Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 16:56:54 (2830)

1996-02-08 16:56:54# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[16:56]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 2. þm. Vesturl. fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Það er alltaf gaman að tala við þá sem valdið hafa í málaflokkum eins og þessum því að það er Sjálfstfl. sem ræður þessari ferð meira og minna. Það er skynsamlegra að tala við þann sem beitir rekunni en rekuna sjálfa.

Ég vil einnig þakka honum fyrir einkar málefnalegar umræður og ábendingar úr þessum ræðustól. Ég vil segja það í fyrsta lagi að ég dreg það í efa að þær aðferðir sem notaðar hafa verið í þessari og síðustu ríkisstjórn í sambandi við fjárveitingar til einstakra málaflokka séu skynsamlegar. Ég held að það að festa niður ramma með þeim hætti sem gert hefur verið á undanförnum árum sé ekki heppilegt. Ég held að það verði til þess að ráðherrar annarra ráðuneyta líti ekki á verkefni t.d. heilbrrn. í þessu tilviki sem sitt verkefni þó að það sé þannig að hér eigi að vera um að ræða sameiginlegt pólitískt verkefni allra þingmanna og ráðherra sem standa að viðkomandi ríkisstjórn. Ég dreg það því í efa að rammafjárlagaaðferðin sé skynsamleg.

Og þessar patentlausnir sem hafa verið nefndar, t.d. að peningar fylgi sjúklingum, héraðsskipulag eða eitthvað þess háttar. Ég hef ekki gripið það. Ég sé ekki að peningar fæðist með þeim hætti. Þetta snýst allt um það að reyna að ná aðeins meiri peningum inn í þetta mál. Ég vil svo segja það líka út af orðum hv. þm. að ég er andvígur einkavæðingunni vegna þess að ég er sannfærður um að hún yrði dýrari fyrir þjóðfélagið og bendi þar á reynslu Bandaríkjamanna. Ég held að leiðin til að spara í heilbrigðiskerfinu og ná um leið góðum árangri sé sú að vera með langtímafjárlög. Ég held að við eigum að halda þannig á þessum málum og þessari umræðu að við segjum sem svo hvert við annað: Rífum okkur út úr þeim vanda sem eins árs fjárlög þýða. Tökum upp langtímafjárlög t.d. að því er varðar einstakan málaflokk eins og heilbrigðismálin þó að það væri ekki nema í tilraunaskyni í tvö, þrjú, fjögur ár eða eitthvað því um líkt.