Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 12. febrúar 1996, kl. 15:24:11 (2885)

1996-02-12 15:24:11# 120. lþ. 88.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur


[15:24]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Frv. er á þskj. 425. Frv. þetta er að stofni til byggt á frv. um sama efni sem lagt var fram mjög seint á síðasta þingi en var ekki tekið til umræðu. Það frv. var í haust yfirfarið af nefnd sem ég skipaði í því skyni. Í henni áttu m.a. sæti fulltrúar iðn.- og viðskrn. og sjútvrn. Nefndinni var annars vegar ætlað að kanna hvort ákvæði frv. fullnægðu alþjóðlegum samningsskuldbindingum Íslands, einkum gagnvart EES-samningnum, og hvort ástæða væri til að ganga lengra en þar væri kveðið á um. Hins vegar var nefndinni ætlað að kanna hvort breyta ætti ákvæðum laga þannig að þau verði frekar til þess fallin að örva erlenda fjárfestingu hér á landi. Nefndin hefur lokið fyrra verkefninu og er þetta frv. árangur þess starfs. Helstu breytingar í frv. frá gildandi lögum eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi. Heimiluð er óbein fjárfesting erlendra aðila í fyrirtækjum sem stunda fiskveiðar og frumvinnslu sjávarafurða. Fljótlega eftir að lögin um erlenda fjárfestingu tóku gildi í mars 1991 kom í ljós að nánast er útilokað að framfylgja afdráttarlausu banni laganna við óbeinni fjárfestingu erlendra aðila í þessum greinum íslensks atvinnulífs. Dæmi: Samkvæmt lögum er ólöglegt að erlendur aðili eigi hlut í fyrirtæki sem við getum kallað D, jafnvel hinn smæsta hlut, ef fyrirtæki D á hlut í C sem á hlut í B sem á hlut í sjávarútvegsfyrirtækinu A. Eftir því sem hlutabréfamarkaður eflist, hagkerfið opnast og íslensk hlutafélög breytast úr fjölskyldufyrirtækjum í almennings hlutafélög þar sem hlutabréf ganga kaupum og sölum á markaði verður erfiðara að framfylgja afdráttarlausu banni af þessu tagi. Þá er ekki síður mikilvægt að afdráttarlaust bann við óbeinni fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegsfyrirtækjum dregur úr möguleikum þeirra til að afla sér eigin fjár á markaði. Það er sérstaklega bagalegt þar sem skortur á eigin fé hefur löngum þótt helsti veikleiki íslenskra fyrirtækja sem búa við sveiflukenndar efnahagslegar aðstæður. Fjölmörg dæmi eru nú þegar um óbeina eignaraðild erlendra aðila í sjávarútvegsfyrirtækjum. Hún er fyrst og fremst tilkomin vegna þess að erlendir aðilar eiga hlut í fyrirtækjum hér á landi og þau eiga aftur hlut í sjávarútvegsfyrirtækjunum. Hingað til hefur ekki verið amast við þessari óbeinu eignaraðild og virðist svo sem flestir átti sig á að í henni felst engin hætta.

Í frv. er lagt til að óbein eignaraðild erlendra aðila í sjávarútvegsfyrirtækjum verði heimiluð innan tiltölulegra þröngra skilyrða. Þannig verða lögaðilar sem eiga hlut í sjávarútvegsfyrirtækjum að vera íslenskir og undir yfirráðum íslenskra aðila. Í þessu felst að lögaðilinn verður að eiga heimili hér á landi og að íslenskir aðilar verða að eiga meiri hluta í félaginu, fara með meiri hluta atkvæðisréttar eða hafa með öðrum hætti raunveruleg yfirráð yfir viðkomandi félagi. Í því felst að ákvarðanir um stefnu fyrirtækisins og aðrar ákvarðanir er lúta að daglegri starfsemi þess eru teknar af íslenskum aðilum en ekki erlendum. Í þessu sambandi vil ég vekja sérstaka athygli á því að samkvæmt 2. gr. frv. geta stjórnvöld brugðist við ef þau komast að þeirri niðurstöðu að farið sé gegn þessum ákvæðum um íslensk yfirráð í félagi sem á hlut í sjávarútvegsfyrirtæki.

Í öðru lagi má bein eign erlendra aðila ekki vera meiri en 25% hlutafjár eða stofnfjár í íslenskum lögaðila sem á hlut í sjávarútvegsfyrirtæki. Þó er heimilt að þessi hlutur fari upp í 33% af hluta- eða stofnfé þegar lögaðilinn sem um ræðir á ekki meira en 5% af hlutafé eða stofnfé í íslensku sjávarútvegsfyrirtæki. Þetta verður best skýrt með dæmi: Ef fyrirtæki B á meira en 5% af hlutafé í A, sem er sjávarútvegsfyrirtæki, þá mega erlendir aðilar ekki eiga með beinum hætti meira en 25% af hlutafé í fyrirtækinu B. Ef fyrirtæki B á hins vegar innan við 5% af hlutafé í A, sem er sjávarútvegsyrirtæki, þá mega erlendir aðilar eiga með beinum hætti allt að 33% af hlutafé í B.

Til viðbótar við þau skilyrði sem ég hef þegar nefnt þurfa íslenskir lögaðilar sem eiga hlut í lögaðila sem á í sjávarútvegsfyrirtæki að vera undir íslenskum yfirráðum. Hér er um að ræða lögaðilann C sem á hlut í B sem á hlut í sjávarútvegsfyrirtækinu A. Þetta þýðir að íslenskir aðilar verða að eiga meiri hluta í C eða fara með meiri hluta atkvæðisréttar eða hafa með öðrum hætti raunveruleg yfirráð yfir honum. Eignarhlutur erlendra aðila í fyrirtæki C má fara upp í allt að 49%.

Að endingu nefni ég að í 2. gr. frv. eru mjög ítarleg ákvæði um það hvernig brugðist skuli við ef brotið er gegn reglum um fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi og öðrum sviðum þar sem um takmarkanir verður að ræða. Með þessu móti tel ég að unnt sé að heimila óbeinar fjárfestingu erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum án þess þó að hætta sé á að sú fjárfesting fari yfir þau mörk að yfirráð Íslendinga yfir sjávarútvegsfyrirtækjum skerðist. Það er kjarni málsins.

Ég vil undirstrika að fullt samráð var haft við sjútvrn. um mótun þessara tillagna. Sjútvrh. hefur lagt fram, samhliða þessu frv., frv. til laga um breytingu á lögum um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands þar sem sömu reglur um fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegsfyrirtækjum eru lögfestar. Þess skal einnig getið að nefndin sem samdi frv. bar tillögurnar undir bæði Landssamband íslenskra útvegsmanna og Samtök fiskvinnslustöðva og skriflegt samþykki þeirra við tillögurnar liggur fyrir.

[15:30]

Þá vík ég að þeim breytingum sem lagt er til að gerðar verði á ákvæðum laga um takmörkun á möguleikum erlendra aðila til að eiga virkjunarrétt fallvatna og jarðhita hér á landi og stunda orkuvinnslu eða orkudreifingu. Samkvæmt 40. gr. EES-samningsins, sbr. XII. viðauka hans, urðu íslensk stjórnvöld að fella úr gildi í síðasta lagi hinn 1. janúar sl. ákvæði er mismuna milli innlendra aðila og annarra aðila á EES-svæðinu þegar kemur að fjárfestingu á orkusviðinu hér á landi. Þetta er afdráttarlaus samningsskuldbinding og undan henni verður ekki vikist. Því er í 1. gr. frv. kveðið á um að einstaklingar sem búsettir eru í öðru EES-ríki og lögaðilar sem heimilisfastir eru þar hafi sama rétt til fjárfestingar á þessu sviði og innlendir aðilar. Í greininni er gert ráð fyrir þeirri meginreglu að þetta svið verði áfram lokað fyrir öðrum erlendum aðilum. Þó er kveðið á um að við gerð fjárfestingarsamninga við ríki utan EES-svæðisins verði unnt að heimila þarlendum aðilum að fjárfesta á þessu sviði, enda verði slíkir samningar lagðir fyrir Alþingi til staðfestingar með þingsályktun.

Sem dæmi um samninga af þessu tagi má hér nefna tvíhliða fjárfestingarsamninga sem gerðir eru við einstök ríki, væntanlegan annan áfanga orkusáttmála Evrópu og alþjóðlegan fjárfestingarsamning sem unnið er að á vegum OECD. Þrátt fyrir þessa opnun má ekki gleyma því að opinber fyrirtæki eru allsráðandi hér á landi á orkusviðinu og til þess að reisa og reka orkuver stærra en 2.000 kwst. þarf leyfi Alþingis og ef orkuverið er á bilinu 200--2.000 kwst. þarf leyfi iðnrh. Þessi ákvæði orkulaga munu að sjálfsögðu gilda áfram þannig að afnám mismununar í fjárfestingarlögum milli innlendra aðila og aðila innan EES-svæðisins er fremur í orði en á borði.

Loks er á orkusviðinu lagt til að tekin verði af tvímæli um að erlendum aðila sem öðlast eignarrétt og afnotarétt yfir fasteign samkvæmt ákvæðum laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna sé heimilt að nýta jarðhita til beinnar notkunar í atvinnustarfsemi sinni. Þetta gæti t.d. átt við um fiskeldi. Að sjálfsögðu verður nýting á jarðhitanum að vera í samræmi við ákvæði orkulaga sem þýðir m.a. að hömlur eru á því að hann sé virkjaður til almennra nota.

Þá vík ég að öðrum takmörkunum í gildandi lögum sem lagt er til að falli brott eða breytist. Í fyrsta lagi er lagt til að brott falli 25% hámark á eignarhlut erlendra aðila í hlutafélagabanka. Sama gildir um það skilyrði að leyfi viðskrh. þurfi þegar fjárfesting eins aðila eða fjárhagslega skyldra aðila fer yfir 250 millj. kr. á ári og þegar fjárfesting erlendra aðila í tilteknum atvinnugreinum fer yfir 25% af heildarfjárfestingu í þeim.

Samkvæmt EES-samningnum þurfti að fella á brott þessi ákvæði gagnvart aðilum innan EES-svæðisins fyrir 1. janúar sl. og engin rök standa til þess að viðhalda þessum takmörkunum gagnvart aðilum utan EES-svæðisins.

Í öðru lagi er lagt til í samræmi við ákvæði EES-samningsins að 49% hámarkið á fjárfestingu erlendra aðila í félagi er stundar flugrekstur hér á landi falli brott gagnvart aðilum innan EES-svæðisins. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að þessu hámarki verði aflétt gagnvart aðilum utan EES-svæðisins. Þetta stafar af því að atvinnugreinin byggist að miklu leyti á kerfi tvíhliða loftferðasamninga milli ríkja og því þykir engin ástæða til að veita erlendum aðilum rýmri rétt til fjárfestinga en samningsskuldbindingar samkvæmt EES-samningnum kveða á um. Þess má geta að svipaðar takmarkanir gilda enn í flestum vestrænum ríkjum.

Af öðrum meginatriðum læt ég nægja að benda á að í 6. gr. frv. er kveðið á um að viðskrh. skuli á fyrri hluta hvers árs flytja Alþingi skýrslu um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hérlendis næsta ár á undan. Í gildandi lögum er þessi upplýsingaskylda á herðum Seðlabankans. Hann hefur sinnt henni með því að birta upplýsingar í ársskýrslu sinni. Samkvæmt eðli málsins þykir hins vegar rétt að leggja til að Alþingi verði árlega gerð grein fyrir þessum málaflokki. Auk upplýsinga um fjárfestingu erlendra aðila er lagt til að viðskrh. geri Alþingi grein fyrir aðgerðum stjórnvalda til að auka fjárfestingu erlendra aðila hér á landi, beitingu öryggisákvæðisins og hvort stjórnvöld hafi þurft að grípa til aðgerða vegna þess að fjárfesting erlends aðila fór umfram þau mörk sem heimiluð eru.

Virðulegi forseti. Það er við hæfi að þetta frv. skuli rætt skömmu eftir að samningur um stækkun álvers í Straumsvík var undirritaður. Í þeim umræðum fjallaði ég ítarlega um mikilvægi þeirrar fjárfestingar og erlendrar fjárfestingar almennt fyrir íslenskt atvinnulíf. Ég hef engu við þau orð að bæta. En til að erlend fjárfesting geti orðið að veruleika verður hún að vera heimil samkvæmt landslögum. Með því frv. sem nú er til umfjöllunar er stigið afar mikilvægt skref í þá átt að afnema takmarkanir sem reynslan sýnir að ekki er þörf á og skapa tiltölulega frjálslega löggjöf um fjárfestingu erlendra aðila hér á landi.

Ég vil einnig nefna að reynslan sýnir að vilji Íslendingar laða til sín erlenda fjárfestingu þýðir ekki að sitja með hendur í skauti og bíða eftir því að erlendir aðilar komi hingað að eigin frumkvæði. Það gerist að sjálfsögðu við og við, en við viljum ná árangri á þessu sviði og ég tel hiklaust að við eigum að keppa að því.

Á síðustu missirum hefur verið unnið að því að endurskipuleggja markaðsstarf á þessu sviði af hálfu opinberra aðila. Markaðsskrifstofa iðnn. og Landsvirkjunar hefur sinnt þessu verkefni um árabil en nýlega tók til starfa fjárfestingarskrifstofa viðskrn. og Útflutningsráðs. Þeirri síðarnefndu er ætlað að sinna öðrum atvinnugreinum en orkufrekum iðnaði auk þess sem hún beitir sér almennt fyrir því að laða að erlenda fjárfesta til landsins. Til að fyrirbyggja allan misskilning vil ég taka fram að mjög gott samstarf ríkir milli þessara tveggja fjárfestingarskrifstofa.

Fjárfestingaskrifstofu viðskrn. og Útflutningsráðs er m.a. ætlað að sinna erlendum fjárfestingum sem hingað koma eða falast eftir upplýsingum um land og þjóð og fjárfestingartækifæri. Erlendir fjárfestar hafa kvartað yfir því að ekki væri unnt að fá upplýsingar á einum stað heldur hafi þeim verið vísað frá einum stað til annars og upplýsingaefni hafi reynst ófullnægjandi. Úr þessu hefur nú verið bætt með fjárfestingarskrifstofu viðskrn. og Útflutningsráðs.

Þá hefur fjárfestingarskrifstofan skilgreint ákveðin áherslusvið þar sem ætla má að Ísland höfði til erlendra fjárfesta vegna landkosta eða annarra aðstæðna hér á landi. Þar með er ekki sagt að við séum að keppa um erlenda fjárfestingu á þeim grunni að hér standi til boða gull og grænir skógar í formi ríflegra skattaívilnana, fjárfestingarstyrkja eða annarrar fyrirgreiðslu af því tagi, enda höfum við ekki fjárhagslega burði til þess að takast á við það af fullum krafti. Þegar hafa verið sett af stað átaksverkefni í samvinnu við þá aðila sem hagsmuna hafa að gæta. Fyrst var undirritaður samningur um átaksverkefni í samvinnu við Hitaveitu Suðurnesja og fleiri aðila á Suðurnesjum. Þá var í síðustu viku undirritaður samningur um átaksverkefni milli Iðnþróunarfélags Eyjafjarðar, atvinnumálanefndar Akureyrar og héraðsnefndar Eyjafjarðar og fjárfestingarskrifstofunnar um sérstakt matvælaverkefni og átaksverkefni í Eyjafirði.

Eins og ég nefndi í upphafi ræðu minnar er frv. þetta samið af nefnd sem hafði tvíþættu hlutverki að gegna. Frv. er annað þeirra. Hitt er, eins og ég nefndi, að kanna hvort breyta ætti ákvæðum laga þannig að þau verði frekar til þess fallin að örva erlenda fjárfestingu hér á landi. Þar kemur einkum tvennt til álita. Annars vegar að kveða á um í lögum um þá markaðsstarfsemi sem ég vék hér að á undan og hins vegar að veita einhverjar heimildir til að bjóða takmarkaðar ílvilnanir til erlendra aðila sem vilja fjárfesta hér á landi.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.