Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 16:37:06 (2825)

1996-02-08 16:37:06# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), StB
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[16:37]

Sturla Böðvarsson:

Herra forseti. Umræður um heilbrigðismál hafa verið mjög fyrirferðarmiklar að undanförnu. Vissulega eru mörg tilefni til þess að ræða stöðu einstakra sjúkrastofnana, ekki síst í tengslum við afgreiðslu fjárlaga sem eru ekki á dagskrá að þessu sinni. Deilur um skiptingu fjármuna og vöntun vegna ýtrustu óska og krafna tiltekinna stofnana setja mikinn svip á alla umræðu um heilbrigðismálin og talað er um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu og mikinn vanda. Allt of oft er málum snúið á þann veg að krafa er gerð til þess að auka útgjöld án þess að afstaða sé tekin til þess hvaða fjármuni skuli taka til þess að verða við óskum um aukin útgjöld. Það er nauðsynlegt fyrir þingmenn að gera sér grein fyrir staðreyndum um útgjöld til heilbrigðismála og þróun þeirra.

Samkvæmt tölum frá Þjóðhagsstofnun hafa útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála haldist nokkuð stöðug síðustu árin sem hlutfall af landsframleiðslu sem er sá mælikvarði sem er einkum notaður til samanburðar. Hlutfallið hefur verið tæp 7% en til samanburðar var hann árið 1980 5,5% og árið 1970 3,2%. Af þessu má sjá að geysilega miklar breytingar hafa orðið í útgjöldum okkar til heilbrigðismála.

Útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála hafa ekki verið skorin niður svo sem haldið er fram sem sést á þeim tölum sem ég nefni hér en árið 1990 voru útgjöld til heilbrigðismála 30,6 milljarðar og árið 1995 31,3 milljarðar. Af þessum tölum sést að ekki hefur verið um að ræða niðurskurð heldur liggur vandi okkar í meiri og kostnaðarsamari þjónustu og meiri eftirspurn. Við því þarf þjóðfélagið að bregðast með þeim hætti sem fært er og eðlilegt getur talist. Það gerum við því með því að breyta forgangsröðun okkar og taka afstöðu til þess hvort auka eigi hlutdeild sjúklinga í kostnaði sem lítillega hefur verið rætt um í dag.

Mér finnst að við þurfum að efla umræðu um grundvallarsjónarmið heilbrigðisþjónustunnar, svo sem hvort eðlilegt sé að öll þjónusta innan sjúkrahúsa sé veitt án endurgjalds, hvort auka eigi forvarnir á kostnað hátæknilækninga eða hvort auka beri frumheilsugæslu með því að fjölga heilsugæslulæknum á tilteknum svæðum, t.d. á höfuðborgarsvæðinu, lækka komugjöld á heilsugæslustöðvar en hækka þess í stað hlutdeild sjúklinga sem njóta þjónustu sérfræðinga. Allt eru þetta að sjálfsögðu umdeild atriði en atriði sem við þurfum að taka afstöðu til og ræða opinskátt til þess að reyna að finna leiðir og lausnir.

Þá væri ekki síður hægt að ræða hvort nýta eigi með öðrum hætti takmarkaða fjármuni, hvort auka eigi greiðslur sjúkratrygginga en draga þess í stað úr greiðslum lífeyristrygginga. Árið 1994 voru greiddir 10,2 milljarðar nettó úr sjúkratryggingum þar með vistgjöldum stofnana og lyfjakostnaður. Sama ár voru greiddar 16,2 milljarðar í lífeyrisbætur og höfðu hækkað um 30% frá árinu 1990. Ef samkomulag næðist um að lækka einhverja þætti lífeyristrygginga, sem er auðvitað umdeilt, mætti bæta verulega úr stöðu sjúkrahúsanna með því að lækka greiðslur lífeyristrygginga. Slík tímabundin aðgerð gæti leitt til þess að eyða mætti biðlistum sjúkrahúsanna án þess að kjör bótaþega röskuðust að marki með aukinni tekjutengingu. Ég ítreka að ég er ekki að gera slíka tillögu heldur vekja athygli á því sem ég tel að þurfi að ræða betur á Alþingi, bæði af stjórnarliði sem stjórnarandstæðingum í stað þess að leggjast í skotgrafir til sóknar og varnar þeim sem harðast gagnrýna núverandi skiptingu fjármuna ríkisins. En slíkar tillögur hljóta fyrst og fremst að koma úr heilbr.- og trn. þar sem hin pólitíska stefnumótun á að fara fram undir forustu ráðherra heilbrigðismála.

Okkur hættir ærið oft til þess að fara yfir bæjarlækinn til þess að sækja vatnið og leggja mikla vinnu í að breyta skipulagi kerfisins. Þingmenn hafa heyrt ýmsar tillögur sem að mínu mati bera merki patentlausna og ég tel að séu ekki líklegar til þess að ganga upp eða valda straumhvörfum í heilbrigðismálum. Hv. formaður heilbrn. nefndi m.a. í dag í umræðunni hvaða hugmyndir hann hefur í þeim efnum. Þar er nefnt að fjármagn skuli fylgja sjúklingum og færa skuli valdið til heilbrigðisstjórna í héruðum. Með því megi bæta allan vanda heilbrigðiskerfisins. Slíkar lausnir við aðstæður okkar leysa ekki þann mikla vanda sem felst í því að fjármuni vantar en ekki endilega nýtt og breytt skipulag. Okkur skortir tillögur um forgangsröðun en ekki misskilið vald manna í héraði sem hafa ekki úr öðru að moða en því sem við höfum nú þegar nema við skiptum fjármununum með öðrum hætti en nú er gert og um það þarf vissulega að ná víðtæku samkomulagi.

Virðulegi forseti. Eins og við er að búast fara fram umræður og samanburður milli stofnana. Forsvarsmenn þeirra deilda stóru sjúkrahúsanna, sem mest þrengir að, hafa stundum lagst í þá vörnina að vekja tortryggni og úlfúð í garð sjúkrahúsa á landsbyggðinni. Heyrst hefur einnig líkt og frá Kvikmyndasjóði að landsbyggðaþingmenn ráði ferð í fjárln. og þeir tryggi ekki hagsmuni stóru sjúkrahúsanna. Það er mjög ósanngjörn gagnrýni og á sér ekki stoð í veruleikanum. Til þess að skýra samanburðinn vil ég nefna nokkrar tölur og hrekja þessar fullyrðingar sem sýna stöðu mála.

Fjárlög þessa árs gera ráð fyrir fjárveitingu til sjúkrahúsa að upphæð kr. 15,8 milljarðar kr. Af þeirri fjárhæð renna til Ríkisspítalanna, Sjúkrahúss Reykjavíkur, Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, Sjúkrahússins á Akranesi og sjúkrahúsanna í Hafnarfirði samtals 11,2 milljarðar kr. eða 85% fjárveitinganna til sjúkrahúsanna. Þessi sjúkrahús nefni ég hér saman vegna þess að þetta eru þau sjúkrahús sem tengjast helst hátæknilækningum og sinna landinu öllu meira og minna. Til allra litlu spítalanna á landsbyggðinni, sem sinna aðallega nauðsynlegri bráðaþjónustu og langlegusjúklingum svæðanna, renna 2,2 milljarðar eða 15% kostnaðar.

Á tímabilinu 1990--1996 hafa framlög til stóru sjúkrahúsanna hækkað um 31% en þeirra litlu sem ég nefndi fyrr um 27% og framlög til hjúkrunarheimila hafa hækkað um 400% á sama tímabili en hjúkrunarheimilin hafa ekki síst létt á álagi stóru sjúkrahúsanna sem áður þurftu einnig að veita þá þjónustu eins og er reyndar einnig gert í dag. Þessar staðreyndir er nauðsynlegt að hafa í huga þegar málefni sjúkrahúsanna eru metin og velt fyrir sér hvaða leiðir eru til staðar.

[16:45]

Vandi stóru sjúkrahúsanna hefur verið tíundaður í þessari umræðu. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim vanda, því fer fjarri. Mér er mjög vel ljóst að hann er verulegur. Nú þegar lokið verður við að stokka upp spilin í Sjúkrahúsi Reykjavíkur og Ríkisspítölunum vegna sameiningarinnar verður að meta aðstæður að nýju í ljósi fjárlaga og þeirra tillagna sem hinir vísustu menn sjúkrahúsanna leggja fyrir ráðherra. Við verðum að minnast þess að verið er að fjalla um andlega og líkamlega heilsu þúsunda sem njóta þekkingar og færni starfsmanna sjúkrastofnana vítt og breitt um landið.

Herra forseti. Við afgreiðslu fjárlaga er tekist á um þær tillögur sem frv. til fjárlaga felur í sér. Ríkisstjórn setur og skiptir römmum fjárlaganna milli ráðuneyta og það er síðan viðkomandi ráðherra sem stillir upp innan síns ráðuneytis. Loks er það fjárln. sem leggur mat á tillögur og leitar samkomulags innan þingsins um breytingar á framlögum til einstakra þátta. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga. Vissulega er það svo að margar breytingar eru gerðar á frv. til fjárlaga af Alþingi eftir rækilega skoðun í fjárln. og eftir tillögum úr ráðuneytum og eftir viðtöl við þá forsvarsmenn stofnana sem ganga fyrir fjárln. Engu að síður er það sem fjárlög fela í sér á ábyrgð okkar stjórnarliðanna og við verðum að standa við bakið á hæstv. heilbrrh. í því erfiða verkefni að halda fjárlögin og vinna að úrbótum og skynsamlegri endurskipulagningu á heilbrigðiskerfinu og bregðast við þeim með þeim hætti sem efni standa til.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, stjórnarflokkanna, segir m.a. um meginmarkmið ríkisstjórnarinnar: ,,Að ná jafnvægi í ríkisfjármálum á kjörtímabilinu. Áhersla verður lögð á ráðdeild og að treysta stoðir velferðarinnar. Í þeim tilgangi er brýnt að stöðva sjálfvirkni í útgjöldum ríkissjóðs. Unnið verður að kerfisbreytingum í þeim tilgangi að nýta sem best fjármuni til heilbrigðis- og menntamála, einstakra atvinnugreina og opinberra framkvæmda.`` Þessi markmið nást ekki á fyrsta ári stjórnarsamstarfsins. Stjórnarandstaðan hér á Alþingi ekki síður en stjórnendur sjúkrastofnana verða að gefa okkur tóm til þess að ná vopnum okkar eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði svo hnyttilega í dag í þeirri viðleitni að bæta heilbrigðiskerfið. Það er okkar markmið. Ég er þess fullviss að í það minnsta hv. þingmenn Alþfl. hafa skilning á því verkefni svo mjög sem heilbrigðismálin mæddu á þeim á síðasta kjörtímabili.

Virðulegi forseti. Ég tel að þessi umræða í dag hafi verið mjög gagnleg og geti nýst okkur í þinginu og stjórninni vel til þess að vinna það mikilvæga verkefni sem er að takast á við og endurskipuleggja og bæta heilbrigðisþjónustuna í landinu.