Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 12. febrúar 1996, kl. 16:15:38 (2891)

1996-02-12 16:15:38# 120. lþ. 88.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., SighB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur


[16:15]

Sighvatur Björgvinsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Áður en komið er að því að ræða þriðja frv. sem hér hefur verið lagt fram vil ég fara nokkrum orðum um með hvaða hætti þessi mál ber að hér á hv. Alþingi sem hæstv. forseti hefur tekið ákvörðun um að skuli ræðast öll saman. Hér er um að ræða annars vegar stjfrv., væntanlega samþykkt af tveimur stjórnarflokkum, borið fram af ráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar og kynnt sem samkomulagsmál. Hins vegar er um að ræða frv. stjórnarandstöðuþingmanna. Og síðast en ekki síst er um að ræða frv. fjögurra þingmanna Sjálfstfl. úr stuðningsliði ríkisstjórnarinnar sem hafa væntanlega fjallað um stjfrv. og staðið að því með hæstv. ráðherra sem flytur það úr ríkisstjórninni.

Áður en lengra er haldið vil ég fá að vita eftirfarandi:

1. Var haft samráð við hæstv. viðskrh. um það að þessi frv. yrðu öll flutt saman undir einum og sama dagskrárlið og leitað samþykkis hans við því áður en sú ákvörðun var tekin? Vissi hann af henni?

2. Ég tel nauðsynlegt að hér komi fram hvort hæstv. viðskrh. var skýrt frá því að fjórir þingmenn Sjálfstfl., þar á meðal formaður þeirrar nefndar sem væntanlega á að taka við þessu máli, mundu leggja fram á Alþingi frv. sem gengur í berhögg við það frv. sem hann hefur mælt fyrir fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna? Vissi hæstv. ráðherra þetta? Gegndi samstarfsflokkur hans þeirri skyldu sinni að skýra ráðherra frá því að svona væri í pottinn búið áður en frv. kom fram á Alþingi eða ekki?

Herra forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að fá að vita þetta. Ég man ekki til þess að samdægurs hafi verið lagt fram annars vegar stjfrv., kynnt sem slíkt, stutt af þeim flokkum sem standa að ríkisstjórninni og hins vegar frv. frá fjórum þingmönnum eins stjórnarflokksins sem gengur í allt aðra átt. Þá er auðvitað spurningin sú: Hafði Sjálfstfl. fyrir þeirri kurteisi í eðlilegum samskiptum stjórnarflokka að skýra hæstv. viðskrh. frá þessu fyrir fram þannig að honum kæmi þetta ekki á óvart eða vissi hæstv. viðskrh. þetta ekki?