Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 15:41:33 (2809)

1996-02-08 15:41:33# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[15:41]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að munnhöggvast við hv. þm., það er óþarfi. En varðandi bílastyrkina eru það ekki einungis öryrkjar sem hafa fengið þessa bílastyrki og það er útúrsnúningur hjá hv. þm. þegar hún talar svo að það sé fólk, sem er í hjólastólum, sem muni ekki fá þessa styrki. Það er bara einfaldlega ekki rétt. Það er margt fullorðið fólk, sem hefur ágætar tekjur, sem hefur fengið þessa styrki í gegnum tíðina. Við erum einmitt að tala um það fólk sem getur keypt sér farartæki án þess að fá þennan styrk, er ekki mikið fatlað en ég endurtek að við breytum ekki gagnvart þeim sem eru mest fatlaðir. Þeir fá áfram styrk. Reglugerðirnar verða allar endurskoðaðar aftur um áramót og þá verður skoðað hverjir hafa beðið um og ekki fengið. En það er rétt sem hefur komið fram hjá hv. þm. að fjöldi manna hefur beðið um þessa styrki og ekki fengið enda hafa reglurnar verið fremur rúmar hingað til og ég held að þingmaðurinn hljóti að vera sammála mér um það.