Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 14:35:17 (2795)

1996-02-08 14:35:17# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[14:35]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Talar nú fulltrúi hinna geistlegu stéttar. Satt að segja var ég undrandi yfir ræðu hans. Ég bendi honum á að hæstv. heilbrrh. kom upp áðan og þakkaði mér sérstaklega fyrir ræðu mína og hina málefnalegu umfjöllun mína um ýmsa hluti. Nú er það svo að hið pólitíska skæklatog sem fer svona í skap hv. þm. Hjálmars Jónssonar var ekkert skilgreint í hans ræðu. En í minni ræðu fór ég í grundvallaratriði eins og valfrelsi sjúklinga. Það skiptir máli í mínum flokki og einu sinni skipti það líka máli í þeim flokki sem hv. þm. Hjálmar Jónsson tilheyrir núna. Það skipti líka máli í flokki sem hann tilheyrði einu sinni, Framsfl. Ég ræddi líka um sjúkrahótel sem er nýjung sem landlæknir hefur barist fyrir. En hann hefur sáð sínum frækornum í grýtta jörð innan heilbrigðiskerfisins. Það var ýmislegt fleira sem ég drap á líka.

Ég tel að þetta hafi verið málefnaleg umræða og ég er sammála honum um að umræður af þessu tagi eigum við að reyna að nota til að þróa áfram hugmyndir. Og það er það sem menn eru að gera hérna. Ég lagði fram tvær hugmyndir um það í mínu máli hvernig mætti nýta það fjármagn betur sem núna er varið til heilbrigðismála. En hv. þm. hefur kannski verið önnum kafinn við að iðka þá list sem ég vildi að guð hefði gefið mér eigi síður en honum, að yrkja lítil kvæði og stökur.