Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 14:27:56 (2790)

1996-02-08 14:27:56# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[14:27]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Það kom berlega í ljós hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að þessar hugmyndir eru á algjöru frumstigi. Ég tel nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir því hvernig við getum breytt kerfinu til þess að það gagnist sem best svo það megi veita sjúklingum nauðsynlega þjónustu. En ég held að það hafi einnig komið vel fram hjá hv. þm. að við erum að tala um þennan eina og sama sjóð, blessaðan ríkissjóð. Það mun ekki vaxa á neinum trjám í héruðum nýtt fjármagn heldur er þetta spurning um nýja og breytta aðferðafræði við útdeilingu. Og ég held að eftir ræðu hv. þm. standi að það eru ekki hugmyndir um nýtt fjármagn frá neinum öðrum en úr ríkissjóði. Við þurfum því að átta okkur á þessari stöðu. En auðvitað þurfum við að skoða hvort hægt sé að skapa nýtt kerfi og til þess er ég reiðubúinn með hv. þm.