Umferðarlög

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 10:49:42 (2780)

1996-02-08 10:49:42# 120. lþ. 87.3 fundur 152. mál: #A umferðarlög# (hlífðarhjálmar við hjólreiðar) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[10:49]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég er sammála efni frv. að því leyti til að ég tel tvímælalaust rétt að stefna að lögleiðingu hjólreiðahjálma og þá fyrir alla aldurshópa. En ég vil láta það sjónarmið koma fram að ég held að það sé mikilvægt hvernig að slíkri aðgerð er staðið til þess að hún skili tilætluðum árangri. Við höfum reynslu af því að það er ekki sjálfgefið að lögleiðing ein og sér skili tilætluðum árangri ef hún er ekki á réttum tíma gjörð og með réttri umgjörð. Það hefur verið mat þeirra sem um þetta hafa fjallað að það þurfi að undirbúa breytingar af þessu tagi til þess að þær nái tilgangi sínum. Það er mjög mikilvægt að notkun hjálma sé þá orðin almenn og að allar tæknilegar forsendur séu fyrir hendi til að lögleiða hluti af þessu tagi. Jafnvel þó að svo sé komið að 20--30%, þriðjungur eða svo af börnum noti hjólreiðahjálma að staðaldri gefur auga leið að það er talsvert átak að tryggja að þau 70% sem eftir eru geri það á tiltölulega skömmum tíma. Það kallar á að fjárfest sé í þessum tækjum almennt á öllum heimilum í landinu þar sem börn yngri en 14 ára eru og að hugsunarhátturinn breytist í þá veru að það sé rétt og skylt og eðlilegt að nota þessi sjálfsögðu, ágætu öryggistæki.

Ég vil líka í þessu sambandi minna á að fyrir þinginu liggur till. til þál. um sérstaka umferðaröryggisáætlun og framkvæmdaáætlun og stefnumótun sem varða aukið umferðaröryggi. Þar er vikið að þessum málum og reyndar með nokkuð öðrum hætti en þetta frv. gerir ráð fyrir. Þó vill nú svo til að formaður nefndarinnar sem samdi viðkomandi tillögu er 1. flm. þessa frv. Í helstu niðurstöðum nefndarinnar er komist svo að orði varðandi þetta atriði í tölul. 11, með leyfi forseta: ,,Lögleiða þarf notkun hjólreiðahjálma innan nokkurra ára.`` Þessi niðurstaða fékkst að sjálfsögðu í kjölfar umræðna í nefndinni um málið og það er ekki af tilefnislausu að einmitt svona er tekið til orða. Í kafla III, tölul. 1.1.5. er fjallað um notkun hjólreiðahjálma og þar segir, með leyfi forseta:

,,Notkun hjólreiðahjálma hefur aukist töluvert á undanförnum árum. Talsverð fræðsla hefur verið um gildi þeirra og mikilvægi. Talið er að með almennri notkun hjólreiðahjálma megi fækka höfuðáverkum í hjólreiðaslysum um allt að 80%. Halda þarf áfram fræðslu um notkun hjólreiðahjálma meðal allra, bæði barna og fullorðinna og sérstaka áherslu þarf að leggja á að foreldrar sýni gott fordæmi í þeim efnum. Nefndin leggur til að lögleidd verði notkun hjólreiðahjálma að undangenginni fræðslu og áróðri. Huga skal að reynslu þeirra þjóða sem sett hafa slík lög.``

Svo mörg voru þau orð. Hér er málið sett í nokkuð annað samhengi en gert er í frv. vegna þess að það er gert ráð fyrir að lögleiðing hjálma almennt verði endapunkturinn á ákveðnum áróðurs- og upplýsingaaðgerðum sem komi á undan. Fyrir þessu eru sem sagt þær ástæður að menn hafa tilfinningu um að það sé heppilegra að til lögleiðingar komi þegar menn eru orðnir nokkuð öruggir um að hugarfarið er þannig breytt að almenningur sé jákvæður og upplýstur um mikilvægi þessa, þátttakan verði strax frá byrjun almenn og það verði ekki nein umtalsverð brögð að því að menn uppfylli ekki lagaákvæðið. Síðan geti verið skynsamlegt að skoða hvernig þetta hefur gefist hjá öðrum þjóðum.

Það varð einnig nokkur umræða í nefndinni og ég hef reyndar átt þátt í umræðum um það atriði víðar, að reynslan af þessum öryggistækjum er ekki í öllu samhengi einhlít. Það er t.d. ljóst að það urðu slys sem tengdust ófullkominni framleiðslu á öryggishjálmum framan af. Til voru hjálmar sem ekki voru með neinum öryggislásum. Börn festu hjálmana í leiktækjum og af því hlutust slys og jafnvel dauðaslys. Nú er orðið mikið framboð af hjálmum þar sem sérstakir öryggislásar opnast ef slíkt gerist og fyrir þessari hættu er vonandi séð. En eftir sem áður stendur að þarna voru á ferðinni vissir byrjunarörðugleikar í tengslum framleiðsluna sem þurfti að leysa. Að sjálfsögðu er alger forsenda þess að unnt sé að lögleiða öryggistæki af þessu tagi að það sé óumdeilanlega nóg framboð af fullnægjandi tækjum á viðráðanlegu verði á markaði. Ég gef mér að vísu að svo sé nú orðið og það eigi ekki að vera frágangssök af þeim ástæðum að leggja þá skyldu foreldrum á herðar að börn þeirra noti hjálma.

Spurningin er líka, út frá því sem er sagt í textanum sem ég las áðan, herra forseti, hvort að það er endilega rétt hugsun að aðskilja annars vegar börn og unglinga og hins vegar fullorðið fólk í þessu sambandi. Ef þetta er lögleitt gagnvart börnum er þá ekki í sjálfu sér alveg jafn rétt að lögleiða þetta gagnvart fyrirmyndunum, þ.e. foreldrunum og fullorðnu fólki.

Ég vona, herra forseti, að það taki enginn athugasemdir mínar eða vangaveltur mínar sem andstöðu við þetta mál. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að stefna beri að þessu og það hefur reyndar oft komið fram m.a. hér úr þessum ræðustóli. Eftir sem áður tel ég að það beri vanda mjög ákvörðun af þessu tagi og stefnumótum. Ég reiknaði nú satt best að segja með, úr því að fram var komin þessi þáltill. um miklu víðtækari aðgerðir á sviði umferðaröryggismála, að menn mundu hallast að því að láta þetta mál verða hluta af þeim aðgerðum sem þar yrði kveðið á um. En út af fyrir sig hef ég heldur ekkert á móti því, ef menn vilja taka þetta einstaka út, að láta það fá aðra meðferð en önnur atriði fjölmörg og sum næsta sambærileg á sviði umferðaröryggismála sem fjallað er um í tillögunni. Reynslan kennir okkur líka að sjónarmið breytast og það koma jafnvel í ljós í ljósi reynslunnar atriði sem menn átta sig ekki á eða hugsa ekki út í þegar gripið er til einstakra aðgerða af þessu tagi. Ég gæti nefnt sem dæmi þá ákvörðun Alþingis fyrir alllöngu síðan að lögleiða notkun bílljósa allan sólarhringinn. Nú hafa á seinni árum komið upp þau sjónarmið að þetta sé ekki að öllu leyti einhlítt og jafnvel ekki að öllu leyti skynsamleg ráðstöfun. Í vissum tilvikum geti það jafnvel verið á kostnað umferðaröryggis að ljósanotkunin sé lögleidd um hádaginn. Þannig breytast nú hlutirnir eftir því sem reynslan kennir mönnum á þá.

Ég gef mér, herra forseti, að að einhverju leyti verði tekið mið af því hvernig þingið vinnur að umferðaröryggismálum í vetur áður en endanleg ákvörðun verður tekin um afgreiðslu þessa máls. Ætli þetta frv. hv. þm. hljóti ekki að hafa lent í sömu hv. þingnefndinni, eða eigi að lenda, og tillaga sú til þál. um stefnumótun er varðar aukið umferðaröryggi og framkvæmdaáætlun sem ræðumaður hefur af einhverjum ástæðum orðið einn helsti bandamaður eða talsmaður fyrir í þinginu.