Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 16:13:27 (2820)

1996-02-08 16:13:27# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[16:13]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér finnst málsvörn Framsfl. í þessu máli, reyndar Sjálfstfl. að nokkru leyti líka en einkum Framsfl. vegna þess að ég geri aðeins meiri kröfur til hans, byggjast á miklum misskilningi. Það er enginn ágreiningur um það á Alþingi að það þurfi að ná niður hallanum á ríkissjóði, það er enginn ágreiningur um það.

Við síðustu meðferð fjárlaga flutti stjórnarandstaðan m.a. sameiginlegar tillögur um að minnka enn meira hallann á ríkissjóði. Það er enginn ágreiningur um það mál. Um það snýst deilan ekki og það þýðir ekki fyrir Framsfl. að ætla sér að reyna að hlaupa í það skjól.

Veruleikinn er hins vegar sá og það er það alvarlega í málinu að Framsfl. hefur á undrastuttum tíma látið íhaldið pakka sér saman. Menn þurfa að gera sér grein fyrir því að þeir sem í rauninni ráða eru víðs fjarri þeirri umræðu sem hér fer fram. Það er Sjálfstfl. Veruleikinn er sá að hann hefur verið með kröfur um að draga úr samneyslu. Sjálfstfl. hefur verið með kröfur um að ríkið dragi úr umsvifum sínum. Sjálfstfl. hefur verið með kröfur um það að fyrirtækin auki gróða sinn. Samstarfsflokkar Sjálfstfl., fyrst Alþfl. og núna Framsfl., hafa á undrastuttum tíma orðið eins og vax í greipum íhaldsins. Það er hinn alvarlegi veruleiki og mér finnst að gagnrýnin þurfi þess vegna að beinast að aumingjaskap og ósannindum þessara flokka og þá sérstaklega Framsfl. En það verður auðvitað að ráðast á Sjálfstfl. því það er fyrst og fremst hann sem er höfundur að vanda heilbrigðiskerfisins á Íslandi ásamt þessum veikgeðja miðjuflokkum sem með honum hafa verið í ríkisstjórn núna um nokkurt skeið.