Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 14:38:09 (2798)

1996-02-08 14:38:09# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[14:38]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna umræðunni sem fer fram í dag um þessi mikilvægu mál og vonast til þess að hún verði málefnaleg, varpi ljósi á viðfangsefni og að menn lyfti sér kannski dálítið upp úr dægurþrasinu eins og menn á undan mér í þessum ræðustóli hafa minnst á.

Það liggur fyrir í þessu máli að vandamálin og úrlausnarefnin eru þau sömu hér á landi og alls staðar annars staðar á Vesturlöndum. Sívaxandi kostnaður og fyrirsjáanleg hækkun hafa kallað á róttækar breytingar í heilbrigðismálum. Að minnsta kosti 20 þjóðir af 25 í OECD hafa endurmetið stefnuna í heilbrgiðismálum á síðustu árum og sumar með mjög róttækum hætti. Við þekkjum öll deilumál sem hafa verið uppi bæði innan þjóða og milli þjóða og hafa verið tekin upp m.a. hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni um það hvort leggja beri meiri áherslu á forvarnir eða hátækni. Ljóst er að mínu viti að þetta hvort tveggja þarf að fara saman. Ég held að menn deili ekki um það hér á landi. Við verðum á hverjum degi vör við nýjungar, svokallaðar framfarir í læknisfræði, sem kosta fjármuni. Tvennt nýtt hefur verið á síðum dagblaða hér á landi og í fréttum. Annars vegar er farið að nota lyf, svokallað Beta Interferon, til þess að reyna ráða við ákveðinn sjúkdóm, MS-sjúkdóm. Kúrinn kostar milljónir króna. Hann læknar þó ekki sjúklinginn heldur að slær afleiðingunum á frest. Við höfum fylgst með kaupum á segulómtæki og deilum um það hver eigi að borga brúsann og hafa menn ekki komið sér saman um það enn þá. Allt þetta vekur nýjar móralskar spurningar um forgangsröðun og það hver eigi að borga brúsann.

Ef við skoðum staðreyndir í heilbrigðismálunum og það veitir ekki af því vegna umræðna sem hafa dálítið farið á dreif, þá vil ég í fyrsta lagi benda á að heildarútgjöld hins opinbera til heilbrigðismála hér á landi hafa nánast staðið í stað á undanförnum árum þrátt fyrir alla umræðuna um stórkostlegan niðurskurð og árás á sjúklinga eins og sumir orða það. Stjórnvöld hafa reynt að halda kostnaðinum í skefjum án þess að það bitnaði á þeim sem þjónustuna þurfa. Ég nefni sem dæmi um þetta að á fjárlögum yfirstandandi árs eru 3,8 milljarðar kr. umfram það sem var á fjárlögum síðasta árs og ef við bætum við þessa tölu það sem kom fram á fjáraukalögum má telja að á undanförnum mánuðum og yfirstandandi ári sé upphæðin heldur hærri, líklega 4--5 milljarðar. Þetta skulum við hafa í huga.

Núna allra síðustu dagana hafa menn verið að ræða um Sogn í Ölfusi og menn leyfa sér að taka í munn orðið niðurskurður í því sambandi. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson var heilbrrh. þegar sú stofnun var sett á laggirnar. Fjárheimildir stofnunarinnar eru nákvæmlega á þeim grunni sem þá var reiknaður út. Hins vegar hafa faglegir stjórnendur stofnunarinnar sjálfir ákveðið að auka umfang starfseminnar án þess að hafa fjárheimildir til þess. Í blöðum, í útvarpi og sjónvarpi er þetta kallaður niðurskurður. Ég vek athygli á þessu.

Í öðru lagi eru heildarútgjöld til heilbrigðismála há hér á landi og sérstaklega há þegar tekið er tillit til aldurssamsetningar þjóðarinnar. Líkast til má bæta 10--12% við tölur sem nú eru notaðar ef við ætlum að vera samanburðarhæf við þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við vegna þess að íslenska þjóðin er yngri en þær þjóðir sem við berum okkur saman við.

Í þriðja lagi er hlutfall opinberra útgjalda mjög hátt í heildarútgjöldum til heilbrigðismála hér á landi þannig að beinn kostnaður heimilanna er afar lítill hér, þvert á það sem sumir halda fram. (Gripið fram í.)

Í fjórða lagi. Ég biðst afsökunar. (Gripið fram í: Hefur aukist.) Hefur aukist sáralítið. Það er sannleikurinn í málinu. Þeir sem vilja kynna sér það geta gert það. Þjóðhagsstofnun er nýbúin að gefa út yfirlit yfir það og ég vona að menn fari nú ekki að fara rangt með þetta eins og stundum áður þegar þeir fara með tölur.

Í fjórða lagi er athyglisvert þegar þróunin í nágrannalöndum er skoðuð, að þá kemur í ljós að legurúmum á sjúkrahúsum þar hefur fækkað mun meira en hér á landi á undanförnum árum. Viðfangsefni dagsins í dag hlýtur að vera hagræðing á sjúkrahúsunum og fækka legurúmum í stað þess að efna sífellt til tímabundinna lokana. Það hafa nefnilega orðið heilmiklar tækninýjungar og hagræðing í þessum málum á undanförnum árum, miklar framfarir í skurðlækningum og í svæfingatækni. Sífellt stærri aðgerðir flytjast á skurðstofur utan sjúkrahúsa. Við höfum betri lyf. Við höfum meiri sérhæfingu og meiri menntun. Við stundum núna kögunaraðgerðir í stað gömlu, stóru skurðaðgerðanna. Frá 1980 til 1995 hefur starfandi sérfræðingum fjölgað úr 200 í 395 hér á landi. Á árinu 1994 voru komur til sérfræðinga rúmlega 397.000 og hafði fjölgað um 6% frá árinu áður. Þessi þróun hefur orðið til þess að samkvæmt upplýsingum landlæknisembættisins eru nálægt 50% skurðaðgerða nú framkvæmdar utan spítala eða á göngu- og dagdeildum.

Ef við lítum síðan á spítalana kemur í ljós að handlækningadeild Landspítalans hefur afkastað 10--15% meiru sl. þrjú ár en fyrir fjórum árum. Á sama tíma og sjúklingum hefur fjölgað um 11% hefur legudögum á Landspítalanum fækkað um 2%. Þetta eru dæmi um aukin afköst og dæmi um eðlisbreytingu á spítölum sem mér finnst menn allt of sjaldan átta sig á. Stórum aðgerðum hefur fjölgað. Við vitum um hjartaaðgerðir og hryggspengingaraðgerðir sem hæstv. heilbrrh. nefndi í sinni ræðu. Það er óvefengjanlegt að því miður hefur okkur ekki tekist á undanförnum árum að fylgja eftir þeirri alþjóðlegu þróun að draga úr legurými á spítölum en auka þess í stað rými annars konar þjónustu. Það er þetta sem menn þurfa að einhenda sér í á næstunni. Ég vil hvetja menn til þess, hvar í flokki sem þeir standa, að líta á hin raunverulegu úrlausnarefni en spyrja sig ekki ávallt að því af hverju fjárveitingin sé ekki nákvæmlega sú sama í ár og hún var í fyrra.

Því er nokkuð haldið fram að í núverandi ríkisstjórn ráði fjármálaráðherrann öllu í þessu málum. Ég þakka nú það þegar menn halda að ég sé svo voldugur að ég stjórni öllu sem snýr að opinberum rekstri. Sannleikurinn er sá að það er farið nákvæmlega eins að í þessari ríkisstjórn og í fyrri ríkisstjórn. Við notum rammafjárlög. Ríkisstjórn tekur heildarákvarðanir en innan ramma ráðuneytanna ber hver ráðherra ábyrgð á sínum tillögum og tekur ákvarðanir um það sem hann vill gera. En auðvitað verður þingmeirihluti að vera fyrir hendi. Það var athyglisvert að hlusta á hv. þm. Össur Skarphéðinsson vera að skamma Framsfl. fyrir að fylgja í raun og veru sömu línu og Alþfl. fylgdi í þessum málum. Það var mjög athyglisverð ræða sem ég vona að fjölmiðlar hafi tekið eftir. Ég heyrði að hann nefndi Alþýðublaðið í sinni ræðu og ég sá að ritstjóri Alþýðublaðsins var hér á pöllunum og vonast til þess að hann komi þessu duglega til skila.

[14:45]

Reyndar hefur Alþýðublaðið skrifað um þessi mál í leiðara og verið svo smekklegt að lýsa hæstv. heilbrrh. þannig að hún sé einhvers konar leikbrúða í höndum mínum. Nei, það getur vel verið að þeir hafi ekki viljað kalla Sighvat leikbrúðu á sínum tíma, ég skil það vel, kannski stærðar hans vegna, hann minnir reyndar meira á fíl en leikbrúðu. Sumir hafa reyndar sagt að hann hafi verið eins og fíll í postulínsbúð þegar hann var að fást við heilbrigðismálin. Ég ætla ekki að gera þau orð að mínum heldur undirstrika orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um stefnu hans flokks nú og fyrr.

En hverjir eiga að forgangsraða í heilbrigðismálunum og hvernig á endurmatið að eiga sér stað? Hver er þáttur stjórnmálamannanna og hver er þáttur fagfólksins? Ég bendi á að það er yfirleitt fagfólkið sem hefur komið fram með tillögur um nýjan og aukinn rekstur og við hljótum að gera kröfur til þess að fagfólkið komi einnig með ábendingar um það hvar eigi að spara þegar að því kemur. Ákvörðunin hlýtur hins vegar alltaf að vera stjórnmálamannanna. En ég vara líka við því þegar gripið er til þess ráðs að reyna að beina sparnaðinum að því sem er óvinsælast hverju sinni. Ég minni á orð formanns Alþb., Margrétar Frímannsdóttur, fyrir síðustu kosningar þegar hún undirstrikaði jafnrækilega og hún gerði þá í sjónvarpi að þegar verið væri að biðja spítalana um að spara þá kæmu þeir yfirleitt með þær tillögur sem þeir héldu að almenningur væri mest á móti. Þar hitti formaður Alþb. naglann á höfuðið því að spila póker við ríkisvaldið með þeim hætti er auðvitað til stórkostlegrar skammar.

Viðfangsefni og forgangsröðun á næstunni er að mínu mati að taka ákvörðun um það hvað á að vera rekið á spítölum og hvað í einkarekstri. Við þurfum að breyta almennum sjúkrarúmum í öldrunardeildir. (Gripið fram í.) Það skiptir ekki máli hver rekur --- oft er betra að einstaklingar reki þó hið opinbera greiði. Þetta veit ég að hv. þm. Svavar Gestsson skilur ekki og það þýðir ekki fyrir mig að reyna að skýra það út fyrir honum hér í stuttri ræðu. Við þurfum að leita nýrra og ódýrari úrræða fyrir gamla fólkið og við þurfum líka að endurskipuleggja fjárfestingarstefnuna. (Gripið fram í.) Er hægt að fá frið fyrir hv. þm.? Hann á eitthvað erfitt í sæti sínu. (SvG: Aldursmörkin í Heimdalli.)

(Forseti (RA): Ég bið hv. þm. að veita hæstv. ráðherra gott hljóð.)

Þetta hljómaði mjög vel, virðulegi forseti.

Það þarf að endurskipuleggja fjárfestingarstefnuna og ég tek undir það sem hæstv. ráðherra heilbrigðismála hefur sagt um þau efni. Það er bráðnauðsynlegt og reyndar kom það fram hjá hv. málshefjanda sem flutti hér mjög málefnalega ræðu í upphafi. Við þurfum að athuga hvort breyta eigi samningum við lækna, hvort sjúkrahúsalæknar eigi að vinna utan sjúkrahúsa eða ekki og við þurfum að átta okkur á því hvar við viljum samvinnu sjúkrahúsa og hvar samkeppni og eins hitt hvar við viljum að valfrelsi sjúklinga sé virt.

Við þurfum í öðru lagi að íhuga hvort við eigum að vekja upp gömlu sjúkrasamlagshugmyndina sem menn voru jafnvel að gæla við í umræðunum áðan og hugsa um kaupendur og seljendur í því sambandi eins og víða er farið að gera í okkar nágrannalöndum.

Loks þarf auðvitað Alþingi Íslendinga að taka afstöðu til þess að hve miklu leyti kostnaðarhlutdeild á að koma til hjá þeim sem þiggja þjónustuna og hvernig við getum ýtt undir kostnaðarvitund, bæði þeirra sem þiggja hana og veita. Ég tek undir það sem hæstv. heilbrrh. sagði að það þarf að íhuga mjög gaumgæfilega hvort ekki eigi að samræma gjöld innan og utan sjúkrahúsa. Það eru engin rök til þess að rannsóknir, lyf og sérfræðikostnaður sé ekki greiddur inni á sjúkrahúsunum en greiddur að nokkru utan sjúkrahúsa. Við þurfum einnig að svara þeirri siðferðilegu spurningu hvort ekki sé mögulegt að leyfa fólki að greiða fyrir þjónustu í stærri stíl en gert er, sérstaklega þegar fólk óskar eftir því að fá lækningar sem hægt er að framkvæma en þjóðin hefur ekki efni á. Í því sambandi þarf auðvitað að sjá fyrir því að aukin kostnaðarhlutdeild þeirra sem njóta þjónustunnar í heilbrigðismálunum, að þeir greiði með þeim hætti að fjármagnið sé eftir í heilbrigðismálunum til þess að halda úti viðunandi þjónustu við alla.

Þetta eru þau atriði sem víðast hvar er verið að ræða og mér finnst eðlilegt, virðulegi forseti, að Alþingi Íslendinga móti sér stefnu í þessum málum. Ég tek undir með hæstv. heilbrrh. að það er eðlilegt að stjórnarandstaðan komi að slíkri stefnumótun. Við erum að tala um 50 milljarða kr., hér um bil helminginn af fjárlögum íslenska ríkisins, og það er nauðsynlegt að það ríki nokkuð góður friður um þá stefnu sem við ætlum að fylgja í þessum málum. Við verðum að hafa það í huga að það er nauðsynlegt fyrir okkur að læra af öðrum þjóðum og við verðum að muna að hér á landi búa aðeins 260 þús. manns. Við skulum einnig vera minnug þess að við rekum ríkið með halla nú, við söfnum skuldum sem Íslendingar framtíðarinnar þurfa að greiða og við verðum að taka tillit til þess að aldurssamsetning þjóðarinnar er með þeim hætti að við getum gert ráð fyrir að að óbreyttu aukist útgjöldin á næstu árum og áratugum til þessa málaflokks. Þess vegna er það skylda hvers einasta hugsandi manns, ekki síst hv. alþingismanna, þegar þeir taka þátt í þessum umræðum, að segja frá því hvernig þeir ætla að spara í þessum málaflokki. Það er spurningin sem við stöndum frammi fyrir, það er spurningin sem við verðum að svara hvert og eitt í þessari umræðu.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, segja: Stefnumótun í þessum málaflokki er ekki átaksverkefni, heldur stöðug vinna. Við verðum sífellt að reyna að finna bestu lausnirnar. Við skulum ekki falla í þá gryfju að halda að lausnin sé sú að biðja alltaf um nákvæmlega sama fjármagn til nákvæmlega sömu verkefnanna ár eftir ár. Þetta verður að byggjast á annarri hugsun. Það sem ríkisstjórnir hafa gert að undanförnu er ekki að skera niður í heilbrigðisþjónustunni eins og stundum er haldið fram heldur fyrst og fremst að koma í veg fyrir útgjaldaaukningu í þessum viðkvæma málaflokki.