Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 18:03:56 (2847)

1996-02-08 18:03:56# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[18:03]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir ræddi um að bætur til lífeyrisþega hefðu hækkað. Vissulega hækkuðu bótagreiðslur lítillega um áramótin. En um leið var farið í niðurskurð. Það voru ekki þeir verst settu sem sluppu við þann niðurskurð. Það er verið að lækka uppbætur til lífeyrisþega, umönnunaruppbót, lyfjauppbót og aðrar uppbætur á lífeyri þessa fólks í ,,prósentvís``. Það er verið að ganga að þessu fólki núna smátt og smátt. Þetta gengur ekki yfir alla í einu. En lækkun á bótum til þessa fólks er hafin og mun verða áfram út þetta ár þannig að Tryggingastofnun er farin í þessa vinnu.

Það er spurning hvort menn kalla þetta aðhald, niðurskurð eða hvað. Þetta er lækkun til þeirra sem minnst mega sín. Ég mundi frekar leggja til við þá sem ætla að spara í tryggingakerfinu, að í staðinn fyrir að skera svona niður hjá lítilmagnanum, auki þeir eftirlit með velferðarkerfinu.

Vegna umræðu um Ríkisspítalana tek ég undir það sem hv. þm. sagði áðan. Sjúkrahús Reykjavíkur hefur farið mun verr út úr þessum niðurskurði. Ég velti því fyrir mér hvort eitthvert stórslys hafi orðið við fjárlagagerðina þar sem Sjúkrahús Reykjavíkur sem er mun minni stofnun en Ríkisspítalarnir stendur frammi fyrir 380 millj. kr. gati ef það á að halda úti rekstri eins og hann var á síðasta ári með öllum lokunum eins og þær voru á síðasta ári. Hvað hefur verið þarna á ferðinni? Og ég hefði gjarnan viljað spyrja fyrrv. borgarstjóra Reykjavíkur um það hvað hafi legið þarna að baki að veist var svona að Sjúkrahúsi Reykjavíkur.