsögðu heimil án sérstaks lagaákvæðis en rétt þótti að taka þetta fram til hvatningar fyrir sveitarfélögin.

Eins og þessar tilvitnanir bera með sér er vísað til ákvæða byggingarlaga og skipulagslaga ásamt reglugerðum um nefnd lög. Nú er sá hængur á, hv. þm., að lög um byggingar og skipulag heyra undir umhvrn. og ekki lengur undir félmrn.

Félmrn. hefur að sjálfsögðu kynnt sveitarstjórnum lög um málefni fatlaðra, einkum og sér í lagi þau ákvæði laganna sem lúta að sveitarfélögum og þar á meðal skyldum þeirra varðandi aðgengismál og ferlimál fatlaðra. Félmrn. hefur að öðru leyti ekki beitt sér sérstaklega gagnvart sveitarfélögum um áætlanagerðir í þessum málum. Í samantekt ráðuneytisins kemur fram yfirlit um sérstakar ferlinefndir sem ég var að kynna áðan. Í Reykjavík er starfandi ferlinefnd. Eins og fram kom hefur hún lagt fram áætlun um endurbætur á aðgengi næstu ár og vísa ég þar til þeirra skýrslna sem liggja fyrir.

Varðandi aðgengismál komu nýjar áherslur inn í lögin um málefni fatlaðra frá 1992 þar sem m.a. er heimilt að verja allt að 10% af ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs fatlaðra til lagfæringa á aðgengi opinberra bygginga en þó aldrei meiri en sem nemur helmingi af kostnaði við hverja einstaka framkvæmd. Á árinu 1993 var þannig úthlutað úr sjóðnum 16,8 millj. til að bæta aðgengi fatlaðra. Má þar nefna lyftur í skóla og aðgengi utan húss að ýmsum þjónustustofnunum, sundlaugum og fleiru. Á árinu 1994 voru veittar 13,3 millj. í ýmsar framkvæmdir til að betrumbæta aðgengi fyrir fatlaða og 1995 voru veittar 8,2 millj. Ferðaþjónusta fatlaðra fluttist frá ríki til sveitarfélaga 1. janúar 1993 og þau hafa sinnt þeirri skyldu síðan og sett sér sérstakar reglur um rekstur ferðaþjónustunnar. Markmiðið er að gera fötluðum sem geta ekki nýtt sér almenn farartæki kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda.

Í nóvember 1991 skipaði þáv. félmrh. ferlinefnd ráðuneytisins sem hefur það hlutverk að athuga um hönnun bygginga með tilliti til aðgengis fatlaðra. Enn fremur er það hlutverk nefndarinnar að gera tillögur varðandi breytingar á opinberum byggingum með aðgengi fatlaðra í huga í tengslum við endurbætur og endurbyggingu þeirra.

Herra forseti. Það er alveg ljóst að núverandi ákvæði í skipulags- og byggingarlögum varðandi aðgengi fatlaðra tryggja ekki svo að óyggjandi sé nauðsynlegt aðgengi. Það er því að nokkru leyti háð þekkingu, skilningi og velvilja hönnuða og yfirvalda hvort fullnægjandi lausnir nást fram. Þá ber einnig að geta þess að nákvæm hönnun margra svæða, svo sem gatna og margra útivistarsvæða, er ekki háð samþykki skipulags- og byggingarnefnda eins og nú háttar og það er nauðsynlegt að setja um þetta mál ákvæði skýr ákvæði í lög.