Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 17:38:37 (2845)

1996-02-08 17:38:37# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), LMR
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[17:38]

Lára Margrét Ragnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Mig langar til að ræða um heilbrigðisþjónustuna út frá svolítið öðru sjónarmiði en hefur verið gert í dag. Mig langar til að ræða um þróun heilbrigðisþjónustunnar almennt og væntanlega stefnumótun og skoðanir mínar í því efni. Hagkvæmur rekstur heilbrigðisþjónustunnar og gæði byggjast nefnilega á því hver uppbyggingin er. Reynslan sýnir að það getur tekið í þegar nauðsyn krefur að gera ýmsar breytingar á sviðum hvort heldur er í einkarekstri eða opinberum rekstri. Svo hefur verið um heilbrigðismálin undanfarinn rúman áratug a.m.k. Margoft hefur verið bent á hversu mikil tæknivæðing hafi orðið í heilbrigðisþjónustunni á síðustu árum og samhliða bent á fjölgun þjóðarinnar sem aukið hafi kostnað í þessari grein. En á sama tíma hafa gífurlegar breytingar orðið í þjóðfélaginu. Samgöngur hafa batnað og upplýsingaþjóðfélagið gerir meiri kröfur til heilbrigðisþjónustu en áður því þá þekkti almenningur ekki möguleika innan hennar. Þessar breytingar hafa auðvitað verið jákvæðar, aukið lífsgæðin og jafnframt lengt líf fjölmargra einstaklinga. Hins vegar hefur ekki verið unnt að meta verðmæti bættrar þjónustu heldur hefur síaukinn kostnaður verið aðaláhyggjuefnið, ekki síst á síðustu árum samdráttar í efnahagslífinu. Aukin og bætt heilbrigðisþjónusta leiðir nefnilega oft til aukinna útgjalda ríkisins en að sama skapi skilar hún sér alla jafna fjárhagslega til þjóðfélagsins með almennt betri heilsu og vinnandi höndum. En þetta áhyggjuefni á ekki einungis við um okkur Íslendinga. Allir þjóðir í kringum okkur eiga við sama verkefni að stríða, þ.e. að halda aftur af útgjaldaaukningu í heilbrigðismálum.

Flestöll ríki sem við berum okkur saman við hafa búið við velferðarkerfi þar sem heilbrigðisþjónustan hefur nánast alfarið verið greidd úr ríkissjóði. Hagfræðingar hafa bent á að slíkar aðstæður, þ.e. að neytendur þjónustunnar greiði ekkert beint úr eigin vasa, verði eftirspurnin ótakmörkuð. Þess vegna hafa margar þjóðir tekið upp þann sið að láta sjúklinga greiða einhvern hluta heilbrigðisþjónustunnar beint fyrst og fremst til að vekja athygli á þeim kostnaði sem henni fylgir, hvetja þá til að meta þörf sína fyrir þjónustu.

Núverandi heilbrigðislöggjöf okkar er í megindráttum orðin nærri aldarfjórðungs gömul og hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan. Þessi löggjöf miðast við aðstæður á sjöunda áratugnum þegar ófremdarástand ríkti í heilbrigðisþjónustu í dreifbýlinu og ber löggjöfin augljóslega þess vitni. Á áttunda áratugnum voru lagðir gífurlegir fjármunir til uppbyggingar í dreifbýlinu sem var að flestu leyti jákvætt nema eins og hæstv. heilbrrh. gat um áðan því miður var í allt of mörgum tilvikum yfirfjárfest og hefur rekstrarkostnaður því víða orðið óeðlilega hár og mönnum ofviða.

Ég hef ítrekað bent á að það mynstur sem lagt var upp með fyrir dreifbýlið þurfi ekki endilega að henta fyrir þéttbýlið og sérstaklega ekki í dag. Þá meina ég á suðvesturhorninu og jafnvel einnig á Akureyri. Með uppbyggingu heilsugæslustöðva í dreifbýlinu var verið að tryggja að a.m.k. einhver læknir sinnti héraðinu því það var mikill læknaskortur og skortur á heilbrigðisþjónustu almennt. Íbúar fengju þannig viðunandi þjónustu þó ekki væri greiður aðgangur að flestum sérfræðigreinum á staðnum. Þessi stefna hefur gengið eftir og læknisþjónusta í dreifbýli hér á landi er að mörgu leyti til fyrirmyndar en mætti þó auka sérfræðiþjónustu á svipaðan hátt og landlæknir hefur t.d. skipulagt augnlæknisþjónustu.

Um þéttbýlissvæðið gilda önnur lögmál. Þar eru læknar fyrir og aðgengi að þeim hefur hin síðari ár a.m.k. verið greitt bæði að heimilislæknum og öðrum sérfræðingum. Því hefur verið haldið fram að rekstur heilsugæslustöðva sé ódýr og því beri að halda sig að því mynstri jafnt í þéttbýli sem í dreifbýli. Þessi fullyrðing hefur verið umdeild enda eru greiðslur til þeirra flóknar og kostnaður vegna fjárfestingar ekki einu sinni færður til bókar. Ég vildi því halda því fram að með tilliti til hins greiða aðgengis að læknum á Stór-Reykjavíkursvæðinu sem dæmi sé þörf fyrir heilsugæslustöðvar ekki sú sama þar og í dreifbýlinu. Læknisþjónustu megi sinna jafn vel og jafnvel ódýrara með öðrum hætti. Þá hef ég sérstaklega litið til einkarekinna stofa og læknastöðva. Þessir aðilar senda reikninga til ríkisins sem endurspegla heildarkostnað fyrir þjónustuna og það er hagur þeirra sem þjónustuna veita að bjóða sem besta þjónustu og með ýtrustu hagræðingu.

Vegna stuttra vegalengdra milli þjónustustöðva í heilbrigðisþjónustu er unnt að veita þéttbýlisbúum stöðugt valfrelsi á þjónustu, bæði milli heimilislæknaþjónustu og sérfræðiþjónustu. Laun lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks hér á landi eru mun lægri en annars staðar og munur á kostnaði milli heimilislæknisþjónustu og sérfræðingsþjónustu er lítill sem enginn ef allt er með talið. Því er ekkert því til fyrirstöðu að sjúklingur hafi beint aðgengi að þeim læknum sem þeir telja best henta hverju sinni hvort heldur að heimilislækni eða öðrum sérfræðingum.

Með aukinni tækni hafa ýmsar lækningar orðið einfaldari ef svo má segja og hefur ýmis þjónusta flust að miklu leyti frá sjúkrahúsum yfir í einkareknar læknastöðvar eða læknastofur því að innlagning hefur orðið óþörf. Ef skoðað er hversu mikil þjónusta hefur færst út af sjúkrahúsunum er því ánægjulegt að sjá að hlutur sérfræðinga í útgjöldum hins opinbera til heilbrigðismála hafi samt haldist hlutfallslega nánast hinn sami. Árið 1980 var sá hlutur samkvæmt upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun um 4,1% af heildarkostnaði en á síðasta ári er hann talinn nema samkvæmt síðustu upplýsingum um 3,9%. Hið sama má líka segja um þann kostnað sem talinn er fram í heilsugæslunni þótt sveiflur séu heldur meiri. Árið 1980 nam hlutfallið 14,7% en síðasta ár um 15,3%. Þróun undanfarin ár í heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa hefur verið er mjög jákvæð og hagkvæm hvað snertir útgjöld og gæði.

[17:45]

En hvað þá með sjúkrahúsin? Þau hafa tekið við sífellt flóknari og dýrari læknisþjónustu eins og margoft hefur komið fram í dag og aukið þjónustu sína gífurlega. Legutími hefur styst sem hefur gefið svigrúm fyrir fleiri sjúklinga, erfiðari sjúklinga. Hins vegar hefur sjúkrahúsunum verið gefinn fastur rammi í fjármögnun og lítið tekið tillit til aukinnar framleiðslu þeirra. Auknum útgjöldum vegna sjúkrahúsa hefur verið mætt með að sameina tvö af þremur stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík, sem sinna erfiðustu tilfellunum fyrir alla landsmenn, eins og kunnugt er. Þessi sameining hefur verið umdeild af ýmsum ástæðum. Sérstaklega hefur verið bent á að nauðsynlegt væri að gera ákveðnar breytingar ef ná ætti sem bestri hagræðingu með þessari sameiningu. Þessar breytingar hafa enn ekki verið gerðar vegna fjárskorts og því ríkir jafnerfitt ástand og raun ber vitni á sjúkrahúsinu. Reyndar má slíkt segja um fleiri sjúkrahús. Enn fremur halda ákveðnir aðilar því fram, að sameining allra sjúkrahúsa í Reykjavík muni leiða til betri nýtingar á fjármagni. Þessu til stuðnings er vísað til afar hæpinnar og að mínu mati illa unninnar skýrslu, að menn segja virtra, erlendra ráðgjafa. Til þess að halda þeim gæðum sjúkrahúsanna, sem hæstv. heilbrrh. minntist réttilega á í dag, er ég þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að veita sjúkrahúsaþjónustunni ákveðið aðhald til að hún megi þróast og metnaður haldist með ákveðnum samanburði að minnsta kosti milli tveggja stórra sjúkrahúsa en þó með ákveðinni verkaskiptingu.

Undanfarið hefur verið mikið rætt um að fjármagn fylgi sjúklingum. Og hvað er það? Það hafa hér í dag komið fram spurningar og túlkanir á þessu hugtaki. Í meira en tíu ár hefur verið rætt um það að koma á greiðslukerfi sem byggðist á áætlaðri framleiðni sjúkrahúsanna, kerfi sem notað er víða um heim. Þar er reiknað með því að fjármagn fylgi sjúklingi, þ.e. að kostnaður vegna sjúklings sé reiknaður upp. Ég vil benda hæstv. heilbrrh. á það að um tíma var að minnsta kosti einu stöðugildi varið á Ríkisspítölunum til að aðlaga þetta kerfi íslenskum aðstæðum og síðan hefur, að mér skilst, staðan flust yfir til heilbrrn. Þar hefur þetta stöðugildi verið við lýði í nokkur ár og síðar eðlilega í ráðuneyti. Ég vil spyrja: Hvað líður þessari áratugs vinnu? Hver er ástæðan fyrir því að ekki hefur bólað á árangri þessa starfs? Ummæli um bruðl eða eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson vildi heldur tala um í dag, innbyrðis skekkju á sjúkrahúsum yrði óþörf með svona kerfi. Ég vil benda á að með þeim áætlunum sem fylgja þessu ákveðna kerfi sem er betur þekkt sem DRG-kerfi væri betur unnt að ákveða það þjónustumagn sem sjúkrahúsum er ætlað að veita og taka ákvarðanir um viðbótarþjónustu og meta frammistöðu sjúkrahúsanna. Þjónusta sjúkrahúsa í dreifbýli og hlutverk þeirra hefur einnig breyst með tilkomu aukinnar tækni og möguleika. Þar hefur bráðaþjónusta færst á færri stofnanir í heild en hjúkrunarþjónusta hefur eflst á öðrum. Ég tel nauðsynlegt að endurskoða hlutverk þessara sjúkrahúsa og taka þar með fullt tillit til fyllsta öryggis íbúa héraðanna.

Hæstv. forseti. Ég geri mér grein fyrir því að tíminn er að brenna út hjá mér og því ætla ég að sleppa nauðsynlegri umræðu um lyfjamál. En þessi orð mín hafa fyrst og fremst verið til að leggja áherslu á hversu nauðsynlegt er að skoða í heild og móta stefnu í heilbrigðismálum hér á landi án þess að fara út í smáatriði, svo sem einstaka þjónustu og gjaldskrár heldur byrja á því að setja okkur ákveðinn ramma. Aðgerðir undanfarinna ára hafa því miður ekki alltaf borið keim af því heldur af alvarlegri efnahagslægð. Afleiðing hennar er að notaðar hafa verið skyndilausnir sem á köflum geta orðið æði dýrar og eru oft ekki nægilega undirbúnar né unnar af þeim sem eiga að framkvæma þær. Það er nauðsynlegt að stefnan sem verður tekin í heilbrigðismálum taki mið af því hvernig eigi að framkvæma í smáatriðum seinna meir og verði sveigjanleg í hlutfalli við það. Mig langar líka til að benda á stefnu Sjálfstfl. til fleiri ára sem byggist á því að endurskoða fjármögnun heilbrigðismála og kanna möguleika á því að endurvekja aftur sjúkrasamlög eða tryggingar og gefa þannig kjósendum betri hugmynd um útgjöldin og veita þeim tækifæri til að tjá hug sinn gagnvart auknum fjármunum til heilbrigðisþjónustu. Þetta tel ég alveg bráðnauðsynlegt til að fólk átti sig á því hvað það vill gera og hvar það vill forgangsraða þeim fjármunum sem fara til opinberrar þjónustu hvort sem heilbrigðisþjónustan verður á höndum ríkisins eða sérstaks trygginga- eða sjúkrasamlags sem verður sjálfstætt.

Ég vil gera orð hæstv. heilbrrh. að mínum. Stefna og stöðugleiki þurfa að ríkja í heilbrigðismálum. Þess vegna er okkur brýn nauðsyn núna á þessu kjörtímabili að móta heildarstefnu, stefnu sem mætir þróun í heilbrigðisþjónustu á hverjum tíma því þróunin er ör og þá af festu og sveigjanleika en ekki af neinum skyndilausnum.