Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 19:41:33 (2873)

1996-02-08 19:41:33# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B #, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[19:41]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir hennar svör. Ég hef trú á því að við séum sammála í grundvallaratriðum. Hins vegar er það að segja um þá gjöf sem hér um ræðir, gjöf Pharmaco, að hún er náttúrlega skilyrt. Þetta er skilyrt gjöf. Hins vegar má segja sem svo að þar hafi verið um að ræða starfsemi sem stjórnendur spítalans og stofnunarinnar vildu að yrði sinnt þannig að þarna erum við inni á gráu svæði. En það sem ég vildi sagt hafa um þessi efni er að við erum að falla í þennan farveg með tilliti til þeirrar skattastefnu sem hefur verið rekin. Sköttum hefur verið létt af fyrirtækjum, tekjusköttum, það var talað hér um aðstöðugjöld og önnur gjöld á fyrirtæki. Þau koma síðan með sömu fjármuni og þau áður greiddu í samneysluna og reiða þá fram sem gjafir og vilja nýta á eigin forsendum, hugsanlega til að bæta sína ímynd auk þess sem þau vilja styðja gott málefni. Ég vara við þessari þróun sem slíkri.