Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 13:12:10 (2784)

1996-02-08 13:12:10# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), KÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[13:12]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Árið 1937 var komið með djasssöngkonuna Bessie Smith stórslasaða á sjúkrahús í New York. Henni var vísað frá vegna þess að hún var svört og spítalinn einungis ætlaður hvítu fólki. Á meðan leitað var að sjúkrahúsi fyrir svertingja blæddi söngkonunni út. Heimurinn missti frábæran listamann.

Í ljósi þess ástands sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir í heilbrigðismálum spyr ég: Er sú stund fram undan er sjúklingum verður vísað frá almennum deildum á stóru sjúkrahúsunum ekki vegna litarháttar heldur vegna þess að rúm eru orðin svo fá, deildir lokaðar og fjárveitingar uppurnar? Verða kvensjúkdómalæknar að segja við konur er líða tekur á árið: Því miður ég get ekki skoðað þig almennilega með ómskoðun, kvótinn minn upp á 50 skoðanir á ári er búinn. En þú getur borgað hana sjálf. Verður starfsfólk geðdeildar Landspítalans að senda neyðarkall að nýju til heilbr.- og trn. Alþingis til að lýsa því aftur sem segir í gögnum þeirra frá árinu 1995: ,,Sjúklingar sem koma á deildina eru sífellt meira veikir og aðrir komast ekki að. Stöðugt vaxandi álag er á starfsfólki og vísa verður bráðveiku fólki frá að nóttu til vegna þess að ekki er hægt að sinna því.``

Verður tugum sérhæfðra starfsmanna sagt upp vegna sparnaðar og niðurskurðar á spítölunum og þeir sendir út í óvissu atvinnuleysisins ef þeir ekki koma sér úr landi?

[13:15]

Er þetta það ástand sem við viljum sjá í heilbrigðisþjónustunni? Er ekki hægt að fara aðrar leiðir til að tryggja áfram gott heilbrigðiskerfi sem þjónar þeim sem sjúkir eru, sinnir rannsóknum, kennslu og fyrirbyggjandi aðgerðum? Er svo komið fyrir einni af ríkustu þjóðum heims að hún þurfi ár eftir ár að sauma að sjúkum, öldruðum og fötluðum? Er ekki mál að staldra við, skoða stöðuna og ákveða svo hvað við viljum og hvernig við ætlum að fjármagna heilbrigðiskerfið?

Í þeim umræðum og aðgerðum sem einkennt hafa undanfarin fimm ár hafa talnaleikir og frjálshyggjuhugmyndir yfirskyggt þarfir sjúkra og aldraðra. Sjúkrahúsunum í Reykjavík hefur fækkað um eitt, starfsfólki hefur fækkað, fjármagn hefur verið skorið niður en sjúklingunum fækkar að sjálfsögðu ekki. Vandinn er einfaldlega færður til frá sjúkrahúsunum yfir á Tryggingastofnun, sveitarfélögin eða heimilin. Árangurinn af sparnaðargleðinni er sáralítill að mati Ríkisendurskoðunar og þegar á heildina er litið er staðreyndin sú að það eru sjúklingarnir og heimilin í landinu sem hafa tekið á sig aukinn hlut, eins og sjá má í nýjustu upplýsingum Þjóðhagsstofnunar um þessi efni.

Við erum komin að endamörkum niðurskurðarstefnunnar. Lengra verður ekki gengið með sömu aðferðum og hefur reyndar þegar verið gengið of langt. Vandinn sem við blasir er mikill og við honum verður að bregðast.

Það má segja að þáttaskil hafi orðið í heilbrigðismálum þjóðarinnar við valdatöku ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Alþfl. vorið 1991. Í ljós kom að hallinn á ríkissjóði var mun meiri en ráð var fyrir gert, m.a. vegna mikilla kosningaframkvæmda ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar setti sér það markmið að ná hallanum niður á tveimur árum. Fjmrn. dró fram sparnaðarhnífana, brýndi vel og sendi til ráðuneytanna. Mikið var skorið þau fjögur ár sem stjórnin sat við völd en niðurstaðan varð um 50 milljarða halli á þessum fjórum árum.

Stærsti hnífurinn lenti í höndum heilbrrh., Sighvats Björgvinssonar, sem kunni lítt með eggvopn að fara, skar ótt og títt en sást ekki fyrir auk þess sem hnífalög vildu geiga. Um þá sögu má m.a. lesa í frumvörpum til fjáraukalaga árin 1992--1995 sem og í frumvörpum til fjárlaga þessi ár. Ég ætla, hæstv. forseti, að vitna aðeins í frumvörpin til þess að við áttum okkur á þessari sögu.

Í frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1992 segir um Tryggingastofnun ríkisins að farið sé fram á 693 millj. kr. í aukafjárveitingu vegna lífeyris- og sjúkratrygginga. Annars vegar er áætluð 163 millj. kr. aukning í útgjöldum lífeyristrygginga umfram forsendur fjárlaga sem leiðir af eingreiðslum sem samið var um í síðustu kjarasamningum. Hins vegar er sótt um 530 millj. kr. til sjúkratrygginga. Síðan eru skýringar á þessum tölum.

Um Ríkisspítalana segir að farið sé fram á 120 millj. kr. vegna tveggja tilefna. Annars vegar vegna yfirlýsinga ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga um að fallið yrði frá sumarlokun á öldrunardeild og barnageðdeild Ríkisspítala sem kostar 65 millj. kr. Hins vegar vegna kaupa á segulómtæki sem fyrri ríkisstjórn færði stofnuninni að gjöf í tilefni 60 ára afmælis Landspítalans árið 1990. Um er að ræða 55 millj. kr. lokagreiðslu. Um Borgarspítalann: Farið er fram á 25 millj. kr. vegna kostnaðar sem fellur til vegna kjarasamnings við aðstoðarlækna sem gerður var árið 1991.

Í frv. ársins 1993 segir um Tryggingastofnun ríkisins að farið sé fram á aukafjárveitingu að fjárhæð 350 millj. kr. Í kjölfar kjarasamninga ákvað ríkisstjórnin að lífeyrisþegum yrðu greiddar uppbætur með hliðstæðum hætti og undanfarin ár. Áætlað er að sá viðbótarkostnaður nemi 410 millj. kr.

Um Ríkisspítalana segir: ,,Lagt er til að framlag til Ríkisspítalanna hækki um 60 millj. kr.`` Og þessi saga heldur áfram, hæstv. forseti. Í frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1994 segir um lífeyristryggingar: Farið er fram á 400 millj. kr. aukafjárveitingu. Fjárlög gerðu ráð fyrir 400 millj. kr. fjárheimild vegna eingreiðslna til lífeyrisþega. Áætlað er að þau útgjöld verði 300 millj. kr. hærri í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að greiða út sömu eingreiðslur á liðnu ári og því til viðbótar sérstakar 6 þús. kr. eingreiðslur vegna efnahagsbata líkt og samkomulag varð um á almennum vinnumarkaði.

Um sjúkratryggingar segir þetta ár: ,,Sótt er um 800 millj. kr. hækkun fjárheimilda í samræmi við endurskoðaða áætlun um útgjöldin miðað við útkomu fyrstu átta mánaða ársins. Fjárvöntunin stafar að mestu af því að áform um sparnað á þessum lið hafa ekki gengið eftir.``

Fyrir árið 1995 segir um lífeyristryggingar að farið sé fram á að fjárveiting liðarins verði hækkuð um 1.330 millj. kr. Í fyrsta lagi verður um 630 millj. kr. kostnaðarauki í eingreiðslum til lífeyrisþega vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að þær skyldu greiddar í samræmi við ákvæði kjarasamninga. Um sjúkratryggingar segir: ,,Farið er fram á að framlag verði aukið um 550 millj. kr. Fjárvöntunin skýrist að mestu af því að áformaður sparnaður í sjúkratryggingum samkvæmt fjárlögum hefur ekki gengið eftir á árinu.``

Þannig er þessi saga, hæstv. forseti. Ár eftir ár hafa verið gerðar áætlanir um sparnað, en þær hafa ekki náð fram að ganga. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 er að finna nákvæmlega þessar sömu hugmyndir sem ríkisstjórnin varð að hluta til að falla frá, m.a. vegna þrýstings. Ríkisendurskoðun hefur lagt mat á þessar sparnaðaraðgerðir ríkisstjórnarinnar og m.a. kom fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrir janúar--júní 1995 eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Eins og sjá má í töflu 27 jukust útgjöld sjúkrastofnana um 380 millj. kr. að raungildi milli áranna 1993 og 1994 og skiptist sú aukning með eftirfarandi hætti: Laun hækka að raungildi um 350 millj. kr. og lyfjakostnaður um 80 millj. kr. Önnur gjöld lækkuðu hins vegar um 10 millj. og sértekjur jukust um 40 millj. Á árinu 1994 var gert ráð fyrir að ná fram sparnaði í rekstri sjúkrahúsa en í reynd varð aukning á útgjöldum eins og að framan er getið.`` Lokaniðurstaða Ríkisendurskoðunar, sem vakti mikla athygli þegar þessi skýrsla kom fram er þessi: ,,Ekki verður lengur fram hjá því litið að breyta þarf aðferðum við niðurskurð ef ná á fram sparnaði í rekstri sjúkrahúsanna. Reynslan sýnir að þó svo að sparnaður hafi náðst fram á tilteknum sviðum eða hjá einstökum sjúkrahúsum hefur það ekki dugað til að mæta útgjaldaaukningu í kerfinu í heild. Telja verður að nú sé komið að þeim tímapunkti að stjórnvöld þurfi að taka ákvarðanir um þjónustustig og gæði þeirrar þjónustu sem sjúkrahúsunum er ætlað að veita og að framlög verði ákveðin í samráði við það.``

Þetta var niðurstaða Ríkisendurskoðunar, hæstv. forseti, og er hún mikið umhugsunarefni fyrir okkur öll, ekki síst þá sem hér eru nú í meiri hluta og halda því miður áfram þar sem síðasta ríkisstjórn hvarf frá. Það hefur verið skorið og skorið en þörfin fyrir lyf, læknisþjónustu og tryggingabætur eykst stöðugt. Enda aukast útgjöldin þegar á heildina er litið eins og hér hefur komið fram. Afleiðingar sparnaðarins í heilbrigðiskerfinu sem svo litlu hefur skilað eru þær að álag á starfsfólk hefur aukist gífurlega sem haft hefur í för með sér aukin veikindi og fjarvistir frá vinnu eins og sú skýrsla sem landlæknir sendi frá sér á síðasta ári leiðir í ljós. Vinnuanda fer hrakandi og enginn veit hvað fram undan er.

Á sama tíma hafa afköst á spítölunum aukist vegna þess að fólk er sent heim eins fljótt og unnt er. Biðlistar eru þó langir t.d. vegna mjaðma- og lýtaaðgerða.

Í Bandaríkjunum hefur að undanförnu átt sér stað mikil umræða um það hve legutími sjúklinga hefur verið styttur og þar eru í gangi málaferli vegna þessa. Þar átti í hlut lítið barn sem dó og því var um kennt að það hefði verið sent of snemma heim. Sá niðurskurður sem nú hefur verið boðaður og tillögur liggja fyrir um hjá stóru sjúkrahúsunum hlýtur að hafa þær afleiðingar að biðlistar munu lengjast og þjónustan verður verri. Þegar niðurstaða fjárlaga lá fyrir sendi læknaráð Landspítalans frá sér yfirlýsingu þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

,,Á undanförnum árum má segja að Landspítalinn hafi verið keyrður svo sem unnt er en heildarafköst séu samt ófullnægjandi vegna lokana skurðstofa og sjúkradeilda. Afleiðingin er sú að þrátt fyrir aukna framleiðni lengjast biðlistar, vinnutap og þjáningar sjúklinga aukast og minnkandi vinnugleði verður vart meðal starfsfólks. Versnandi rekstrarumhverfi bitnar á kennslu læknanema, hjúkrunarnema og annarra heilbrigðisstétta.`` Þetta er þungur áfellisdómur og læknaráð Landspítalans leggur í þessari yfirlýsingu sinni til hvað þurfi að gera og ég ætla reyndar að koma síðar að því í máli mínu hvernig beri að bregðast við.

Það sama má segja um starfsfólk Sjúkrahúss Reykjavíkur. Það lét einnig í ljós skoðun sína á þessum niðurskurði og ég vil vitna í það sem haft er eftir Pálma Jónssyni, yfirlækni öldrunarlækningadeildar, en hann sagði, með leyfi forseta:

,,Við þurfum vinnufrið til fjögurra eða fimm ára til þess að geta gert markvissar áætlanir og þessi niðurskurður kemur þvert á það. Þessar náttúruhamfarir í fjárlagagerðinni fara illa með þá sem að málinu standa. Í stað þess að geta gert áætlanir til nokkurra ára snýst stjórnun þeirra um neyðarráðstafanir.``

Hvað er til ráða, hæstv. forseti? Áður en ég svara þeirri spurningu ætla ég að líta yfir heilbrigðiskerfið eins og það er í dag og víkja aðeins að þeim fjármögnunarkerfum sem eru í gangi. Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar voru búsettir tæplega 268 þús. manns á Íslandi hinn 1. desember sl. Við búum dreift í stóru landi og að sjálfsögðu þarf að tryggja landsmönnum öllum ákveðna lágmarksheilbrigðisþjónustu. Samkvæmt fjárlögum ársins 1996 fara um 50 milljarðar kr. til ráðuneytis heilbrigðis- og tryggingamála. Þar af fara rúmir 29 milljarðar til tryggingamála en rúmir 20 milljarðar til þess sem ég flokka sem heilbrigðismál. Þess ber að geta að Þjóðhagsstofnun er með allt aðra skiptingu á þessum útgjöldum og niðurstaða hennar er sú að samkvæmt bráðabirgðatölum hafi á síðasta ári farið um 31 milljarður til heilbrigðismála. En þeir flokka þannig að það sem greitt er beint út til fólks eru tryggingamál en allt annað telst til heilbrigðismála innan þessa geira. Þetta breytir allmjög þessari skiptingu en ég reiknaði þetta einfaldlega út frá fjárlögunum.

Það er fyrir séð vegna aldursskiptingar þjóðarinnar og sívaxandi hóps aldraðra að útgjöld til trygginga- og heilbrigðismála munu óhjávæmilega stóraukast á næstu árum og áratugum. Hlutfallslega færri og færri skattgreiðendur verða að standa undir tekjuöflun til velferðarkerfisins. Þessar staðreyndir vekja margar spurningar og þær kalla á uppstokkun, áherslubreytingar og framtíðarsýn. Ef við skoðum það kerfi sem byggt hefur verið upp fyrir landsmenn, þessi 268 þús. sem hér búa, lítur myndin svona út:

Utan Reykjavíkur eru 18 sjúkrahús og tvö sjúkraskýli sem kosta um 3,4 milljarða í rekstri á þessu ári ef þau halda sig innan fjárlaga. Í Reykjavík eru stóru sjúkrahúsin tvö sem kosta um 11 milljarða í rekstri. Öldrunarheimili með sjúkradeildum eru átta og heilsugæslustöðvar á landinu öllu eru 54, þar af átta í Reykjavík þar sem búa 100 þúsund manns. Þetta þýðir að að meðaltali eru tæplega 5 þúsund manns um hverja heilsugæslustöð en ef Reykjavík er skoðuð sérstaklega eru tæplega 12.500 manns um hverja stöð í borginni. Þetta skýrir m.a. þær uppsagnir sem við höfum orðið vitni að hjá heilsugæslulæknum.

Við þessa upptalningu bætast svo endurhæfingarstöðvar og stofnanir sem sinna áfengismeðferð. Það má öllum ljóst vera að hér hefur verið byggt upp þéttriðið net sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva og við hljótum að spyrja: Er ekki verið að dreifa fjármagni og kröftum allt of mikið? Ekki síst í ljósi þess hve miklum fjölda fólks er vísað til rannsókna og aðgerða hjá sérfræðingum stóru sjúkrahúsanna. Hafa bættar samgöngur ekki dregið úr þörfinni fyrir öll þessi sjúkrahús? Höfum við efni á þessu viðamikla kerfi?

Mér hefur sýnst að hver einasta tilraun til að skoða nýtingu sjúkrahúsanna utan Reykjavíkur og allar tillögur til breytinga hafi verið barðar niður af þingmönnum viðkomandi kjördæma, sveitarstjórnarmönnum og stjórnendum sjúkrahúsanna. Er þetta verjanlegt þegar þau tvö stóru sjúkrahús sem í reynd þjóna öllum landsmönnum standa frammi fyrir því að skerða bráðaþjónustu. Það kom fram á fundi heilbr.- og trn. með fulltrúum Sjúkrahúss Reykjavíkur og Ríkisspítalanna að nú væri búið að skera niður allt sem hægt er að skera og nú er bráðaþjónustan ein eftir.

Sigurður Björnsson krabbameinslæknir komst svo að orði í Ríkisútvarpinu í síðustu viku að neyðarástand ríkti á stóru sjúkrahúsunum. Þeir fulltrúar Ríkisspítalanna og Sjúkrahúss Reykjavíkur sem ég vitnaði til áðan tóku ekki svo djúpt í árinni, en sögðu neyðarástand fyrirsjáanlegt vegna þess að nú er komið að sjálfri bráðaþjónustunni. Við þurfum líka að spyrja okkur: Eru áherslurnar réttar í okkar kerfi? Eru stundaðar hér það sem kallað er oflækningar? Er hlutfallið milli almennrar heilsugæslu og sérfræðinga kolrangt eins og heislugæslulæknar hafa bent á? Er forgangsröðunin röng? Hefur tæknin tekið af okkur völdin? Við hljótum að spyrja okkur allra þessara spurninga og þá kemur að spurningunni: Hvað er til ráða? Eftir því sem ég best þekki til er einkum um að ræða þrenns konar kerfi og blöndu af þeim í fjármögnun heilbrigðismála í heiminum.

[13:30]

Í fyrsta lagi er það norræna eða evrópska módelið þar sem flestar heilbrigðisstofnanir eru í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Ríkissjóður stendur undir meginhluta kostnaðarins og notar til þess skatttekjur en neytendur greiða aðeins lítinn hluta með komugjöldum og greiðslum fyrir einstaka þætti þjónustunnar. Þáttur neytenda virðist þó víðast hvar fara vaxandi eins og fram kemur í nýjustu tölum Þjóðhagsstofnunar.

Í öðru lagi er það sem ég kalla ameríska módelið sem byggist á miklum einkarekstri, stuðningi sjóða, fyrirtækja og einstaklinga, auk trygginga sem fyrirtæki, einstaklingar og fjölskyldur greiða en ríkið sér að einhverju leyti um þá sem standa utan tryggingakerfisins. Bandaríska kerfið býður upp á allt það besta sem til er ef fólk getur borgað eða er tryggt en heilbrigðisvandamálin eru ótrúleg og minna mest á þriðja heims ríki. Það er talið mjög dýrt í rekstri og hefur þann galla að milljónir manna eru án trygginga og hafa engan aðgang að heilsugæslu sem er samfélaginu mjög dýrt til lengri tíma litið.

Þriðja módelið er svo að finna í fjölmörgum þróunarríkjum þar sem erlend samtök, kirkjur og sjóðir Sameinuðu þjóðanna, þ.e. erlent fjármagn, er notað til að halda uppi mjög takmarkaðri heilsugæslu.

Að mínum dómi er aðeins um einn kost að velja eigi að halda uppi öflugu heilbrigðiskerfi fyrir alla í okkar dreifbýla og fámenna landi. Hann er norræna módelið eða að ríkissjóður fjármagni heilbrigðiskerfið að mestu eins og hann hefur gert hingað til. Ég held að það sé alveg ljóst að það hefur enginn annar bolmagn til þess og þótt þjónustugjöld yrðu stóraukin, sem ég vara eindregið við, þá duga þau afar skammt. Sem dæmi um það má nefna þau áform sem ríkisstjórnin hafði uppi hér fyrir áramót um að koma á innritunargjöldum á stóru sjúkrahúsunum. Spítölunum var ætla að innheimta um 180 millj. kr. í innritunargjöld sem eru 1,6% af heildarkostnaðinum við rekstur þessara sjúkrahúsa. Það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að innheimta mikil gjöld fyrir þjónustuna og alveg ljóst að þau vega afar létt þegar allur þessi kostnaður er hafður í huga. Því er það og verður ríkissjóður, hinn sameiginlegi sjóður okkar allra, sem mun bera hitann og þungann af kostnaði við heilbrigðiskerfið á komandi árum.

Það er mín skoðun að heilbrigðiskerfið eigi að vera fyrir alla og það eigi ekki að mismuna fólki eftir efnahag og gera þeim erfitt fyrir sem bera lítið úr býtum. Það má vel vera að skynsamlegt væri að eyrnamerkja fé til heilbrigðismála og taka að einhverju leyti upp aftur greiðslur í sjúkrasamlag til að efla hina frægu kostnaðarvitund, jafnvel að gefa fólki kost á að velja á milli greiðslna eins og sums staðar er gert. En grunnhugsunin á að vera sú að við berum sameiginlega ábyrgð á þeim sem eru sjúkir, fatlaðir eða ósjálfbjarga og það á að hjálpa fólki til að ná betri heilsu ef það er hægt.

Ég er sannfærð um það að eina leiðin til þess að ná fram jafnvægi og sparnaði í heilbrigðiskerfinu til frambúðar er sú að nálgast málið frá allt annarri hlið en hingað til hefur verið gert. Hætta flötum niðurskurði og svokölluðum sparnaði. Þess í stað þarf samræmdar aðgerðir og samvinnu margra aðila, með ríkið og starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar í fararbroddi, til að stórefla forvarnir sem gætu á skömmum tíma skilað verulegum sparnaði í heilbrigðismálum og þar með aukið svigrúm til að veita nauðsynlega og góða þjónustu. Ég ætla að rökstyðja þetta í nokkrum orðum, hæstv. forseti.

Að mati yfirlæknis slysadeildar Borgarspítalans, Brynjólfs Mogensens, kosta slys af ýmsu tagi samfélagið um 10 milljarða kr. árlega. Þar af kosta umferðarslys um 5 milljarða eða meira en rekstur Sjúkrahúss Reykjavíkur. Með betri kennslu, áróðri, hækkun bílprófsaldurs, lækkun hámarkshraða og auknu eftirliti, t.d. með myndavélum, mætti draga stórlega úr þessum kostnaði og mannfórnum sem umferðin kostar ár hvert.

Slys á börnum eru algengari hér en í nokkru öðru Evrópulandi og þar þarf að taka verulega á. Þótt við næðum ekki meiru en að fækka slysum þannig að það drægi úr kostnaði um 1 milljarð þá munar þar verulega um. Álagssjúkdómar er annað dæmi þar sem verulega er hægt að taka á og þar með eru taldar vöðvabólgur sem stafa af kulda, streitu, einhæfri vinnu, rangri líkamsbeitingu og of lítilli hreyfingu. Álagssjúkdómar eru gífurlegt vandamál á Íslandi og ekki síst meðal kvenna. Með úrbótum á vinnustöðum, vinnustaðaleikfimi, áherslu á líkamsrækt og eflaust fleiri aðgerðum mætti draga verulega úr vinnutapi og kostnaði við lyf, sjúkraþjálfun og læknisheimsóknir. Sjúkraþjálfari sem ég þekki og stundað hefur töluverðar rannsóknir heldur því fram að íslenskar konur séu að jafnaði mun verr á sig komnar líkamlega en konur t.d. í Noregi og rekur hann það til of lítillar leikfimikennslu í skólum og þess að stúlkur hér hætta íþróttaiðkun á unglingsárum m.a. vegna þess að framboð er vægast sagt einhæft og hvatning nánast engin. Þá er mikið um það að konur vinni einhæf og erfið störf, t.d. í fiskvinnslu og á sjúkrahúsum, auk þess hve vinnudagur kvenna er langur og þar með lítill tími til að sinna eigin líkama og heilsu.

Á fundi sem ég sat í morgun ásamt hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur í nefnd sem við eigum sæti í gat landlæknir þess að heilsa þjóðarinnar færi batnandi. Það gengur þvert á það sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin heldur fram sem er það að heilsu kvenna um allan heim hraki. Staðreyndin er sú að heilsa karla fer batnandi. Meðallíftími þeirra er að lengjast meðan meðalævi kvenna stendur í stað. Þetta eru afar athyglisverðar staðreyndir en þarna skila sér m.a. miklar forvarnir í hjarta- og æðasjúkdómum sem hafa haft veruleg áhrif á lífslíkur karla.

Ég gæti haldið hér áfram að nefna fjölmörg dæmi um forvarnir sem geta skilað okkur miklum árangri og get ekki stillt mig um að nefna sérstaklega reykingar í því sambandi en framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins, Guðrún Agnarsdóttir, heldur því fram að ef tala má um, eins og gert er í Bandaríkjunum, að brjóstakrabbamein meðal kvenna sé þar faraldur þá megi tala um að lungnakrabbi meðal kvenna hér á landi sé faraldur. Sviðin eru mörg sem taka þarf á í forvörnum. Nú benda eflaust margir á að forvarnir kosti líka peninga. Og vissulega er það rétt en því er til að svara að ýmsar leiðir eru færar til að fjármagna þær. Þær skila sér fljótt í sparnaði sumar hverjar og það er hægt að virkja fyrirtæki og alls konar samtök til þátttöku.

Ég vil geta þess að heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, sem er kona eins og okkar heilbrrh. og heitir Donna Shalala, hefur beitt nokkuð óvenjulegum aðferðum til þess að auka forvarnir í Bandaríkjunum. Hún hefur leitað samstarfs við stórfyrirtæki eins og McDonald's, Uncle Ben's og fleiri slík fyrirtæki og fengið þá til þess að auglýsa á vörum sínum. Hún var í sérstöku átaki til þess að fá foreldra í Bandaríkjunum til að bólusetja börn sín en bólusetningar á ungbörnum þar eru þær þriðju minnstu í heiminum. Það eru svona ótrúlegar staðreyndir sem þeir eru að glíma við. Framleiðendur Hanes sokkabuxna tóku að sér að dreifa leiðbeiningum um það hvernig konur ættu að fylgjast með brjóstum sínum, Estée Lauder snyrtifyrirtækið hefur verið í mikilli fjársöfnun til að auka rannsóknir á brjóstakrabbameini og þannig mætti lengi telja. Leiðirnar eru margar en það þarf hugmyndaflug og skilning til að reyna þær.

Við eigum að sjálfsögðu mörg dæmi í okkar sögu um forvarnir sem tekist hafa vel og þar má nefna t.d. barna- og mæðravernd, starfsemi Hjartaverndar, Leitarstöð Krabbameinsfélagsins og fleira en það má gera miklu betur. En það þarf líka að taka á stjórnkerfinu og þar þarf ekki síst að hafa í huga að það þarf alltaf að skoða karlmenn sérstaklega, konur sérstaklega og börn sérstaklega. Þetta er grundvallaratriði ef menn vilja ná árangri í heilbrigðismálum.

Hæstv. forseti. Í grein í Morgunblaðinu hinn 6. febr. sl. víkur hv. þm. Sturla Böðvarsson að því sem hann telur mesta þörf á í heilbrigðiskerfinu til að taka á okkar vanda og þar segir hann m.a., með leyfi forseta:

,,Taka þarf afstöðu til þess hvert hlutfall útgjalda vegna heilbrigðis- og tryggingamála á að vera af heildarútgjöldum ríkissjóðs.

Hversu stór hluti þeirra fjármuna eigi að ganga til bótagreiðslna og hversu mikið til sjúkrastofnana vegna hjúkrunar- og læknisverka. Ákveða verður hvert þjónustustig einstakra sjúkrastofnana eigi að vera.``

Þarna má heyra enduróm af því sem fram kom í skýrslu Ríkisendurskoðunar en ég verð að lýsa því hér, hæstv. forseti, að ég algjörlega ósammála þessari skoðun. Ég er algjörlega ósammála því að það sé hægt að festa útgjöld til heilbrigðismála í einhverri ákveðinni prósentu af ríkisútgjöldum. Þörfin fyrir þjónustuna, ástand heilbrigðismála hlýtur að ráða því hverjar fjárveitingarnar eru og þar kem ég að mínum lokaniðurstöðum, hæstv. forseti.

Að mínum dómi hefur verið gengið of langt í sparnaði í heilbrigðiskerfinu. Sá sparnaður er farinn að koma við sjúklinga og það er um tvennt að ræða. Annars vegar að setja aukið fjármagn í heilbrigðisþjónustuna, hins vegar að stokka upp kerfið og breyta áherslum og reyna þannig að ná fram sparnaði og hagræðingu. Ég hef þegar bent á þá leið sem mér finnst blasa við og tel rétta, að nálgast málið út frá þeirri spurningu hvernig er hægt að draga úr eftirspurninni eftir þjónustu, hvernig er hægt að bæta heilsu þjóðarinnar.

Hins vegar er ekki hægt annað en að benda á það að þörfin fyrir fjármagn í heilbrigðiskerfinu er gífurleg og það er ekki hægt að hlusta á þau rök að þeir peningar séu ekki til. Hvað um það að ríkisstjórnin feti nú í fóspor Reykjavíkurborgar og skeri niður risnu og ferðakostnað? Hvað um það að menn skoði nú sjómannaafsláttinn sem er upp á rúmlega einn og hálfan milljarð króna? Er það réttlætanlegt að ríkið sé að borga fyrir útgerðina þegar útgerðin skilar hagnaði á meðan ástandið í heilbrigðismálum er eins og við okkur blasir? Ég vil að við skoðum það mál mjög vandlega en það verður auðvitað að fara rétt að, ekki að ráðast á sjómenn eins og gert var hér fyrir nokkrum árum. Hvernig getum við sagt að peningarnir séu ekki til þegar samfélagið horfir upp á skattsvik sem nema milljörðum? Þannig mætti áfram telja, hæstv. forseti. (Forseti hringir.)

Það fór eins og mig grunaði, þetta mál er svo yfirgripsmikið að það er erfitt að koma því öllu frá sér á jafnvel á hálftíma en ég vil þó að lokum, hæstv. forseti, fá að beina nokkrum spurningum til hæstv. heilbrrh. Þær eru í afar stórum dráttum og felast fyrst og fremst í því hver stefna ríkisstjórnarinnar er og hvernig hún skilgreinir hlutverk ríkisvaldsins í ljósi þess ástands sem við okkur blasir. Telur ráðherra að lengra verði gengið í sparnaði og hvernig á að bregðast við því ástandi í heilbrigðismálum sem við stöndum nú frammi fyrir?