Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 17:04:23 (2834)

1996-02-08 17:04:23# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[17:04]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Við ræðum hér heilbrigðismálin undir heitinu ástandið í heilbrigðismálum og ég hygg það vera réttnefni, ekki vegna þess að ástandið á heilbrigðisstofnunum í þessu landi sé með þeim hætti að við þurfum að hafa enn þá mjög alvarlegar áhyggjur af, heldur er hér um að ræða ástandið á ríkisstjórnarheimilinu þegar kemur að stefnumörkun og verklagi í heilbrigðismálum. Þar er ástand sem ástæða er til að hafa mjög verulegar áhyggjur af. Í þessari um margt ítarlegu og fróðlegu umræðu hefur einmitt komið mjög glögglega í ljós hvernig forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar þegar kemur að málaflokknum heilbrigðismál, þ.e. er annars vegar hæstv. fjmrh. og hins vegar hæstv. heilbrrh., bæði tvö hrekjast úr einu horninu í annað. Ég ætla með nokkrum dæmum að rekja þann málflutning sem m.a. hefur birst í þessari umræðu og ekki síður á síðustu mánuðum eða allt frá þeim tíma að núverandi ríkisstjórn kom til valda.

Nú er það lykilorð og lausnaryrði allra vandamála í okkar heilbrigðiskerfi að forgangsraða og hæstv. heilbrrh. hefur farið mikinn og látið í veðri vaka að nefnd sem nú er að hefja störf muni í bráð og lengd leysa þann fjárhagsvanda sem að steðjar í heilbrigðismálunum með því einu að forgangsraða. Allt hljómar þetta býsna vel. En hvað eru menn í raun og sanni að ræða um þegar forgangsröðun er annars vegar? Við skulum tala hér íslenskt mál og segja hlutina eins og þeir eru. Erum við, hæstv. heilbrrh., að ræða um það, eins og vissulega þekkist, að hætta því að skera upp fólk sem er 70 ára og eldra við hjartasjúkdómum? Erum við að ræða um það þegar við tölum um forgangsröðun að hætta að gera við mjaðmir hjá fólki sem er 70 ára og eldra? Erum við að ræða um forgangsröðun af þessum toga? Við þurfum að glöggva okkur á því og vita fyrir fram á hvaða grundvelli hugtök af þessum toga byggja. Hvað þýðir þessi forgangsröðun? Eða erum við að ræða um forgangsröðun á borð við þá sem hæstv. fjmrh. lýsti hér mjög skelegglega að við ættum að byggja upp ákveðinn lúxushóp sjúklinga, fólk sem vildi kannski og auðvitað þá um leið gæti borgað fyrir sína sjúkrahúsvist, gæti beðið um einkaherbergi, hugsanlega með músík, með einkahjúkrunarkonu? Er það slík forgangsröðun sem við erum að ræða um?

Ég spyr hæstv. heilbrrh. beinnar spurningar og óska eftir að fá skýrt svar: Er það stefna Framsfl. eins og Sjálfstfl., að minnsta kosti fjmrh., að það komi til greina, ég geng nú ekki lengra, að það komi til greina að efnafólk í landinu geti mjakað sér fram fyrir í biðröðum, geti mjakað sér fram fyrir hvað varðar aðbúnað á sjúkrahúsum, á stofnunum gamla fólksins með þeim hætti sem fjmrh. lýsti? Kemur það til álita --- mér dettur ekki í hug að spyrja beinna --- vill hæstv. heilbrrh. og Framsfl. ýta undir mismunun af þessum toga? Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því auðvitað þekkja menn nákvæmlega hvað þetta þýðir.

Hæstv. fjmrh. sagði sem svo, að auðvitað kæmi ekki til álita um leið að lækka framlög samfélagsins til heilbrigðisþjónustu, til allra hinna sem ekki hefðu þessa aukagetu í peningamálunum. En hver er þróunin? Hver hefur þróunin orðið hjá þeim öðrum þjóðum þar sem þannig skref hafa verið stigin? Hún er nefnilega nákvæmlega á þann veg að búið er til tvöfalt heilbrigðiskerfi, annars vegar fyrir þá sem geta borgað og hins vegar fyrir þá sem geta það ekki. Ég segi það fullum fetum, virðulegi forseti, að þannig heilbrigðiskerfi vil ég ekki sjá og ég veit að þannig heilbrigðiskerfi vilja Íslendingar ekki sjá. Er hæstv. heilbrrh. í för með hæstv. fjmrh. þegar þessi mál ber á góma? Þessar hugmyndir eru ekki nýjar af nálinni, virðulegi forseti, þegar hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson er annars vegar. Ég þekki það af eigin raun sem samstarfsmaður hans í síðustu ríkisstjórn. Hann kynnti og veifaði mjög þessum hugmyndum og þótti þær að mörgu leyti sjálfsagðar. Að því leytinu til er hann sjálfum sér samkvæmur. Það var hins vegar algerlega þvert nei af minni hálfu og míns flokks þegar kom að slíkum hugmyndum. Þær ganga hreinlega í berhögg við þá sýn sem við sjáum til þessa samfélags. En getur það verið eitt andartak að Framsfl. hafi horfið svo langt frá uppruna sínum? Ég trúi því ekki en bíð svara.

Virðulegi forseti. Menn verða að vita í raun og sanni hvað hugtökin þýða þegar menn hafa þau með höndum og á vörum. Hæstv. heilbrrh. ræddi það við framlagningu fjárlagafrv., og þar stóð skrifað skýrum stöfum, að leggja ætti á innritunargjöld á spítala, það var nú raunar kallað jöfnunargjald. Ég heyrði það í umræðum áðan að þessi jöfnunargjöld eru einhvers staðar svífandi enn yfir vötnum. Nú er eins og hæstv. fjmrh., yfirheilbrrh., orðaði það verið að jafna aðstöðumun þeirra sem fara í aðgerðir inni á spítölum og hinna sem eru utan spítala. Þannig að þessi jöfnunargjöld eru enn með í farteski. Ég spyr því enn og aftur: Er ekki búið að grafa kirfilega þessar vondu hugmyndir um innritunargjöld á spítala eða megum við eiga von á því að þær birtist hér enn og aftur í hugmyndum hæstv. heilbrrh. og þar með Framsfl.? Ég vona svo sannarlega að það verði ekki. En daginn eftir að þeim hugmyndum var sópað undir gólfteppið snarsnerist Framsfl. og fór allt í einu að ræða um nefskatt og það var endurtekið í þessari umræðu af hæstv. ráðherra. Hóflegur nefskattur heitir það nú. Ég minni á að sá sem hér stendur reifaði hugmyndir fyrir rúmum tveimur árum um hóflegt gjald, viðbótarfjármagn inn í heilbrigðiskerfið, þá undir heitinu heilsukort. Ég man það líka mjög vel, virðulegi forseti, að sá hæstv. heilbrrh., sem hér er með okkur, rauk upp með andfælum og fann því allt til foráttu. Ég óska mjög eindregið eftir því, virðulegi forseti, að þessi hóflegi nefskattur, eins og það hefur verið orðað, verði hér útfærður og útskýrður. Hvað á hæstv. ráðherra við? Hvað er hann að fara? Veit Sjálfstfl. af þessu? Er hæstv. fjmrh. með í för?

Ég get líka rifjað það upp að fjmrh. vill enga nýja peninga inn í heilbrigðiskerfið með aukinni skattlagningu þannig að ástandið er þannig, virðulegi forseti, að í dag ræðir Framsfl. um innritunargjald, um sjúklingaskatt en kúvendir síðan og ræðir um nefskatt. Hvað verður ofan á á morgun? Hvaða ástand upplifum við þá í heilbrigðispólitíkinni hjá hæstv. ríkisstjórn?

Og enn frekar um hugtök. Menn ræða hér um uppstokkun og kerfisbreytingu í sjúkrahúsaþjónustu og þjónustu heilsugæslustöðva og fara hér mikinn með alls kyns frösum um það að fjármagn fylgi sjúklingi, sem enginn hefur getað útskýrt hvernig eigi að útfæra, ekki nokkur maður. Síðan ræðir hæstv. ráðherra það og vísar til nefndarstarfs, sem að sönnu er í gangi, um það að nú eigi að gjörbreyta skipulags- og stjórnkerfismálum heilsugæslustöðva og minni sjúkrahúsa. Þær tillögur sem þar liggja fyrir og verið er að vinna með þýða einfaldlega eitt, og ég bið, virðulegi forseti, að þingmenn og þjóðin glöggvi sig á því. Við erum að búa til þriðja stjórnsýslustigið, setja á einhver ný miðstýrð apparöt á átta stöðum í landinu sem síðan dreifi fjármagninu á hina einstöku staði. Ég er þessu algerlega mótfallinn. Ég tel þvert á móti að við eigum að stíga enn frekari skref í þá áttina, sem síðasta ríkisstjórn mótaði, undir forustu Alþfl. að við færum þetta fjármagn beint heim í hérað og við snúum á þá braut með heilsgæslustöðvarnar að þær fari undir stjórn stærri og öflugri eininga sem sveitarfélögin eru. Við mótuðum þá stefnu og hún birtist m.a. í lögum um reynslusveitarfélög. Að því er ég best veit er það nú að hefja göngu sína í praxís í þremur sveitarfélögum. Þær hugmyndir sem nú er verið að vinna með ganga í þveröfuga átt. Ég spyr líka hæstv. ráðherra hvað það þýðir á mæltu máli þannig að hægt sé að ræða málið á vitrænum grundvelli og með einhverjar upplýsingar við hendina þegar á að stokka upp og endurmeta hlutverk minni sjúkrahúsa út um allt land.

[17:15]

Ég held upprifjuninni áfram, virðulegi forseti. Fyrir u.þ.b. tveimur árum var tekin saman og birt skýrsla um starfsvettvang og umsvif minni sjúkrahúsa víða um land. Ég man ekki betur en að Framsfl. ætlaði hreinlega að ganga af göflunum, ekki vegna þess að þáv. heilbrrh. eða þáv. ríkisstjórn hafi haft einhverjar sérstakar hugmyndir um að grípa til sérstakra aðgerða, heldur einfaldlega vegna þeirra staðreynda sem þar komu fram. Því spyr ég enn og aftur: Hvernig birtast hugmyndir ríkisstjórnarinnar í raun og veru þegar kemur að endurmati á minni sjúkrahúsum úti á landi? Auðvitað er það þannig, virðulegi forseti, að þegar kemur að hlutverki og umsvifum minni sjúkrastofnana í minni sveitarfélögum í dreifðari byggðum þá eru menn ekki að ræða eingöngu um heilbrigðismál. Það er sannleikurinn. Menn eru þar ekki síður að ræða þar um atvinnumál. Það þekkja dreifbýlisþingmenn á borð við Stefán Guðmundsson sem hér stendur. Það vita þeir á Sauðárkróki, Siglufirði og Blönduósi. Ég spyr því beint: Þegar að endurmati kemur, sem væntanlega þýðir að draga á úr hefðbundinni starfsemi minni sjúkrahúsa úti á landi, hvernig ætlar þá ríkisstjórnin og þar með hæstv. heilbrrh. að bregðast við því þegar svo og svo stór hundraðshluti vinnufærra manna í viðkomandi sveitarfélagi, þar af flest konur, missa sína atvinnu? Hjúkrunarfræðingar, fyrrv. stallsystur hæstv. heilbrrh., og ófaglært starfsfólk. Auðvitað þýðir þetta ekkert annað í okkar litla landi.

Ég er ekki að segja með þessu, virðulegi forseti, að við eigum ekki að gaumgæfa þessi mál. Það er sannarlega þörf á því. Ég held hins vegar að það sé alveg nauðsynlegt þegar menn ræða þau að allir viti hvað það þýðir að fara í slíkar aðgerðir. Og ég veit að hæstv. heilbrrh. veit það. Þess vegna er nauðsynlegt að hún geri sér glögga grein fyrir því og að hún geri okkur hinum ljóst hvert hugur hennar stefnir og hvað hún áformar.

Við fjárlagaumræðu var umræðan auðvitað að meira eða minna leyti í skötulíki. Það vantaði vissulega alla útfærslu á þann sparnað sem birtist þar í tölulegu samhengi. Nú eru að birtast fréttir frá einum degi til annars um það að stóru sjúkrahúsin og raunar fleiri sjúkrastofnanir séu að reyna að útfæra þennan sparnað og þá væntanlega með aðild hæstv. ráðherra. Eðlilega ganga hlutir þannig til og það er ekkert leyndarmál að einstaka sjúkrastofnanir hljóta að bera það undir ráðherra heilbrigðismála hverju sinni hvernig með skuli fara og hvort það sé pólitísk sátt um það hjá ríkisstjórnarflokkunum að svona skuli fara að en ekki hinsegin. Þegar koma fréttir um lokun Bjargs þá birtist hæstv. ráðherra og segir: ,,Ég fæ engu um þetta ráðið.`` Það er með öðrum orðum bara stundum sem hún getur gripið í taumana og stundum ekki. Hins vegar segi ég um það mál að ég held að það sé full ástæða til að skoða hvort sú starfsemi eigi ekki fremur heima undir málefnum félagsmála. Raunar eru fleiri stofnanir á vettvangi heilbrigðismála sem þannig mætti nálgast.

Ég segi að síðustu, virðulegi forseti, að þessi umræða um heilbrigðismál verður auðvitað ævinlega og alltaf í algjöru skötulíki ef við segjum ekki hlutina eins og þeir eru. Og því miður hefur hæstv. ráðherra ekki gengið þar á undan með góðu fordæmi.