Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 16:48:49 (2826)

1996-02-08 16:48:49# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[16:48]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sturlu Böðvarssyni fyrir málefnalega ræðu. Ég vil í upphafi taka það skýrt fram vegna þess að hann nefndi þær hugmyndir sem ég reifaði m.a. í minni ræðu í dag til lausnar á ákveðnum fjárhagsvanda innan kerfisins, að þegar ég var að tala um að það væri nauðsynlegt að fjármagn fylgdi sjúklingi, þá var ég að miða við það að hugmyndir um svæðisbundnar heilbrigðisstjórnir yrðu að veruleika. Svo er ekki orðið enn þá. Ég er þeirrar skoðunar að það sé alveg tómt mál að halda að það dæmi gangi upp nema við tökum upp kerfi þar sem fjármagn fylgir sjúklingi.

Mér þótti hins vegar hv. þm. vera nokkuð myrkur í máli þegar hann var að tala um að nú væri búið að ljúka sameiningu tveggja spítala í Reykjavík og Sjúkrahús Reykjavíkur sett á stofn og nú þyrftum við að meta stöðuna upp á nýtt. Hann gat þess sérstaklega að hafa þá til hliðsjónar andlega og líkamlega velferð starfsmanna og sjúklinga. Hvað á hv. þm. við? Á hann e.t.v. á það að nú þegar það blasir við að nokkur hundruð milljónir vantar til þess að hægt sé að halda uppi eðlilegum rekstri, þá kunni að koma til greina af hálfu stjórnarliðsins að bæta við fjármagni til rekstursins? Ég fagna því að svo er. En mér fannst hann ekki tala mjög skýrt.

Ég saknaði þess líka að hann reifaði ekki betur sínar eigin hugmyndir um það hvernig beri að fjármagna heilbrigðiskerfið, vegna þess að hann hefur sett þær fram með skýrum hætti í greinum. Hann hefur t.d. sagt það fullum fetum, einn stjórnarþingmanna, að það eigi að einkavæða heilsugæslustöðvarnar. Hann gerði það síðast í Morgunblaðinu í gær. Hann talaði líka um að við þyrftum að velta því fyrir okkur að færa aukinn kostnað á sjúklingana. Nú er það svo að ég tel að allar þessar hugmyndir séu þess virði að ræða þær, m.a. vegna þess að einkavæðingin er smátt og smátt að verða að veruleika innan heilbrigðiskerfisins. Þess vegna finnst mér tímabært að ræða um það. Mig langar til þess að spyrja hann: Er hann þeirrar skoðunar og vill hann segja það hér að það eigi að einkavæða heilsugæslustöðvarnar? Og ef það á að flytja aukinn kostnað yfir á sjúklinga, þá sakna ég þess að hann nefndi ekkert um öryggisnet. Sumir geta borgað meira en aðrir. Sumir eru aldraðir. Sumir búa við fötlun. En þetta virtist ekki vefjast fyrir hv. þm. Mér finnst að þegar hann ræðir þetta í þessum dúr, þá þurfi hann að geta um afstöðu sína til þessara þátta.