Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 19:38:02 (2871)

1996-02-08 19:38:02# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B #, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[19:38]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefur í rauninni tekið af mér ómakið og sagt flest af því sem ég vildi segja. Í fyrsta lagi er kostun ekki óþekkt innan ríkiskerfisins og við sjónvarpsáhorfendur höfum orðið áþreifanlega varir við þá stefnu í sjónvarpinu að þar er iðulega sagt í upphafi eða lok þátta að tiltekið fyrirtæki hafi kostað dagskrárgerðina. Nú er ekkert við það að athuga, mætti segja að fyrirtæki styrki góð málefni. En þær áhyggjur sem menn hafa haft sem hafa andæft þessari stefnu innan ríkissjónvarpsins, hafa byggst á því að með þessu móti komi fyrirtækið eða fjársterkir aðilar til með að kaupa sig inn í dagskrána og hafa áhrif á dagskrárstefnuna. Ég get auðveldlega fært rök fyrir því að einmitt þetta hafi gerst í ríkissjónvarpinu. Þar sem þetta mál er komið upp vil ég lýsa því yfir að ég kem til með að taka þessi mál upp síðar hvað þetta varðar. Hið sama gildir um kostun innan heilbrigðiskerfisins. Þar erum við að nálgast umræðu sem er mjög viðkvæm. Fyrirtæki, einstaklingur eða stofnun veitir fjárframlag, gefur gjöf, eins og gerst hefur með Pharmaco eða önnur fyrirtæki. Það var talað um Hringinn áðan. Gjöf er gefin af góðum hug. Ef það er hins vegar orðin fjármögnunarleið og stjórnunarmáti (Forseti hringir.) að þessi fyrirtæki og þessir fjársterku aðilar eru farnir að stýra ferðinni, þeir kaupa ekki tækið sem stóð til að kaupa (Forseti hringir.) heldur hugsanlega það sem ekki stóð til að kaupa, reisa bygginguna sem ekki stóð til að reisa og svo framvegis ... (Forseti hringir.) Gerist nú forseti vor mjög þungbrýnn og skal ég ljúka máli mínu.

(Forseti (GÁ): Lögum samkvæmt er ræðutíma lokið.)