Fréttastofa sjónvarps

Mánudaginn 12. febrúar 1996, kl. 15:20:45 (2883)

1996-02-12 15:20:45# 120. lþ. 88.1 fundur 181#B fréttastofa sjónvarps# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur


[15:20]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég tek ekki undir að fjárhagur Ríkisútvarpsins sé rúmur. Það hefur verið þrengt mjög að þeirri stofnun. Aftur á móti tel ég að við þurfum að huga að forgangsröðun þar sem sú stofnun er jafnt og annars staðar í opinberum rekstri. Ég tel alvarlegt þegar svo er komið fyrir fréttastofu sjónvarps að hún geti ekki sinnt verkefnum sínum betur en þetta. Þar hafa menn þurft að búa við flatan niðurskurð eins og annars staðar og ég tel að það verði ekki lengra gengið á þeirri leið. Ég vonast til þess að það verði tekið á fjármálum þeirrar stofnunar og aukið fé til fréttastofunnar. Ég tel einnig alvarlegt ef ekki er hægt að halda úti fréttamannsstöðu í Kaupmannahöfn. Jafnframt er sífellt verið að lækka ráðstöfunarfé fréttastofunnar þótt kostnaður sé sífellt að hækka, bæði við sjónvarpsreksturinn og launagreiðslur.