Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 16:54:13 (2828)

1996-02-08 16:54:13# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[16:54]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hér talar ekki venjulegur þingmaður heldur varaformaður fjárln., oddviti Sjálfstfl. í fjárln. Það er afskaplega mikilvægt að undirstrika það að hv. þm. Sturla Böðvarsson skýtur ekki loku fyrir þann möguleika að þegar árinu vindur fram verði fjármagn til Sjúkrahúss Reykjavíkur aukið. Það kemur skýrt fram í máli hans að hann er tilbúinn og þá væntanlega fyrir hönd síns flokks að íhuga þann möguleika að ef skortir á fé til þess að það sé hægt að halda uppi eðlilegri þjónustu, þá verði fjármagn veitt til sjúkrahússins. Ég tek að vísu fram að hann nefndi sérstaklega að það yrði innan ramma núverandi fjárlaga, en þetta er eigi að síður mikilvæg yfirlýsing.

Í annan stað vil ég segja, að ég er hv. þm. sammála um að einkavæðingin er þegar komin á verulegan skrið innan heilbrigðiskerfisins, en e.t.v. enn lengra á öðrum sviðum en við erum að ræða hérna.

Að síðustu vil ég þakka hv. þm. fyrir athyglisverða hugmynd sem hann kom með í sinni fyrstu ræðu, þ.e. að beita markaðslögmálum til að stýra sjúklingum frekar til heilsugæslustöðva en sérfræðinga með því að nota til þess verðlagningu. Mér þótti það athyglisvert.