Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 15:20:34 (2804)

1996-02-08 15:20:34# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[15:20]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það þarf að standa vörð um velferðarkerfið okkar. Það er heldur betur þjarmað að því núna, meira en oft áður. Það bitnar ekki á öllum, það bitnar á þeim sem eru veikir, þeim sem eru gamlir, þeim sem eru fatlaðir og þeim sem eru fátækir. Þeir sem eru efnaðir, frískir, ungir og hafa atvinnu lenda ekki í þessu. Það er bjart fram undan hjá þeim, að sögn ríkisstjórnarinnar.

Mér hefur stundum virst sem kjörorð heilbrrn. væri: Hvers vegna hafa hlutina einfalda ef hægt er að hafa þá flókna? Það var a.m.k. gangurinn á síðasta kjörtímabili og það gagnrýndi Framsfl. á þingi með réttu. Enn nú tekur ekki betra við. Kjörorðið hjá heilbrrn. þessa dagana virðist vera: Ef hægt er að hafa hlutina flókna, gerum við þá enn flóknari. Það er nákvæmlega það sem hefur verið að gerast í þessu ráðuneyti. Og maður veltir því fyrir sér hver tilgangurinn sé með svona vinnubrögðum. Það hefur oft hvarflað að mér að ástæðan fyrir þessu væri sú að menn gætu þá síður nýtt sér þann rétt sem þeir eiga í kerfinu. Það er erfiðara að fylgjast með því hvaða rétt maður á. Og þetta á svo sannarlega við í almannatryggingakerfinu. Þar er vissulega skorið því viðskiptavinir Tryggingastofnunar virðast liggja best við höggi að mati ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar.

Ríkisstjórnin undir forustu Davíðs Oddssonar hefur markvisst vegið að lítilmagnanum með því að auka hlut hans í kostnaði við heilbrigðisþjónustuna. Ekki aðeins nú í samstarfi við Framsfl., heldur einnig á síðasta kjörtímabili. Kostnaðurinn er að færast til eins og kom fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Hann er að færast yfir á sjúklinginn og þaðan jafnvel yfir á sveitarfélögin. Talandi dæmi um það hvernig kostnaðinum er velt yfir á almenning og áfram á sveitarfélögin eru nýjustu tölur frá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð.

Árið 1992 tók hlutur sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni að aukast. Ef við skoðum tölur frá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar frá 1992 og fram til síðustu áramóta hefur fjárhagsaðstoðarbeiðnum fjölgað ógnvænlega. Frá 1992 hefur þeim sem hafa fengið fjárhagsaðstoð frá Félagsmálastofnun Reykjavíkur fjölgað um 61% á sama tíma og hlutur sjúklinga var aukinn í heilbrigðiskerfinu. 61% fleiri sækja um aðstoð til Reykjavíkurborgar frá 1992 til síðustu áramóta. Þetta ætti að hringja einhverjum öryggisbjöllum, a.m.k. hjá flokki sem þykist vilja standa vörð um velferðarkerfið. Aukningin er 20% á fjárhagsaðstoðarbeiðnum það sem af er kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar. Og enn þykjast menn geta höggvið í sama knérunn. Enn eru hækkuð gjöldin hjá sjúklingum. Greiðslur úr velferðarkerfinu eru lækkaðar, reglur eru þrengdar og stuðningur skertur. Og mig langar til að fara í stuttu máli yfir það hvernig vegið er að sjúkum og öldruðum hjá þessari ríkisstjórn.

Nú greiða sjúklingar meira fyrir læknisþjónustu og heilsugæslu, einnig hjá sérfræðingum og fyrir röntgenþjónustu. Aldraðir þurfa að greiða fullt verð til sjötugs nema þeir framvísi vottorði um lágar árstekjur eða örorku. Hjá þessum hópi fólks sem áður voru ellilífeyrisþegar og nutu þess í kerfinu er hámarkið hækkað í 12 þús. kr. en var 3 þús. kr., áður en þeir fengu afsláttarkort. Þetta eru hámarksgreiðslur á fullu verði á ári.

Það er verið að auka hlut sjúklinga í lyfjakostnaði. Það er verið að hækka lágmarksgreiðslurnar fyrir lyfin. Endurgreiðslureglur Sighvats vegna læknis- og lyfjakostnaðar sem eru með flóknari fyrirbærum í kerfinu og Framsfl. og hv. þáv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir gagnrýndi réttilega eru nú gerðar enn flóknari. Og það sem verra er, það er verið að taka út úr þessum endurgreiðslureglum fyrir háan kostnað fyrir lyf og læknisþjónustu endurgreiðslu fyrir lyf sem menn greiða fullu verði. Ég vil leiðrétta hæstv. heilbrrh. Hún sagði að það væri ekki rétt er hv. formaður heilbr.- og trn., sagði hér í ræðustól fyrr í dag. Það er rétt að hæstv. fyrrv. ráðherra Sighvatur Björgvinsson kom á fullri greiðslu fyrir fúkalyf og önnur sýklalyf, en hann var þó með þessi lyf inni í endurgreiðslunum ef kostnaður varð mjög hár. Þetta er lymskulega búið að taka út úr reglunum með pínulítilli setningu í reglugerðini sem segir: C-liður fellur brott. Það þýðir að fólk sem borgar fullt fyrir þessi lyf, borgar þau fullu verði, getur ekki talið þau með þótt það beri háan kostnað vegna heilbrigðisþjónustunnar. Öllum þessum auknu útgjöldum er síðan komið yfir á sjúklingana um leið og kjör þeirra eru skert. Greiðslurnar eru lækkaðar mest hjá þeim sem eiga um sárt að binda, þeim sem eru ósjálfbjarga, þeim sem þurfa umönnun. Umönnunaruppbót öryrkja og aldraðra verður skert á árinu og það er byrjað að skerða hana. En það er ekki gert um leið hjá öllum. Það er verið að gera þetta smátt og smátt á þessu ári. Sama gildir um lyfjauppbótina fyrir þá sem bera lyfjakostnað. Nú á þetta fólk að komast af í veikindum sínum fyrir mun lægri upphæð til framfærslu úr tryggingakerfinu. Grunnlífeyrir ellilífeyrisþega og öryrkja er skertur um 30% nú eftir áramótin í stað 25% áður og fjármagnstekjur munu skerða lífeyri. Ég er ekki að gagnrýna að tekið verði tillit til fjármagnstekna. En eitt er alvarlegt í þessu tilliti og ég er ekki farin að sjá neitt frá ráðherranum til að koma í veg fyrir það. Þar á ég við þá sem hafa fengið eingreiðslur vegna slysa. Það er mjög alvarlegt ef þær eiga að skerða annan lífeyrisrétt þessa fólks sem hefur misst starfsgetu og heilsu í slysum, bótaskyldum slysum. Ég hef því miður ekki séð neitt frá ráðherranum um þetta. Þetta mun reyndar ekki koma til framkvæmda fyrr en í september en það verður tekið tillit til tekna síðasta árs. Ég vona að hæstv. ráðherra taki á þessum alvarlega hlut.

Síðan er það atlagan að hreyfihömluðum, þeim sem verða að treysta á bifreið til að komast leiðar sinnar. Lægri styrkjunum til þessa fólks er fækkað um tæplega helming, úr 600 í 335 styrki. Þetta er sérstaklega alvarlegt vegna þess að þessi hópur er yfirleitt lágtekjuhópur og ferðastuðningur eða greiðslur úr tryggingakerfinu til þessa fólks vegna þess að það þarf að ferðast milli staða er bundinn við að það eigi bíl. Þeir fá ekki neinar greiðslur nema þeir eigi bifreið. Leigubílakostnaður er ekki greiddur. Það er enginn kostnaður greiddur fyrir þetta fólk úr tryggingakerfinu nema það eigi bifreið og flest af þessu fólki getur ekki eignast bifreið nema með svona stuðningi. Reynsla okkar í Tryggingastofnun undanfarin ár hefur verið að mun fleiri hafa sótt um þessa styrki en hafa verið til úthlutunar, yfirleitt helmingi fleiri, og einnig er verið að þrengja þessar úthlutunarreglur.

[15:30]

Hv. þm. í stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili, Ingibjörg Pálmadóttir, gagnrýndi þáv. heilbrrh. vegna mikillar skírteinaútgáfu sem var réttmæt gagnrýni. En hvað er að gerast nú hjá hæstv. ráðherra þegar hún er komin í aðstöðu til að hafa annan hátt á? 8.000 lyfjaskírteini hafa verið gefin út frá því að ráðherrann breytti lyfjareglunum í haust. Það lítur út fyrir að 3.000--4.000 skírteini verði gefin út á næstunni vegna undanþágu þeirra sem eru lífeyrisþegar undir sjötugu sem uppfylla skilyrði sem sett eru um lægri greiðslu fyrir læknisþjónustu. Það lítur því út fyrir að a.m.k. 12.000 skírteini verði gefin út í Tryggingastofnun á næstunni eða er þegar búið að gera eftir óskum frá ráðherranum. Mér finnst þess vegna vera komin ástæða til þess að kíkja aðeins á þessa hluti.

Það er makalaust hvað Framsfl. lætur yfir sig ganga í þessari ríkisstjórn. Framsókn er att á foraðið eins og Alþfl. á síðasta kjörtímabili. Framsóknarmennirnir eru settir í óhæfuverkin, árásirnar á kjör aldraðra, sjúkra og fatlaðra. Þeir eru settir í aðalniðurskurðinn. Framsóknarmenn vita sjálfir að þessi sparnaður mun skila litlum árangri því að kostnaðurinn kemur annars staðar í kerfinu. Meðan þeir eru settir í þessi verk sitja sjálfstæðisráðherrarnir á friðarstóli, sérstaklega verkstjóri ríkisstjórnarinnar, Davíð Oddsson. Ekki er hægt annað en að dást að stjórnkænsku þessara manna. Síðan er verið að setja einu konuna í ráðherrastóli, hjúkrunarfræðinginn sjálfan, í það að ráðast á lítilmagnann á þennan lúalega hátt. Það er reyndar furðulegt að hæstv. ráðherra láti hafa sig í þetta.

Hér situr á þingi fyrrv. ráðherra sem spyrnti á móti, kona sem barðist fyrir skjólstæðinga ráðuneytis síns en lét ekki etja sér gegn þeim. Hæstv. ráðherra Ingibjörg Pálmadóttir ætti að taka hana sér til fyrirmyndar, hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún stóð vörð um kjör fatlaðra og beitti sér fyrir réttindabót þeim til handa. Hún barðist fyrir lítilmagnann. Ég hvet hæstv. ráðherra til að snúa við blaðinu og standa vörð um hag lítilmagnans, hag þeirra sjúku, hag þeirra öldruðu og hag þeirra fötluðu sem þurfa að treysta á það velferðarkerfi sem hæstv. ráðherra er æðstráðandi í. Snúi hæstv. ráðherra ekki vörn í sókn gagnvart umbjóðendum sínum, sem þarfnast velferðarkerfisins, blasir neyðarástand við.