Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 17:22:46 (2836)

1996-02-08 17:22:46# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[17:22]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er fagnaðarefni að það skuli hafa verið tekin af öll tvímæli um það að hæstv. heilbrrh. er fullkomlega ósammála hæstv. fjmrh. Ég ætla að vona að það ástand vari eilítið lengur en mörg önnur afstaða hennar. Ég get ekki neitað því að ég ber ugg í brjósti vegna þess að í fleiri en einu máli og fleiri en tveimur hefur hæstv. heilbrrh. orðið að gefa eftir og lúta í lægra haldi þegar að samskiptum hennar og hæstv. fjmrh. kemur. Þannig að ég vona hið besta en er viðbúinn hinu versta og er á tánum.

Forgangsröðun. Vissulega hefur verið forgangsröðun í heilbrigðismálum fram að þessu. Hún hefur lotið að því hvar við ætluðum að setja niður þjónustu, með hvaða hætti og með hvaða umfangi o.s.frv. Það er ákaflega slakt hjá hæstv. ráðherra ef hún ætlar að fara undir --- fyrirgefið orðalagið --- pilsfaldinn hjá ágætum landlækni og vísa til þess að það verði hans verkefni að forgangsraða sjúklingum. Það er nákvæmlega það sem nú er verið að ræða um og ekkert annað. Það er nákvæmlega það sem er verkefni þessarar nýju nefndar sem hæstv. ráðherra er að kalla saman. Og því spyr ég: Er það ekki rétt skilið að þessi nefnd, hvað sem reynslu annarra þjóða líður, eigi að vega og meta hvenær eigi að hætta að lækna fólk eða með öðrum orðum hvernig eigi að raða inn á sjúkrastofnanir okkar? Það er það sem þessi nefnd á að ræða um ekki satt, hæstv. ráðherra?

Varðandi hlutverk og endurskipulag stjórnkerfisins þá er það nú einu sinni þannig að þessar hugmyndir eru ekki af þeim toga að verið sé að senda peninga heim í hérað. Það er eingöngu verið að ávísa á togstreitu og leiðindi í stórum kjördæmum. Hvað til að mynda um höfuðborgarsvæðið? Þessar hugmyndir leiða okkur til glötunar en ekki til þess að aukið sjálfstæði og sjálfsforræði sveitarfélaga fái notið sín.