Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 17:34:10 (2843)

1996-02-08 17:34:10# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[17:34]

Stefán Guðmundsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins út af þeirri umræðu sem hefur orðið vegna ræðu hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar og hefur spunnist út af þeirri nefnd sem hér hefur verið vitnað til og er að vinna að breytingum í sambandi við heilbrigðismálin. Þar sem ég á sæti í nefndinni finnst mér rétt að koma aðeins inn í þessa umræðu þó tíminn sé stuttur. Það er alls ekki rétt sem kom fram hjá hv. ræðumanni að ekki væri meiningin að flytja fjármagn heim. Það er grundvallarmál í þessum tillögum að fjármagnið verði flutt heim í kjördæmin og því verði skipt upp í kjördæmunum sjálfum, trúlega af þingkjörinni stjórn. Ef ég má kannski segja eitthvað of mikið vegna þess að nefndin hefur ekki lokið störfum en þá trúi ég því að meiningin sé sú að þeir menn sem verði kjörnir á Alþingi til að fara með þessi mál verði að vera búsettir í viðkomandi kjördæmi. (ÓRG: Eiga heimamenn ekki sjálfir að velja mennina?) Það verður þingkjörin stjórn, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson. Með þessu sé ég að loksins verði orðið við margítrekuðum óskum heimamanna. Óskum landsbyggðarfólks að flytja ekki bara stofnanir heldur erum við einnig með þessu að gera tilraunir til að flytja völd og aukin áhrif heim í héruð. Hv. þm. dró það í efa vegna þess að menn mundu fara að rífast innbyrðis og kæmu sér ekki saman um að skipta þessu fjármagni. Ég treysti landsbyggðarmönnum alveg fullkomlega til að fara með þessa fjármuni. Ég er sannfærður um að þeir eru betur komnir í höndum heimamanna sjálfra sem búa sem næst þessum stofnunum en í fjárln. Alþingis. Þeir þekkja þetta betur og þeir eru fullkomlega færir um það. Það þekkir hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson mætavel af langri reynslu sinni sem sveitarstjórnarmaður. Það er alveg fullkomlega hægt að treysta fólkinu sjálfu fyrir því að fara með þetta fjármagn alveg eins og þeim mönnum sem valdir eru hér til þess að sitja á Alþingi. Það er mikill prófsteinn á landsbyggðarfólkið sjálft hvort við verðum tilbúin til að taka við þessari miklu ábyrgð sem verður boðið upp á nái þetta fram að ganga.