Aðgengi fatlaðra að Þjóðleikhúsinu

Miðvikudaginn 07. febrúar 1996, kl. 14:16:05 (2772)

1996-02-07 14:16:05# 120. lþ. 85.4 fundur 267. mál: #A aðgengi fatlaðra að Þjóðleikhúsinu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur


[14:16]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin. Ég harma að það skuli ekki hafa verið gerðar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja aðgengi fyrir fatlað fólk að Þjóðleikhúsinu, leikhúsi allra landsmanna með því að koma fyrir lyftu í húsinu. Ég sé enga ástæðu til að bíða eftir því að hafist verði handa við viðamiklar lagfæringar sem fyrirhugað er að gera við lokaáfanga Þjóðleikhússins. Ég tel að þennan þátt eigi að lagfæra þegar í stað.

Það kann að vera rétt að það sé hægt að veita fötluðu fólki í hjólastólum, hreyfihömluðu fólki aðgang að sýningum Þjóðleikhússins í aðalsalnum, en þá með mjög miklum tilfæringum, með því að ryðja á brott sætum sem fyrir eru. Ég segi nú fyrir mína parta að ég hefði ekki áhuga á að sækja leiksýningu þar sem ég þyrfti að óska eftir því með nokkrum fyrirvara að sætum yrði rutt á brott og fólk fengið til að bera mig inn í leiksalinn, inn í sýningarsalinn, inn í leikhúsið, á milli hæða til að komast á salerni og á milli hæða til að njóta veitinga á borð við aðra leikhúsgesti. Þess vegna vil ég hvetja hæstv. menntmrh. til að beita sér fyrir því að öllum leikhúsgestum í leikhúsi allra landsmanna verði tryggð full mannréttindi þar.