Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 19:03:03 (2865)

1996-02-08 19:03:03# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[19:03]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Svona uppgötvar maður það stundum þegar maður talar úr ræðustól að tvær ólíkar persónur sitja í salnum. Það glaðnar yfir annarri og hún verður bjartsýn og sér málin í nýju ljósi. Hin persónan, í þessu tilfelli hv. þm. Ögmundur Jónasson, hefur setið í annarlegum hugleiðingum undir ræðu minni. Hann gefur gerst innhverfur, horfið inn í eigin sál og hugarheima og reynt að lesa eitthvað allt annað á milli línanna en það sem ég sagði. Ég gagnrýndi ýmislegt. Ég benti á leiðir til þess að leysa kannski þau flóknustu mál sem valda nú mestri gagnrýni. Ég nefndi þar til verkalýðshreyfinguna sem hv. þm. þekkir og lífeyrissjóðina sem eru sterkustu eignarsjóðir á Íslandi í umráðum atvinnulífs og launþega. Ég sagði ekki að það væri allt í góðu gengi en ég sagði: Við eigum þau tækifæri undir forustu hæstv. heilbrrh. að ganga nýjar leiðir og hæstv. ráðherra hefur kallað stjórnarandstöðuna til verka og ábyrgðar og reynir, ekki bara í þinginu, að ná sátt um málaflokkinn heldur líka í þjóðfélaginu öllu. Ég geri mér grein fyrir því að þegar það hefur náðst munu, ég vil segja upphrópanir og kannski andstyggileg umræða, því að vissulega fer umræðan í taugarnar á mér og sumt sem ég nefndi í ræðu minni fer í taugarnar á mér eins og biðlistarnir, þá mun þetta tilheyra fortíðinni og nýr tími blasa við. Ég geri mér grein fyrir því að umræðan verður að eiga sér stað og hún er ekkert óeðlileg eins og hún hefur verið að margra hálfu þó margir stjórnmálamenn hafi að vísu gengið langt í henni. En það er fyrst og fremst að ná því fram að við leysum stærstu skammtímavandamálin og mætum framtíðinni með réttum hætti.