Vaxtahækkanir bankanna

Mánudaginn 12. febrúar 1996, kl. 15:10:54 (2878)

1996-02-12 15:10:54# 120. lþ. 88.1 fundur 180#B vaxtahækkanir bankanna# (óundirbúin fsp.), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur


[15:10]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að það eru að mínu viti og margra fleiri allar efnahagslegar forsendur fyrir því að vextir geti farið lækkandi. Þegar fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar kom fram í byrjun október lækkuðu vextir allnokkuð og sú lækkunaralda ef svo má að orði komast hélt áfram fram til mánaðamóta nóvember/desember þegar kjarasamningar voru lausir eða öllu heldur þegar órói var hér á vinnumarkaði. Síðan þá hafa vextir hins vegar farið hækkandi þrátt fyrir að vextir í löndunum allt í kringum okkur hafi farið lækkandi.

Það er svo með bankakerfið hér að þegar talað er um hvort ekki séu forsendur til vaxtalækkana þá vitna menn yfirleitt til þess að vextir í löndunum í kringum okkur hafi farið hækkandi og þess vegna þurfi bankakerfið á Íslandi að hækka sína vexti. Það hlýtur þá líka að gerast að þegar vextir í löndunum í kringum okkur lækka að vextir á Íslandi muni fara lækkandi. Það eru meginrökin fyrir því m.a. fyrir utan að lánsfjáreftirspurn ríkisins hefur minnkað, lánsfjáreftirspurn sveitarfélaga hefur minnkað, lánsfjáreftirspurn fyrirtækja er að minnka, það dregur úr lánsfjáreftirspurn heimilanna og þannig mætti lengi telja. Allar forsendur eru til staðar og við í ríkisstjórninni munum reyna að leita leiða til þess í samvinnu við aðila á vinnumarkaði að skapa hér þær aðstæður að vextir muni fara lækkandi.

Það var hald manna að þær tölur sem núna væru að berast um vísitöluhækkanir væru meiri en niðurstaðan varð af þeim útreikningum sem komu í morgun. Það undirstrikar enn frekar fyrir utan þá kyrrstöðu eða það jafnvægi sem er á vinnumarkaði að þær forsendur eru til staðar að vextir fari lækkandi. Á fimmtudaginn er gert ráð fyrir að við munum eiga fund með Seðlabankanum um hvaða leiðir hægt sé að fara í þessum efnum. En fyrst og fremst held ég að menn þurfi í þessum efnum að reyna að skapa samstöðu á fjármagnsmarkaðnum um þá leið niður á við sem nauðsynleg er.