Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 17:20:15 (2835)

1996-02-08 17:20:15# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[17:20]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nokkur svör við ræðu hv. þm., Guðmundar Árna Stefánssonar. Hann spurði áðan hvort efnafólk ætti að ganga fyrir öðrum á heilbrigðisstofnunum. Ef hann hefði hlustað á ræðu mína áðan þá sagði ég orðrétt, með leyfi forseta: Ég get ekki fallist á að þeir sem betur mega sín í þjóðfélaginu geti keypt þjónustu umfram aðra. Þetta er mergur málsins og þarf ekki fleiri orð um.

Hann spurði um forgangsröðun. Hvað er forgangsröðun? Allar þjóðir í kringum okkur forgangsraða verkefnum. Spurningin er í hvaða röð við ætlum að gera hlutina og hvað er mest aðkallandi hverju sinni. Það er þetta sem við erum að gera og landlæknir hefur í mörg ár bent á að við yrðum að gera. Hann er í forsvari fyrir forgangsröðun. Ég vildi að við hefðum borið gæfu til þess í gegnum árin að forgangsraða framkvæmdum. Þá værum við kannski ekki með illa nýttar byggingar úti um allt land og ég stæði ekki frammi fyrir því núna að vera með undirskrifaða samninga um hinar og þessar framkvæmdir án nokkurs fjármagns. Það er þetta sem er forgangsröðun.

Hvað þýðir að fjármagn fylgi sjúklingi? Það er bara einfaldlega gamla sjúkrasamlagskerfið. Þá fylgdi fjármagn sjúklingi. Sjúklingur lagðist á sjúkrahús og sjúkrasamlagið greiddi nákvæmlega kostnaðinn við sjúkrahúsleguna.

Hann spyr að því hvað þessar nýju heilbrigðisstjórnir eigi að gera. En þegar ég hlustaði betur á ræðu hans þá heyrði ég að við erum alveg sammála. Við ætlum að færa fjármagnið heim í hérað og fagaðilar þar forgangsraða. Og ef menn vilja t.d. sameina sjúkrahús, eins og hann nefndi hér áðan, þá getur heilbrigðisstjórnin gert það. Hún er best til þess fallin vegna þess að hún þekkir best til og er næst vettvangi.