Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 19:35:17 (2870)

1996-02-08 19:35:17# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B #, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[19:35]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Vegna orða hæstv. ráðherra um greiðslur á heilsugæslustöðvum sem ég minntist á í andsvari mínu, þá er það rétt hjá hæstv. ráðherra að heilsugæslustöðvar og læknastofur rukka ekki mjög stíft. Það er alveg rétt enda kemur það í ljós að 3% þeirra sem komið hafa á heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki getað greitt fyrir þá þjónustu sem þeir fengu. Aftur á móti er mjög erfitt fyrir fólk að koma í afgreiðslu fulla af fólki og tilkynna þar að það geti ekki borgað, það sé að koma til læknis en geti ekki borgað fyrir þjónustuna. Það er mjög erfitt fyrir tekjulágan einstakling að koma inn og þurfa að segja það, kannski aftur og aftur í afgreiðslu heilsugæslustöðva. Það er því rétt að það er ekki rukkað stíft. En fólk er hætt að koma vegna þess að það veigrar sér við að standa frammi fyrir afgreiðslunni og segja að það geti ekki borgað.

Varðandi kostun í heilbrigðiskerfinu þá þekkjum við auðvitað kostun úr Ríkisútvarpinu. Þar hefur kostun nefnilega viðgengist í þó nokkurn tíma. (Heilbrrh.: Kostulegt orð.) Kostun er það þegar eitthvert fyrirtæki úti í bæ kostar eitthvert ákveðið verk, svo sem dagskrárefni. Ég vil setja varnagla við svona vinnubrögðum eins og þar sem Pharmaco, af góðum hug ætlar að leggja góðum málstað lið sem er barna- og unglingageðdeildin, þá er þetta fyrirtæki sem er hagsmunafyrirtæki í heilbrigðisþjónustu að forgangaraða. Þeir eru að taka ákveðna þjónustu fram yfir aðra með því að greiða til hennar. Auðvitað er það rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að við höfum vanist því að líknarfélög hafa greitt til heilbrigðismála en þá hefur það verið til uppbyggingar og tækjakaupa. Síðan hafa fyrirtæki úti í bæ, Grandi og hvað þau nefnast, greitt oft til líknarfélaga sem síðan setja það yfir í heilbrigðiskerfið. Þetta er alþekkt í okkar kerfi. En að greiða í reksturinn, það er nýtt og það er aðferð sem við verðum að gera upp við okkur hvort við sættum okkur við. Þetta er bara nokkuð sem við eigum eftir að ræða og þurfum að ræða því þetta er aðferð sem er notuð í öðrum löndum. (Forseti hringir.) En við höfum ekki notað hana og það eru ákveðnar efasemdir um þessa aðferð.