Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 14:08:07 (2786)

1996-02-08 14:08:07# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[14:08]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég get ekki að því gert að Framsfl. hrærir jafnan einhvern bókmenntalegan streng í brjósti mínu. Þegar ég hlýddi á ræðu hæstv. heilbrrh. kom mér í hug gamall bókartitill: Allt önnur Ella. Vegna þess að sú Ella sem talar hér sem hæstv. heilbrrh. er allt önnur Ella en talaði sem hv. stjórnarandstöðuþingmaður Ingibjörg Pálmadóttir. Hæstv. heilbrrh. segir að menn þurfi að gera allt sem þeir geta til þess að draga úr halla ríkissjóðs. Það var allt önnur Ella sem sagði efnislega á síðasta kjörtímabili: Hvað varðar krabbameinssjúka og hjartveika um kostnaðarvitund og halla ríkissjóðs? Hæstv. heilbrrh. kemur núna og kvartar undan því að hún hafi verið gagnrýnd vegna aðgerða sinna sem tengjast gjaldtöku.

Svo vill til að í hinum merka kosningabæklingi sem Framsfl. gaf út fyrir síðustu kosningar og hét Fólk í fyrirrúmi, með undirtitilinn Sáttmálinn milli kynslóðanna, segir að eftir harða ádeilu á þáv. ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. hafi ríkisstjórnin rofið þessa sátt með því að og ég vitna beint, með leyfi forseta: ,,stórauka álögur á sjúklinga, öryrkja, ellilífeyrisþega og aðra þá sem þurft hafa að leita sér læknisaðstoðar.`` Síðan segir, herra forseti: ,,Framsfl. telur brýnt að horfið verði af þessari braut.`` Framsfl. hefur ekki horfið af þessari braut heldur hefur hann þvert á móti hert skrúfuna fastar þannig að það er ekki nema von að hæstv. heilbrrh. þurfi að sæta gagnrýni.

Herra forseti. Ég vísa líka til þess að hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir sagði m.a. á síðasta kjörtímabili, með leyfi forseta:

,,Það gerist æ oftar að sjúklingur hringir í apótek og spyr hvað ákveðið lyf kostar sem hann á að sækja og síðan er lyfið ekki sótt því að sjúklingurinn á einfaldlega ekki fyrir lyfinu þrátt fyrir að þessi lyf séu lífsnauðsynleg sjúklingnum.``

Mætti ekki ætla að manneskja sem svo talar mundi breyta þessu eftir að hún er búin að sveipa sig kufli heilbrrh.? Mundi hún ekki vinda bug að þessum vanda sem hún er að lýsa? Það gerir hún ekki. Þvert á móti hefur hún hætt endurgreiðslu vegna sumra þeirra lyfja sem þarna ræðir um sem voru fúkalyf. Á öðrum lyfjum hefur hún hækkað lágmarksgreiðslur sjúklinga. Ég gæti farið með fjöldann allan af tilvitnunum í hæstv. ráðherra sem sýnir að það er allt önnur Ella sem er í ríkisstjórninni en sú sem talaði sem stjórnarandstöðuþingmaður. Þetta er spurning um að orð skuli standa. Menn eiga að standa við það sem þeir hafa sagt.

Herra forseti. Ég tek hins vegar undir það að ég hygg að það sé engum blöðum um það að fletta eins og hæstv. heilbrrh. segir að íslenska heilbrigðiskerfið er eitthvert hið besta í heiminum og ég held að þorri manna upplifi það með þeim hætti. Kerfið hefur raunar styrkst á síðustu árum vegna þess að undirstöður þess hafa verið treystar, ekki síst vegna aðgerða fyrrv. heilbrrh., hv. þm. Sighvats Björgvinssonar. Áður þróaðist kerfið að sönnu stjórnlítið um árabil en á þeim vanda var ráðin bót að ég tel á síðasta kjörtímabili. Mér finnst sjálfum mjög athyglisvert að þrátt fyrir yfirlýsingar forustu Framsfl. fyrir kosningar um nauðsyn gerbreyttrar stefnu í heilbrigðismálum hefur hæstv. heilbrrh. fetað í öllum aðalatriðum þann stíg sem var markaður af Alþfl. og þrátt fyrir stór orð hennar í upphafi kjörtímabilsins, þrátt fyrir yfirlýsingar hæstv. utanrrh., formanns Framsfl., í þessum bæklingi er það samt sem áður að það sjást engin ný vinnubrögð, það er engin önnur stefna uppi. Stefna hæstv. heilbrrh. sem birtist í fjárlögunum er sú sama að mestu leyti og Alþfl. fetaði í tíð fyrri ríkisstjórnar nema hvað hæstv. heilbrrh. skrúfar eilítið fastar þær aðhaldsskrúfur sem hann kvartaði undan af hálfu forvera síns. Ég er ekkert að kvarta undan þessu eins og hv. þm. Jón Kristjánsson á eftir að komast að raun um þegar vindur fram ræðu minni og ég tek að hrósa hæstv. heilbrrh. fyrir það sem vel er gert.

Það er hins vegar svo, hv. þm. Jón Kristjánsson, að menn hljóta að spyrja um efndir þeirra orða sem áður voru töluð. Það er svo, hv. þm. Jón Kristjánsson, að milli orða hæstv. heilbrrh. og milli verka hennar og orða á síðasta kjörtímabili er sorglega mikill munur, svo sorglega mikill að raunar er ekki hægt að álykta annað en hún hafi ekki enn þá náð vopnum sínum í ríkisstjórninni og það sé í rauninni hæstv. fjmrh. sem ráði förinni. Ég minni á þá staðreynd að það var hæstv. fjmrh. sem kynnti tillögur ríkisstjórnarinnar til lausnar vanda sjúkrahúsanna fyrir formönnum þingflokka fyrir jól. Það var ekki hæstv. heilbrrh. og það er hann en ekki hún sem ræður úthlutun úr þeim 200 millj. kr. hagræðingarpotti sem á að úthluta úr til spítalanna. Þetta finnst mér auðvitað dapurleg þróun, hv. þm. Jón Kristjánsson, og því miður held ég að eftir þessa fyrstu göngu í tjóðri hæstv. fjmrh. muni hæstv. hæstv. heilbrrh. reynast erfitt að marka sér sjálfstæða stefnu. Það er nefnilega erfitt að þurfa að kyssa vöndinn og það verður oft að leiðum vana, hv. þm. Jón Kristjánsson. Þetta átt þú líka eftir að læra í tjóðrinu hjá Sjálfstfl. --- Ég tek það fram að ég lærði það aldrei. (Gripið fram í.) Hæstv. fjmrh., þetta breytir ekki hinu að heilbrigðiskerfið á Íslandi er með því besta sem þekkist og þær aðgerðir sem núverandi ríkisstjórn hefur lagt út í hafa ekki breytt þessu að eðli til, a.m.k. ekki enn þá. Auðvitað er kerfið ekki gallalaust. Biðlistar eru til eftir sem áður. Þeir hafa verið til allt of lengi. Þeir eru svartur blettur á kerfinu en þó má ekki gleyma því að það var síðasta ríkisstjórn sem veitti sérstakt fjármagn til þess að ráðast á þá. Eins og hæstv. heilbrrh. gat um minnkuðu þeir á síðasta ári. Samkvæmt mínum upplýsingum lengdust þeir aftur eftir að hún tók við, þ.e. á seinni helmingi síðasta árs. Þetta eru hlutir sem skipta máli. En mér finnst að við megum ekki falla í þá gryfju að tala eins og þetta kerfi sé eitthvað verulega slæmt, þetta er gott kerfi. Reynsla mín af heilbrigðiskerfinu á Íslandi sem sonar aldraðra foreldra sem þurfa í auknum mæli að leita á náðir þessa kerfis, sem föður lítillar telpu sem af og til eins og gengur og gerist þarf að skoða sinn lækni, er tilfinning öryggis. Mér finnst oft eins og það sé óvígur her fumlauss hvítklædds fólks sem er jafnan til taks þegar eitthvað ber úr af. Þessi öryggistilfinning skiptir máli og ég fyrir mitt leyti er reiðubúinn til að borga talsvert háa skatta hennar vegna.

[14:15]

Herra forseti. Mönnum hefur eðlilega orðið tíðrætt um stöðu sjúkrahúsanna. Það hefur þegar verið drepið á afleiðingar niðurskurðarins sem menn hafa séð þar og aðrir eiga eftir að gera það. En þessi niðurskurður var óvæntur. Ég verð að segja það, herra forseti, hann var óvæntur vegna þess að hann var úr takti við það sem Framsfl. hafði sagt fyrir kosningar. Ég leyfi mér að vísa, herra forseti, í grein sem hæstv. viðskrh. skrifaði 4. apríl og er einmitt að tala um spítalana, er að tala um heilbrigðismálin. Þar segir hann, með leyfi forseta:

,,Ekki verður gengið lengra í niðurskurði sem felur í sér aukið álag á starfsfólk og lélegri þjónustu við sjúklingana.``

Það er náttúrlega alveg ljóst að þarna er verið að gefa ótvírætt loforð um að það verði ekki gengið lengra í niðurskurði. Fólki var lofað þessu.

Í þessum bæklingi sem ég hef vitnað hér til og Framsfl. gaf út, ,,Sáttmálinn milli kynslóðanna``, er líka rætt um lokanir deilda í tíð síðustu ríkisstjórnar og þar segir, með leyfi forseta:

,,Fjárveitingar til sjúkrahúsanna hafa verið skornar niður og hefur jafnvel þurft að loka einstökum deildum. Framsfl. telur brýnt að horfið verði af þessari braut.``

Þarna lofar Framsfl. því skorinort að hverfa frá því að loka deildum sjúkrahúsanna. Samt sem áður blasir það við að aldrei hefur jafnháu hlutfalli deilda verið lokað og verður á þessu ári þrátt fyrir loforðin. Og ég spyr, herra forseti: Er hægt að hugsa sér skýrari svik af hálfu nokkurs flokks á tímum þegar uppsveifla er í gangi? Þegar rekstur þjóðarbúsins er léttari þá er það Framsfl. sem gengur fram fyrir skjöldu og sker niður á viðkvæmustu stöðum kerfisins þar sem bráðveiku fólki er sinnt.

Loforðin sem ég hef lesið hér upp af hálfu Framsfl. efndi hæstv. ráðherra með þeim hætti að það vantar 700--800 millj. kr. til að stóru sjúkrahúsin geti haldið óbreyttum rekstri. Og ég vil aðeins að endingu fjalla um sjúkrahúsin með því að vísa til þess sem lækningaforstjóri Sjúkrahúss Reykjavíkur sagði á fundi heilbr.- og trmrn. Þá kom fram hjá honum að hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur væri fyrirsjáanlegt neyðarástand. Mig langar að spyrja hæstv. heilbrrh., sem auk núverandi embættis á að baki farsælan feril innan heilbrigðisgeirans: Er hún sammála þessu mati og ef svo er, hvernig hyggst hún breyta því?

Herra forseti. Ég hef hér átalið Framsfl. harðlega fyrir brot á loforðum sínum um aðgerðir í heilbrigðismálum og ég tel að við fjárlagagerðina hafi orðið ákveðin mistök að því er varðar sjúkrahúsin. Mér er hins vegar ljóst að í kerfinu eru innbyggðar skekkjur sem ekki er hægt að kenna hæstv. heilbrrh. um og ekki núv. ríkisstjórn heldur, kannski einhverjum samanlögðum ríkisstjórnum fortíðarinnar, ég er ekki klár á því. En ég velti því stundum fyrir mér hvort það vanti í raun og veru meira fjármagn í heilbrigðiskerfið. Og mín niðurstaða, sem er vissulega ekki byggð á nógu mikilli þekkingu eða reynslu, er hins vegar sú að það sé ekki svo. Ég held að það sé hægt að nýta fjármagnið talsvert betur. Það er hins vegar vitlaust gefið í ,,systeminu``.

Við þurfum framtíðarsýn í heilbrigðismálum eins og hæstv. heilbrrh. nefndi hér áðan. Það verður að segjast alveg eins og er að hún reynir þó að marka sýn til framtíðar. Ég er sammála henni um að það þarf m.a. að stokka upp kerfið sem heilbrigðisgeirinn býr við í dag. Ef við horfum t.d. á vanda sjúkrahúsanna þá blasir það við að stóru sjúkrahúsin hér í Reykjavík þurfa að sinna öllu landinu. Ríkisspítalarnir þjóna öllum. Ef sjúklingur fær blóðtappa í hjarta á Vestfjörðum þá er flogið með hann, yfirleitt fram hjá Ísafirði, hingað suður til Reykjavíkur. Fæðingarþjónustu allt í kringum land er lokað án nokkurs samráðs eða heildarskipulags yfir sumarmánuðina. En Landspítalanum er gert að hafa opið fyrir allar fæðandi konur. Þetta kerfi væri í sjálfu sér allt í lagi ef fjármagnið fylgdi sjúklingum en svo er alls ekki. Það er það sem ég á við að það sé vitlaust gefið. Því hvað annað er hægt að kalla það ef stóru spítölunum er skipað að skera niður en verða samt áfram að sinna þeirri skyldu að taka á móti bráðveiku fólki af landinu? Það verður alltaf vitlaust gefið í svona kerfi þangað til að fjármagnið fylgir sjúklingunum. Ég virði það við hæstv. heilbrrh. að hún hefur sagt það, eða ég skildi hennar ræðu þannig og ég hef hlýtt á mál hennar í fjölmiðlum áður, að hún geri sér grein fyrir þessu og hún vænti þess að sú nefnd sem ég m.a. sit í komi með tillögur til þess að breyta þessu.

Í þeirri nefnd eru margar jákvæðar tillögur til umræðu. En ég verð að hryggja hæstv. ráðherra með því að meiri hluti nefndarinnar telur sjálfur, eða hefur talið til þessa, að það sé ekki hluti af verksviði nefndarinnar að gera tillögur um að fjármagnið fylgi sjúklingunum. Fyrir mér er þetta pólitískt grundvallaratriði. Ég fylgi frjálslyndri jafnaðarstefnu og hluti af minni skoðun er að menn eigi að hafa eins mikið valfrelsi og hægt er svo fremi sem það komi ekki niður á hinum stærri hagsmunum heildarinnar. Menn eiga t.d. að geta valið um það hvort þeir kjósa að gangast undir aðgerð heima í héraði eða á stóru hátæknisjúkrahúsunum ef þeir telja hag sínum betur borgið þar.

En ef það verður komið upp svæðisbundinni heilbrigðisstjórn í hverju kjördæmi, eins og tillögur eru nú uppi um, án þess að það sé ljóst hvort fjármagn fylgir sjúklingunum sem þurfa að leita úr héraði suður á stóru sjúkrahúsin þá er ekki ljóst hvert valfrelsi sjúklinganna verður. Ég spyr: Þurfa þeir þá að sæta því að einhver stjórn heima í héraði hafi vald til að svipta þá þeim rétti sem þeir hafa í dag til að gangast undir uppskurð á þeim stofum og hjá þeim læknum sem þeir telja færasta og besta og er yfirleitt að finna á hátæknisjúkrahúsunum í Reykjavík? Svarið er já. Ef þetta kerfi verður tekið upp án þess að það sé ljóst að fjármagnið fylgi sjúklingunum þá er verið að svipta menn réttinum til að velja.

Ég velti því fyrir mér hvað hinir frjálslyndu menn í Sjálfstfl. segja við því. Vilja þeir taka upp ellidautt kerfi sovéskra tilskipana þar sem sjúklingunum er skipað fram og til baka af miðstýrðu kerfi eins og dauðu kjötflikki? Ég vildi gjarnan fá afstöðu þeirra til þessara hugmynda vegna þess að svona er þetta í dag eins og tillögurnar liggja fyrir. Og ég spyr hæstv. heilbrrh.: Telur hún koma til greina að það verði teknar upp heilbrigðisstjórnir í sérhverju kjördæmi án þess að fyrir liggi að valfrelsi sjúklingsins verði hið sama og áður? Þetta, herra forseti, er spurning um grundvallaratriði.

Það er hægt að benda á ýmislegt, herra forseti, til þess að nýta fjármagnið betur. Ég bendi á það að hver legudagur á stóru hátæknisjúkrahúsi kostar tugi þúsunda. Menn hafa verið að ræða um sjúkrahótel sem nýjung sem getur lækkað kostnað verulega, sjúkrahótel í næsta nágrenni hátæknisjúkrahúsanna eða hreinlega innan vébanda þeirra. Þangað gætu sjúklingar flust mjög fljótt eftir aðgerð og verið í afslappaðra umhverfi sem kostaði hins vegar alla miklu minna. Nábýlið við spítalann veitir þeim öryggi sem felst í návist við lækna, reglubundnu eftirliti og hjúkrunarliði í seilingarfjarlægð. Munurinn er hins vegar sá að hver dagur á sjúkrahótelinu kostar örfá þúsund en tugi þúsunda á hátæknisjúkrahúsinu. Þarna er hægt að spara. Landlæknir hefur ítrekað þetta. Ég sakna þessarar framtíðarsýnar í ræðu hæstv. ráðherra og ég sakna hennar líka í þeirri stefnu sem birtist í fjárlögunum. Ég er hins vegar ekkert hissa á því, eins og landlæknir segir í greinargerð sem hann hefur skrifað um sjúkrahótel (Forseti hringir.), með leyfi forseta, að síðustu:

,,Því miður er sömu sögu að segja frá viðbrögðum manna við þessari nýbreytni á Íslandi og í öðrum löndum að mesta mótstaðan kemur frá sumum læknum og stjórnendum stofnana.`` Þannig að afstaða heilbrrn. þarf ekki að koma á óvart í þessum efnum.

Herra forseti. Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan að ég veit að hæstv. heilbrrh. á við ramman reip að draga. Ég er henni þakklátur fyrir að hún hefur ekki brugðið verulega út af stefnu Alþfl. og í því felst sá dómur, herra forseti, að sú stefna sé farsæl til framtíðar. (Forseti hringir.) Getum við ekki verið sammála um það, herra forseti, þegar ég vík nú, vonum síðar, úr ræðustólnum?