Fréttastofa sjónvarps

Mánudaginn 12. febrúar 1996, kl. 15:16:46 (2881)

1996-02-12 15:16:46# 120. lþ. 88.1 fundur 181#B fréttastofa sjónvarps# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur


[15:16]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Mig langar til að beina spurningu til hæstv. menntmrh. um málefni fréttastofu sjónvarps. Í lögum um Ríkisútvarpið, nr. 68/1985, segir, með leyfi forseta:

,,Ríkisútvarpið skal m. a. veita almenna fréttaþjónustu og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á þeim málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða.``

Þetta er í 15. gr. Og síðar í sömu grein:

,,Það skal veita almenna fræðslu og gera sjálfstæða dagskrárþætti sem snerta Ísland og Íslendinga sérstaklega.

Útvarpsefni skal miðað við fjölbreytni íslensks þjóðlífs.``

Nú hefur verið þrengt svo að fréttastofu sjónvarps að hún heldur rétt úti lágmarksfréttaþjónustu. Ekki eru lengur á dagskrá þættir um þingmál, svo sem Þingsjá, umræðuþættir á vegum fréttastofu hafa verið fáir ef nokkrir, Kastljós hefur verið lagt af og fréttaskýringar eru nánast engar. Dagskrárgerð á vegum fréttastofu hefur nánast verið aflögð. Síðan er á döfinni að leggja niður starf fréttamanns í Kaupmannahöfn eða á Norðurlöndum. Því spyr ég hæstv. menntmrh. hvort hann telji að fréttastofa sjónvarps standi undir þeim kröfum sem gerðar eru til hennar í lögum þegar svona er þrengt að henni fjárhagslega.