Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 19:24:54 (2868)

1996-02-08 19:24:54# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B #, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[19:24]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Við eigum nú ekki beinlínis í deilum hér, hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og ég. Ég vil sérstaklega taka undir það sem hún nefndi með vinnufriðinn. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hæstv. heilbrrh. og allar þær nefndir sem hún hefur skipað til stefnumótunar í heilbrigðiskerfinu fái frið til að vinna og að það sé ekki stöðug styrjöld í gangi vegna niðurskurðar og árása á velferðarkerfið. Það sama gildir um fólkið sem vinnur á heilbrigðisstofnununum og biður einmitt um frið og tíma til að vinna úr því sem á það hefur verið lagt.

Ég vil einnig taka undir það sem hún sagði varðandi fólk sem ekki leitar læknis. Ég hef iðulega spurt um þetta þegar ég heimsæki heilsugæslulækni minn sem er nú reyndar ekki oft en kemur þó fyrir. Það er alveg ljóst að þar átti sér stað nokkur samdráttur og þar fékk ég líka þær upplýsingar að það er töluverður hópur af fólki sem getur ekki einu sinni borgað komugjöldin. Okkur hættir svo oft til að gleyma því að það er sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu nokkuð stór hópur sem á afar erfitt uppdráttar og á mjög erfitt með að sjá sér farborða og ég get ímyndað mér að það sé kannski ekki síst í þeim hópi sem heilsan er ekki allt of góð. Og við gleymum því svo oft að þótt við sem erum hér mörg hver á ákveðnum aldri séum farin að huga verulega að heilsunni þá eru þeir bara svo margir sem gera það ekki. Ég vil enda þessi orð mín með því að vitna í sjúkraþjálfara sem ég þekki og vitna mikið til því hann hefur velt þessum málum mikið fyrir sér. Hann segir að á meðan tíu manns fari út að hlaupa sitji 100 fyrir framan sjónvarpstækin og geri ekki neitt.