Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 17:26:52 (2839)

1996-02-08 17:26:52# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[17:26]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson krafðist svara áðan varðandi innritunargjald og nefskatt. Ég minni á að fjárlagaumræðan er búin og þá ræddum við mjög mikið um þessi atriði. Það er búið að ganga frá þeim málum öllum. Það er búið að ganga frá fjárlögunum. Það voru uppi hugmyndir um innritunargjöld, það er alveg rétt. Ég studdi þær sjálf. Það var hins vegar hætt við það. Það er rétt að sumir vildu nefskatt en það var ekki farið í hann. Þannig er staðan í dag, það voru farnar aðrar leiðir.

Það komu líka upp hér áðan spurningar um að skipta landinu í átta heilsukjördæmi. Mér fannst gæta nokkurs misskilnings í þeim málflutningi af því að þær hugmyndir sem verið er að skoða eru einmitt að færa vald og fjármagn heim. Það er einmitt meiningin að færa vald og fjármagn heim og deila því þaðan út. Þannig að hér er einhver misskilningur á ferðinni. Það er kannski ekki svo skrýtið af því að þessar tillögur eru ekki enn þá komnar fram, þótt hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi gert þær að meginmáli sínu hér í dag.

Það er mjög mikilvægt að mínu mati fyrir landsbyggðina að þessi leið verði skoðuð. Ég trúi því að hv. þm. Stefán Guðmundsson muni koma eitthvað inn á þetta nú í andsvari því hann hefur unnið af miklum heilindum fyrir okkar flokk í því starfi.

Það hefur líka verið komið hér inn á forgangsröðun. Eins og við vitum er allt of lítið fjármagn til í ríkissjóði og mér finnst því eðlilegt að við skoðum forgangsröðun sjúklinga. Það á að gera það og það eru ýmsar spurningar sem koma upp. Þingmenn fengu á sínum tíma lista frá landlækni með ýmsum áleitnum spurningum um forgangsröðun sem þeir brugðust fremur illa við og treystu sér ekki til að svara. En þar komu upp spurningar eins og: Á að láta reykingafólk greiða að hluta til t.d. fyrir kransæðaaðgerðir? Er það rétt? Á að láta alla aðra en langlegusjúklinga greiða fyrir mat á sjúkrahúsum? Mér finnst eðlilegt að maður svari slíkum spurningum.